Kolaorka – Veröldin er kolsvört

Grein/Linkur:  Nú er það svart!

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Desember 2009

Nú er það svart!

Veröldin er kolsvört. Þrátt fyrir allt talið um stórkostlega aukningu vindorkuvera og sólarorkuvera eru kol sá orkugjafi sem vaxið hefur hraðast í heiminum undanfarin ár. M.ö.o. þá sýnir reynsla síðustu ára, að heimurinn veðjar á kolin. Þrátt fyrir aðvaranir og dómsdagsspár um hlýnun jarðar. Þetta fer bara ekki mjög hátt.

Coal_Power_Station_Bergheim_Germany

Coal_Power_Station_Bergheim_Germany – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Það að nýta varma frá kolabruna til að framleiða raforku, hefur í áratugi verið ódýrasta tegundin af rafmagnsframleiðslu víðast hvar um heiminn. Fyrir vikið hafa kolin lengi verið mikilvægasti orkugjafi mannkyns. Í dag er um 40% allrar raforku heimsins framleiddur með kolabruna og þetta hlutfall hefur ekkert verið að minnka. Þvert á móti gera flestar spár um orkunotkun fram til ársins 2030, að hlutfall kolaorkunnar fari heldur vaxandi!

Ástæðan er einföld. Kol eru ekki aðeins ódýrasti orkugjafinn, heldur líka sú tegund jarðefnaeldsneytis sem ennþá er óumdeilanlega gnótt af. Mannkyninu er ennþá að fjölga og nokkur af stærstu efnahagskerfunum eiga enn eftir að upplifa mikinn efnahagsvöxt.

Þess vegna á raforkuþörfin eftir að vaxa mikið á næstu áratugum og stór hluti af þeirri raforku mun að öllum líkindum koma frá fjölda nýrra kolaorkuver. Undanfarin ár munu hafa verið byggð um hundrað ný kolaorkuver í Kína á ári hverju – sem þýðir að þar í Austrinu góða rísa tvö ný kolaorkuver í viku hverri! Hljómar gæfulega í baráttunni gegn losun koldíoxíðs – eða hittó.

World-proven-coal-reserves

World-proven-coal-reserves

Sem fyrr segir er til nóg af kolum í heiminum. Þar að auki vill svo „skemmtilega“ til, að þetta er sú auðlind sem risahagkerfin eiga einmitt mikið af. Þau fjögur lönd sem búa yfir mestu kolabirgðum veraldar eru nefnilega Bandaríkin, Kína, Rússland og Indland. Þarna á meðal eru þrjú fjölmennustu ríki heims (Kína, Indland og Bandaríkin), stærsta hagkerfi veraldar (Bandaríkin) og tvö af hraðast vaxandi hagkerfum heimsins (Kína og Indland).

Samtals eru íbúar þessara fjögurra kolsvörtu kolaríkja næstum 45% af öllum jarðarbúum. Að auki er vert að hafa í huga að ESB, sem í dag er fjölmennasta vestræna hagkerfið, byggir raforkuframleiðslu sína líka hvað mest á kolum. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að kol skuli vera svo gríðarlega mikið notuð til raforkuframleiðslu.

Þessi fjölmennu lönd – Bandaríkin og þó sérstaklega Kína og Indland – eiga ekkert alltof mikið af olíu. En þau búa aftur á móti yfir miklu af kolum. Og munu því ekki svo glatt draga umtalsvert úr kolanotkun sinni. Þvert á móti er þess að vænta að raforkuframleiðsla með kolabruna eigi á næstu árum og áratugum eftir að verða nokkuð stöðug í Bandaríkjunum og aukast mjög í Kína, á Indlandi og víðar.

China_Coal_Consumption_2006-2015-2030

China_Coal_Consumption_2006-2015-2030

Vissulega horfa þessi stóru og fjölmennu ríki til bæði endurnýjanlegrar orku og einnig til gassins (sem losar um helmingi minna af gróðurhúsalofttegundum en kolin gera). En í þessari óvissu veröld er orkusjálfstæði  að verða sífellt mikilvægara. Hvorki bandarísku olíusvolgrararnir, né hratt vaxandi iðnveldi Kína og Indlands eru spennt fyrir því að þurfa að auka innflutning á orku.

Þau þurfa þvert á móti að nýta sínar eigin orkulindir. Og þá eru kolin hvað nærtækust. Þess vegna eru það einungis draumóramenn sem trúa því að veröldin munu að einhverju marki draga úr losun gróðurhúsalofttegunda næstu áratugina. Líkurnar á að sá draumur rætist eru svona álíka miklar eins og Vímuefnalaust Ísland árið 2000 eða markmiðið um að útrýma fátækt í heiminum.

Auðvitað á maður að vera bjartsýnn. Og metnaðarfullur. Og vonast til þess að með samstilltu átaki þjóða heimsins verði unnt að takmaka og minnka losun gróðurhúsalofttegunda umtalsvert. En það er nákvæmlega engin skynsemi í því að horfa fram hjá staðreyndum eða leggjast í afneitun. Það eina sem getur snúið okkur af braut síaukinnar kolefnislosunar, er að Bandaríkin, Kína, Indland, Rússland og ESB setjist niður og komi sér saman um raunverulega lausn og leiðir. En af því kol eru einhver mikilvægasti, aðgengilegasti og ódýrasti orkugjafi allra áðurnefndra fjögurra ríkja og líka Evrópusambandsins, er nánast vonlaust að búast við raunverulegu og árangursríku samkomulagi um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

World_Coal_Energy_share_2006-2015-2030

World_Coal_Energy_share_2006-2015-2030

Það má vel vera að Kaupmannahafnarráðstefnan skili „glæsilegri“ niðurstöðu. Samkomulagi um 15%, 20% eða jafnvel 50% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda. En að búast við því að slíkar „skuldbindingar“ muni nást eða ganga eftir, er nánast barnaskapur. Um þetta eru flestar ef ekki allar þær stofnanir sem reyna að spá sæmilega raunsætt um framtíðarorkunotkun Jarðarbúa almennt sammála. Það er ekki nóg með að eftirspurn eftir rafmagni eigi eftir að aukast mikið á næstu áratugum – þar að auki er nefnilega barrrasta talið afar ólíklegt að hlutfall kola í raforkuframleiðslunni eigi eftir að minnka. Því miður.

Af hverju? Jú – segjum nú svo að kolarisarnir nái að koma sér saman um mikinn og hraðan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Því yrði einungis unnt að ná fram með byltingarkenndum breytingum á orkubúskap veraldarinnar. Einn mikilvægur þáttur í því væri t.d. að gera rafmagnsbíla miklu samkeppnishæfari – sem yrði mjög dýrt fyrir skattgreiðendur og/eða ríkissjóð. Betra húsnæði (bætt einangrun) og ýmsar aðrar orkusparandi aðgerðir myndu einnig vera þýðingamiklar. En lykilatriðið hlýtur alltaf að vera að losna við útblásturinn frá kolaorkuverunum.

Menn gæla við að dæla koldíoxíðinu niður í jörðina. Það er tær framtíðarmúsík og verður í besta falli mjög dýrt og í versta falli tæknilega ómögulegt. Þess vegna verður að finna valkost sem getur leyst kolaorkuver af hólmi. Ný gasorkuver  gætu þar skipt verulegu máli. Fjölmörg ný gasorkuver eru samt varla besti eða skynsamlegasti kosturinn til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, þó svo þau losi almennt miklu minna en kolaorkuverin. Jarðefnaeldsneyti mun varla leysa vandann!

Coal_production_and_consumption_1998-2008

Coal_production_and_consumption_1998-2008

Ein lausnin verður að leggja stóraukna áherslu á endurnýjanlega orku. En hvorki vindorka, sólarorka né jarðhiti munu geta haft þá þýðingu á næstu áratugum að draga stórkostlega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eini raunhæfi kosturinn til að leysa kolaorkuverin af hólmi og um leið mæta síaukinni raforkuþörf, er endurreisn kjarnorkunnar.

Kjarnorkan er auðvitað mjög umdeild vegna ýmissar hættu sem henni fylgir. Í dag eru þeir þó að verða sífellt fleiri, sem eru farnir að líta á kjarnorku sem grænan orkukost. Af þeirri ástæðu einni að slík raforkuvinnsla losar ekki gróðurhúsalofttegundir. Vandamálið er bara að kjarnorkan er ekkert endilega mjög spennandi lausn. A.m.k. hvorki fyrir Bandaríkin, Kína, Indland né ESB. Af þeirri einföldu ástæðu að mestur hluti úranbirgða veraldarinnar er ekki innan lögsögu þessara ríkja og ekkert sérstaklega aðlaðandi að byggja framtíðarorkubúskap sinn á erlendu hráefni – oft frá óvinveittum eða vafasömum ríkjum. Ný kjarnorkuver munu þó vafalaust líta dagsins ljós í öllum þessum löndum og líka í ESB. En bygging þeirra mun taka langan tíma og verður varla lausn á „loftslagsvandanum“.

COP15_LOGOÞað er einmitt þessi skortur á framtíðarsýn, sem Orkubloggaranum finnst vanta svo sárlega þarna í Borginni við Sundin. Þar situr mikill sérfræðingahópur og reynir að komast að sameiginlegri niðurstöðu um að draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda. Vandamálið er bara að það virðist alveg hafa gleymst að spá í það hvernig ná eigi markmiðunum.

Ef ekki liggur fyrir skýr, tæknilega raunhæf og þokkalega fjárhagslega hagkvæm áætlun um það hvernig Bandaríkin, Kína, Rússland, Indland og ESB ætla að loka kolaorkuverunum sínum, er vandséð að eitthvert samkomulag um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda muni nokkru sinni skila þeim markmiðum sem að er stefnt. Niðurstaðan væri innistæðulaus – líkt og eigið fé hjá glæsilegum íslenskum spútnikbanka. Geisp.

Menn ættu a.m.k. að fara að horfa raunsætt á hlutina. Og hér gildir því miður ekkert annað en kolsvart raunsæi. Vissulega er mögulegt að samkomulag í Kaupmannahöfn geti orðið mikilvægt skref. Og að í framhaldinu verði unnt að móta leiðirnar að markmiðunum. En þegar litið er til staðreyndanna í orkumálum heimsins er það því miður barrrasta heldur ólíklegt.

World_Carbon_emissions_2000

World_Carbon_emissions_2000

Alfíflalegust er þó framkoman gagnvart Afríkulöndunum og fleiri þróunarríkjum, sem eiga nákvæmlega enga sök á stóraukinni losun gróðurhúsalofttegunda síðustu áratugina eða aldirnar. Þessar þjóðir munu aldrei nokkru sinni ná að nútímavæðast og byggja upp heilbrigð og mannvæn samfélög, nema að um leið verði umtalsverð aukning í losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim. Í stað þess að eyða tímanum á Loftslagsráðstefnunni í að finna einhverja styrkjaleið til að Afríka taki á sig skyldur um að takmarka losun, væri nær að kolaveldin myndu líta í eigin barm. Og lýsa yfir bindandi markmiðum sínum og útlista nákvæmlega hvernir þau ætli að hætta að reiða sig á kolaorku. Þá yrði kannski kominn raunverulegur hvati fyrir önnur ríki að leggja sitt af mörkum.

Lars-og-Connie

Lars-og-Connie

En nú ætla Lars Lökke og félagar að taka enn einn þróunarsnúninginn á þriðja heiminn. Og kaupa þessi ríki til að halda að sér í eðlilegri uppbyggingu atvinnulífs. Þó svo hún Connie Hedegaard sé harðdugleg, er hún eitthvað að höndla þetta vitlaust. Danir eru líklega ekki ennþá lausir við gamla góða fílinginn af því að vera nýlenduþjóð. Enda umhugað um að geta áfram mætt mestallri raforkuþörf sinni með kolaorkuverum. Þetta er svo gjörsamlega fáránleg stefna þarna á Loftslagsráðstefnunni að Orkubloggarinn á eiginlega barrrasta ekki eitt aukatekið.

Fleira áhugavert: