Hönnun – Hugmyndir, bestu lausnirnar

Grein/Linkur:  Lítil hugmynd getur verið dýrmæt

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Júní 1994

Lítil hugmynd getur verið dýrmæt

Ef þú gengur um íbúðina með gagnrýnum huga muntu koma auga á margt. Hvers vegna er þetta svona? Hvers vegna hefur arkitektinn ákveðið þetta? Hvers vegna er ruslafötunni ætlaður staður undir vaskinum, á rakasta og hljýjasta staðnum þar sem gerlar og bakteríur eiga kjörsvæði? Hvers vegna er brauðskúffan það grunn að formbrauð komast ekki í hana? Svona mætti lengi telja.

Hönnuðir og iðnaðarmenn

Þetta eru menn með sérþekkingu, menn með frjótt ímyndunarafl, menn sem finna ætíð bestu lausnirnar. Eða hvað?

Finna þeir alltaf bestu lausnirnar? Svo ætti að vera, en raunveruleikinn segir allt aðra sögu.

Því miður er það vaninn sem nær tökum á „sérfræðingunum“. Það þarf mikið til að þeir hrökkvi upp úr hjólfarinu, leiti nýrra leiða. Það er miklu einfaldara að hanna kerfið í þessu húsi eins og því síðasta og auðvitað mikill tímasparnaður. Gefur þar af leiðandi meira í aðra hönd.

Eru þetta heiðarleg vinnubrögð?

Svari hver fyrir sig.

Eitt lítið dæmi

Höfum við leitt hugann að því hvað gerist þegar tjón verður á eignum, hvort sem það eru fasteignir eða lausafé? Menn segja sem svo og tryggingarfélögin einnig; hafa allt tryggt, þá er allt í lagi, það tryggir enginn eftir á.

Jú, jú, mikið rétt. En gerum okkur eitt ljóst; í hvert skipti sem brunatjón verður eða vatnstjón og þó eigandi fái allt bætt upp í topp, þá eru samt allir að tapa. Það hafa glatast verðmæti, verðmæti sem einhverjir hafa skapað í sveita síns andlitis.

Það má nefnilega færra að því rök að allir mundu hagnast, einstaklingar, fyrirtæki og þjóðfélagið í heild ef aldrei yrði brunatjón, aldrei vatnstjón og tryggingarfélögin græddu á tá og fingri. Sá gróði leitar sér að farveg til að fá arðsemi. Allt þjóðfélagið hagnast.

En þetta er orinn langur formáli.

Ein algengasta orsök vatnsskaða í hýbýlum er þegar slöngur við þvottavélar springa og vatnið flæðir um allt.

Í fjölmörgum íbúðarhúsum, hvort sem eru flölbýli eða einbýli, eru þvottavélar bæði til tauþvotta og diskaþvotta.

Í íbúð á fjórðu hæð í fjölbýli kann að vera tauþvottavél á baðinu og diskaþvottavél í eldhúsinu, annaðhvort á borði eða felld inn í innréttingu.

Á undanförnum árum hefur það orðið ofaná að setja gólfniðurfall í baðgólfið. Mikil bót að því og hefur ábyggilega komið í veg fyrir umtalsvert tjón.

En hvað um eldhúsið?

Þar er vaskur í borði, það kann að flæða út úr honum. Þar er diskaþvottavél, þar kann eitthvað að bila og valda vatnstjóni.

Hvers vegna ekki að setja gólfniðurfall í eldhússkápinn og góðan sökkul í kring? Tryggja það að vatnið fari beint í niðurfall ef eitthvað fer úrskeiðis? Fyrst þetta er gert í baðinu því þá ekki í eldhúsinu?

Einhver fékk hugmynd. Hann setti niðurfall í baðgólfið. Hvað skyldi þessi hugmynd hafa komið í veg fyrir mikinn skaða?

Hugmyndina á að útfæra hvar og hvenær sem við teljum okkur sjá fyrir að hægt sé að koma í veg fyrir skaða ef slanga eða rör springur.

Þessi hugmynd er ekki að fæðast í mínum kolli. En með þessum orðum er reynt að gefa svefngönguliði hönnuða og iðnaðarmanna olnbogaskot.

Fleira áhugavert: