Ísland – Óháð olíu
Grein/Linkur: Í dauðafæri til að verða fyrsta landið sem er óháð olíu
Höfundur: Dagný Hulda Erlendisdóttir RÚV
.
.
Október 2021
Í dauðafæri til að verða fyrsta landið sem er óháð olíu
Ísland er í dauðafæri til að vera fyrsta ríkið í heiminum sem verður alveg óháð jarðefnaeldsneyti, að mati Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar. Hann segir þetta hægt vegna reynslu Íslendinga af framleiðslu á endurnýtanlegri orku og sömuleiðis vegna möguleika til framtiðar. Hann segir skynsamlegt að skoða þann möguleika að leggja sæstreng frá Íslandi til útlanda.
„Við hentum mjög vel til að verða fyrsta landið sem losnar við jarðefnaeldsneyti og myndum spara 50 til 100 milljarða á ári í innflutningi á eldsneyti,“ sagði Hörður í Kastljósi í kvöld.
Rafefnaeldsneyti er nýtt orð í umræðunni. Hörður segir þróunina á því sviði mjög öra en að hún sé ekki komin langt. Í rafefnaeldsneyti felst að raforku er breytt í fljótandi eldsneyti sem auðveldara að geyma en raforku á rafgeymum, sem Hörður segir að henti vel í smærri bíla og styttri vegalengdir en síður fyrir flutningabíla og mjög langar vegalengdir. „Rafeldsneytið er talið munu gegna lykilhlutverki í því að ná þeim markmiðum sem þjóðir heims hafa sett í því að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins,“ sagði Hörður.
Miklir möguleikar í útflutningi á rafefnaeldsneyti
Enn sem komið er eru ekki stór verkefni tengdi rafefnaeldsneyti hér á landi en verið er að skoða ýmislegt því tengdu. Orkuskiptin innanlands eru þó helsta málið nú. „En það mun verða mikill markaður erlendis fyrir útflutning á rafeldsneyti ef að við kjósum að taka þátt í því en það er þó nokkur tími í að það gerist en ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir Íslendinga eins og allar aðrar þjóðir að kanna hvaða hlutverk þau vilja spila í þessu því að þarna eru mikil viðskiptatækifæri.“
Skynsamlegt að skoða kosti sæstrengs
Hvað sæstreng til Evrópu varðar segir Hörður vert fyrir Íslendinga að skoða þau mál vel. Sé litið til orkuöryggis, viðskipta og loftslagsmála sé skynsamlegt að skoða þennan möguleika, að mati Harðar. Norðmenn hafi tengt sig í allar áttir og bæði kaupi og selji rafmagn. Þeir kaupi rafmagn að utan og selji það aftur þegar lítið framboð er í öðrum löndum og verðið hækkar. Landsvirkjun hafi skoðað gaumgæfilega þann möguleika að leggja sæstreng og kostirnir séu fjölmargir. Hægt yrði að selja umframorku í kerfinu en hætta útflutningi þegar stefnir í slæm vatnsár.
.