Dettifoss – Aflmestur, myndir-myndbönd

Grein/Linkur:  Dettifoss – Aflmestur, myndir-myndbönd

Höfundur:  Vatnsidnadur.net

Heimild:     

.

.

SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

.

.

Júní 2020

Dettifoss

Dettifoss er í Jökulsá á Fjöllum, því næst miðja vegu milli Hólsfjalla og byggðarinnar í Öxarfirði.

Hann er einn mesti og mikilfenglegasti foss landsins og er talinn aflmesti foss í Evrópu. Til eru hærri fossar og vatnsmeiri fossar, en þegar tekið mið af öllum þáttum jafnast líklega enginn þeirra á við Dettifoss. Hann er 45 metra hár og 100 metra breiður. Meðalrennsli Jökulsár við Dettifoss er 193 rúmmetrar á sekúndu en í flóðum fer það upp undir 600 rúmmetra á sekúndu.

Dettifoss skásker Jökulsána þannig að sjónarhornið er nokkuð ólíkt eftir því hvoru megin komið er að honum.

Dettifoss að austan

Á liðnum árum hafa flestir komið að Dettifossi austan megin þar sem Hólsfjallavegur austan ár hefur til þessa verið mun skárri en Dettifossvegur vestan ár. Frá bílastæðinu austan megin er stígur all brattur og grýttur, svo fara verður með gát. Þegar kemur niður á gljúfurbarminn eru afmarkaðir göngustígar og útsýnispallur. Hingað er sérstaklega fallegt að koma að morgni dags, þegar sólin að baki litar fossúðann í síbreytilegum regnbogalitum. “Þá fyrst birtist fossinn áhorfanda sínum í allri sinni dýrð” segir Theódór Gunnlaugsson í bók sinni Jökulsárgljúfur. Kristján Fjallaskáld lýsir regnboganum í ljóði sínu hér að neðan og einnig Sr. Matthías Jochumsson sem kallar hann guðdómsgeisla og friðarboga.

Dettifoss er miðfossinn í einstakri fossaröð sem á fáa sína líka í veröldinni. Um kílómetra sunnan hans er Selfoss og í gljúfrunum um 2 kílómetrum neðan við Dettifoss er Hafragilsfoss.

Frá Dettifossi er merkt gönguleið suður að Selfossi sem vert er að skoða þótt minni sé. Selfoss er aðeins um 10 metra hár en mjög breiður. Gönguferðin þangað tekur um klukkustund fram og til baka. Frá bílastæðinu er einnig merkt gönguleið meðfram gljúfrunum niður að Hafragilsfossi. Flestir velja þó þann kostinn að aka niður að bílastæðinu við Hafragilsfoss. Þótt fossin sjálfur sé smærri í sniðum er hann ekki síður áhugaverður en Dettifoss, hvað varðar jarðfræði, sögu og umhverfi sem einstaklega tignarlegt því hér eru Jökulsárgljúfrin hrikalegust.

Dettifoss, Selfoss, Hafragilsfoss svo og næsta nágrenni þeirra austan Jökulsár á Fjöllum var friðlýst sem náttúruvætti árið 1996.

Júlí 1972

Dettifoss að vestan

Vestan Jökulsár á Fjöllum markaði Dettifoss syðri mörk Þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum sem stofnaður var 1973 en varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði við stofnun hans 2008.
Slæmt ástand gamla Dettifossvegar hefur lengi hamlað því að fleiri leggi leið sína að fossinum vestan Jökulsár. Nýr heilsársvegur í stað þess gamla hefur lengi verið í bígerð og nú er kominn malbikaðar vegur frá Þjóðvegi 1 og norður að Dettifossi.
Það er önnur upplifun en engu síður áhrifarík að koma að fossinum vestan megin. Frá bílastæðinu er um 15 mín gangur um sendnar klappir áður en gengið er fram á gljúfurbarminn þar sem fossinn birtist skyndilega í öllu sínu veldi. Stigi hefur verið gerður niður í iðagrænan Fosshvamminn og þegar þangað er komið stendur maður beint andspænis þessu dulmagnaða ógnarafli sem engan getur látið ósnortinn. Úða af fossinum leggur oft yfir Fosshvamminn og getur þar verið hált og því ber að fara gætilega og halda sig innan merktra slóða.
Frá Dettifossi liggur merkt gönguleið að Selfossi og þaðan til baka á bílastæðið. Hringur að Dettifossi og Selfossi er um 2,5 km og tekur 1 klst.

Ógleymanleg upplifun

Dettifoss er og gríðarlega tilkomumikill hvoru megin sem komið er að honum. Svo mikill er krafturinn að bergið allt umhverfis nötrar undan sífelldum dynjandi beljandanum. Sú upplifun að komast í návígi við þann ógnarkraft sem í fossinum býr, lætur engan ósnortinn og líður seint úr minni. Margir hafa orðið til að lýsa þeim áhrifum sem Dettifoss vekur í brjóstum áhorfandans og hefur hann orðið yrkisefni margra skálda, viðfangsefni málara og ljósmyndara og jafnvel uppspretta tónverka.

Dettifoss í vetrarham

Þjóðskáldið, Séra Matthías Jochumsson er eitt þeirra skálda sem orti um Dettifoss. Hann taldi það ekki ómaksins vert að lýsa Dettifossi í óbundnu máli, en það gerði Sigurðu Nordal þó með eftirminnilegum hætti:

Sigurður Nordal

„Af furðuverkum náttúrunnar hefur ekkert fengið á mig eins og Dettifoss.”
„Reynið þér að hugsa yður Dettifoss, sem hafið ekki séð hann. Jökulsá á Fjöllum, eitt af ægilegustu fljótum þessa lands, vaðlaus milli fjalls og fjöru, fellur þar ofan í endann á 170 feta djúpri gjá. Ferðamaðurinn kemur á vesturbakkann, sér ána hverfa ofan í gljúfurkverkina og breiðast fram af austurbrúninni. En fossinn streymir ekki í jafnri sífellu. Hann dettur. Straumþungi árinnar er svo ógurlegur, bjargið svo þverhnípt, að vatnið þeytist fram af brúninni í óskaplegum flekum, sem springa og sundrast í fallinu, leysast sundur í vatnsstjörnur, sem þjóta í allar áttir og draga eftir sér úðahala. Nafnið Dettifoss er valið af glöggri athugun.
Nýir og nýir fleka detta, hver ofan á annan, hverfa ofan í mökkinn í gljúfrinu. Fossinn fellur endalaust og breytir þó mynd á hverju augabragði. Hann seiðir augar til sín, – allt í einu finnst áhorfandanum bakkinn þjóta með hann út í geiminn með ógnarhraða og grípur ósjálfrátt hendinni eftir einhverju að halda sér í. Og hugann sundlar eins og augað. Þessi vitlausi, tilgangslausi tryllingsleikur plægir sálina. Menn standa eins og frammi fyrir stóradómi. Vitið skilur ekki. Viljinn bognar.”

.

Myndbönd tekinn Júni 2020, hægt að stækka:

.

Fleira áhugavert: