Vatnsskortur, Des 2020 – Minnkandi afkastageta hitaveitu?
Grein/Linkur: Kuldaboli enduruppvakinn?
Höfundur: Árni Gunnarsson
.
Desember 2020
Kuldaboli enduruppvakinn?
Opið bréf til stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur.
Þriðja árið í röð mega höfuðborgarbúar búa við að vera af stjórnendum OR varaðir við yfirvofandi vatnsskorti hjá Hitaveitunni vegna þess að spáð er frostdögum næstu daga. Í fjölmiðlum er slegið upp fyrirsögnum um að viðbragðs áætlun veitunnar hafi verið virkjuð, geta kerfisins komin að þolmörkum þess, sem er sögð vera um 18.000 [m3/h] í hámarks rennsli, samsvarandi um 1.015 [MW] í varmaafli (miðað við nýtingu vatnsins 80/30°C).
Takið eftir, nú er árið 2020. Síðast tæmdust miðlunargeymar Hitaveitunnar 4. janúar 1968, fyrir meira en hálfri öld! Upp frá því tókst að fullnægja þörfum veitunnar þar sem vel tókst til við boranir, þróun áreiðanlegra öxul-borholudæla, byggingu miðlunargeyma og svo framvegis, þrátt fyrir ævintýralegan vöxt Hitaveitunnar þegar öll hverfi borgarinnar voru tengd veitunni. Síðar tók við tenging nágranna byggðarlaganna Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Álftaness og Kjalarness samhliða ört vaxandi höfuðborg.
Veturna 1988/89 og 1989/90 skall hurð oft nærri hælum, þar sem stöðugt dró úr afkastagetu borholudæla vegna lækkunar á vatnsborði jarðhitakerfanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu svo og þeirrar afdrifaríku þróunar að taka þurfti 4 af 56 vinnsluborholum veitunnar varanlega úr rekstri til að varna frekari skemmdum á kerfunum, vegna sjávar- og grunnvatnsleka inn í þau, þar sem álagið á þau, lækkun vatnsborðs, hafði farið fram úr sjálfbærri nýtingu þeirra. Þessa tvo vetur tókst að afstýra vatnsskorti, tæmingu miðlunargeyma, með rekstri 90 [MW] olíukyndistöðvar svo dögum skipti. Þegar Nesjavallavirkjun var loks tekin í notkun á elleftu stundu í byrjun september 1990, snerist taflið við.
.
.
Spurt er, hvernig getur það staðist að aflgeta Hitaveitunnar nægir nú ekki til að standa undir álagi þegar frost er úti samfellt í nokkra daga? Á sama tíma hefur veitan aðgang að margfalt meiri varmaorku á Nesjavöllum og Hellisheiði, óbeislaðri svo ekki sé minnst á þá sem þar er sóað vegna ágengrar raforkuvinnslu langt umfram þarfir Hitaveitunnar. Ljóst er að nýting jarðhitakerfanna á höfuðborgarsvæðinu hefur verið frá gangsetningu Nesjavallavirkjunar fyrir 30 árum í jafnvægi og sjálfbær. Reynslan hefur kennt veitunni áþreifanlega samanber ofangreint að ekki er í boði að auka álagið á þau.
Það sem gerir þessa stöðu veitunnar enn óskiljanlegri er að nýlega hefur dregið úr afkastagetu Hitaveitunnar meðal annars vegna (hámarks aflgeta sögð 1015 [MW]):
- Önnur af öflugustu borholum Laugarnessvæðis hefur verið tekin úr umferð nú í vetur. Afkastageta hennar er um 17 [MW] eða 1,7% af heild. Hvers vegna? Opinbera skýring veitunnar er að það hafi myndast tappi í henni. Samkvæmt ársskýrslu veitunnar er í ársbyrjun 2020 ekkert lát sagt vera á afkastagetu hennar. Hverju skal trúa?
- Eru fleiri borholur á höfuðborgarsvæðinu úr rekstri?
- 90 MW olíukyndistöð Hitaveitunnar á Ártúnshöfða, um 9% af heild. Hvað varð um hana? Hún sem gagnaðist svo vel áður fyrr sem toppaflsgjafi.
- Nokkrir af miðlunargeymum veitunnar á Öskjuhlíð hafa verið teknir undir aðra starfsemi. Nýting þeirra til dægurmiðlunar og sem toppaflsgjafa aflögð. Hvers vegna?
- Flutningsgeta Nesjavallaæðar hefur skerst um 18% (70 MW), vegna mistaka í rekstri Nesjavallavirkjunar. Ótrúlega miklu magni af varmaorku frá virkjuninni er enn fargað í grunnvatnskerfi staðarins í stað þess að nýta hana fyrir Hitaveituna eins og virkjunin var í upphafi fyrst og fremst hönnuð fyrir og byggð til að gegna. Hvers vegna líðst það enn? „Öll sóun jarðvarmans stríðir á móti hagfræðilegum og siðferðilegum sjónarmiðum,“ ritaði Jóhannes Zoëga í æviminningum sínum 2006. Það eru orð að sönnu.
Eigendur Hitaveitunnar, íbúar höfuðborgarsvæðisins, eiga rétt á að vera upplýstir um hvers vegna hún hefur hafnað í þessari ótrúlega slæmu stöðu að geta ekki í kuldatíð fullnægt hitaþörf notenda. Þessi staða uppkomin, þrátt fyrir að gjaldskrá Hitaveitunnar er nú hærri borin saman við helstu hitaveitur landsins? Sú var tíðin að gjaldskrá Hitaveitunnar var lægst. Hvernig hyggst Orkuveita Reykjavíkur koma í veg fyrir hættu á vatnsskorti hjá Hitaveitunni til framtíðar (Plan 2)? Það er enginn skortur á möguleikum til að veruleikagera það.
Höfundur er fyrrverandi yfirverkfræðingur Hitaveitu Reykjavíkur.