Sumarhús – Hver er lausnin á hreinlætissviði?

Grein/Linkur:  Að fleiru skal hyggja en heitum potti

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Maí 1994

Að fleiru skal hyggja en heitum potti

Er það nokkur furða þó sumarbústaður og sveit séu ofarlega í hugum fólks á þessum árstíma? Það er sagt að Íslendingar séu allir sveitamenn í eðli sínu. Betur að satt væri. En eitt er víst; þeir eru fjölmargir sem hafa ánægju af dvöl utan þéttbýlis og sumir sjá sveitalífið í rómantísku ljósi þar sem stressið er víðs fjarri. Betur að satt væri einnig.

Vandamál aukast

Sveitarfélög og yfirvöld virðast vera furðu sinnulítil gagnvart þeim vandamálum sem upp koma með aukinni sumarhúsabyggð. Þessum byggðum má gróflega skipta í tvo flokka; í fyrsta lagi skipulegar, þéttar sumarhúsabyggðir í eigu einstaklinga og fjöldasamtaka og hins vegar stök sumarhús í eigu einstaklinga.

Þétta sumarhúsabyggðin er komin með mörg vandamál þéttbýlis, einkum á hreinlætissviði. Mörg sveitarfélög í öllum landshlutum hafa fengið ný viðfangsefni þar af leiðandi, viðfangsefni sem þau eiga fullt í fangi með og sum ráða alls ekki við. Ekki ætti það endilega að vera vegna fjárskorts; sumarhúsabyggðir gefa sveitarfélögum umtalsverðar tekjur.

Hver er lausnin á hreinlætissviði?

Það er sama hvort við erum á þessu sviði lagnamála eða öðrum; það er máttur vanans sem tekur völdin. Ekki þarf að ætla að slíkar fullyrðingar séu leið til vinsælda hjá hönnuðum eða iðnaðarmönnum enda aldeilis ekki ætlunin. Miklu heldur hugsað sem olnbogaskot.

Rotþróin hefur verið álitin eina sanna lausnin þar sem ekki er um fráveitur að ræða (þetta er fínt tækniorð og þýðir á mæltu máli skólplögn frá hverju húsi sem sameinast í ennþá víðari lögn og endar einhvers staðar í ósköpunum, úti í sjó, næsta vatni eða fallegri bergvatnsá).

Benda má á nýja leið sem mætti reyna, þó alls ekki sem neinn boðskap um endanlega lausn. Rifjum þetta upp; frárennsli frá sumarhúsi er aðeins frá eldhúsvaski, heitum potti og handlaug. Alls ekki frá salerni. Við notum lífrænt salerni og ekki meira um það.

Staðreyndin er nefnilega sú að það er alls ekki það sem frá salerninu kemur sem er vandamálið.

Vandamálið kemur þegar við þvoum okkur, rökum, þvoum þvott eða skúrum gólf. Þvottaefni eru vandamálið.

Hvernig leysum við það mál við sumarhús?

Í þessu, eins og flestu, eru til fleiri en ein lausn. Hins vegar erum við að leita lausna miðað við þær aðstæður sem eru í flestum sumarhúsabyggðum hérlendis.

Það eru aðallega köfnunarefni og fosfór sem eru í það miklu magni í þvottaefnum að þau geta verið skaðleg. En förum okkur hægt. Þessi efni eru einnig, í réttu magni og réttum leiðum, næringarefni fyrir gróður. Vandinn er fyrst og fremst sá að koma þeim rétta boðleið.

Rétta leiðin er að koma þeim í hæfilegu magni út í jarðveginn án þess að þau lendi beint í grunnvatni, læk eða á.

Þetta er hægt að gera með því að láta afrennslið fara í gegnum svelg. Uppbygging hans verður að taka mið af jarðveginum þar sem hann er staðsettur. Jafnvel þó rotþró sé notuð getur verið nauðsynlegt að láta afrennsli hennar fara í gegnum svelg. Algeng mistök eru að afrennsli rotþróar fari beint í vatn, læk eða á.

Það eru umhverfisspjöll vegna þess að þá er köfnunarefnið og fosfórinn skaðlegur.

Fleira áhugavert: