Eimað vatn – Hvað er það?
.
September 2013
Eimað vatn?
Íslenska kranavatnið þykir mjög hreint og algjör óþarfi er að sjóða það áður en það er drukkið. Þetta vatn er þó sjaldan notað í tilraunir og við mælingar á rannsóknarstofum enda geta þá jafnvel minnstu óhreinindi í vatninu valdið vandræðum. Á rannsóknarstofum er þess vegna yfirleitt notað eimað vatn (e. distilled water) eða afjónað vatn (e. deionized water, skammstafað DI water).
Eimað vatn er einfaldlega vatn sem hefur verið soðið, vatnsgufunni safnað og hún þétt með kælingu; þannig fæst hreinna vatn en byrjað var með. Eimað vatn er til dæmis fengið með því að sjóða vatn í eimingartæki eins og sést á mynd 1. Hægt er að sjóða íslenskt kranavatn beint í eimingartækjum vegna hreinleika vatnsins. Kranavatnið kemur inn í suðuhólf (e. boiler) þar sem það hitnar að suðumarki, vatnsgufan leitar upp í gufuþétti (e. condenser) sem er vatnskældur turn (kælivatnið er í lokuðum spíral inni í turninum) og við það þéttist gufan aftur í vökva sem rennur í þar til gert safnílát.
Eimaða vatnið getur einnig innihaldið rokgjörn lífræn efni (e. volatile organic compounds, skammstafað VOC), það er efni sem hafa suðumark um og undir suðumarki vatns. Til að minnka magn þessara VOC-efna í eimaða vatninu hleypa sum eimingartæki efnunum út á gufuformi áður en þau fara inn í gufuþéttinn. Einnig er algengt að hafa kolasíu (e. activated charcoal filter) milli gufuþéttisins og safnílátsins; kolaagnirnar í kolasíunni draga nefnilega í sig ýmis lífræn efni.
Eimað vatn er tiltölulega örverufrítt því flestar örverur eins og (bakteríur (gerlar), veirur, ger- og myglusveppir) drepast við suðuna. Utanaðkomandi örverur geta þó slæðst ofan í safnílátið með öðrum leiðum en þar sem eimað vatn er mjög næringarsnautt eiga örverurnar erfitt með að fjölga sér þar. Eimað vatn er því hægt að geyma án vandræða í nokkrar vikur með tilliti til örveruvaxtar. Innri gæðareglur rannsóknarstofa kveða þó oft um að vatn sé ekki geymt lengur en í nokkra daga í geymsluílátinu og passað er upp á að þvo ílátið reglulega.
Hreinsa þarf suðuhólf eimingartækja af og til vegna steinefna sem safnast þar fyrir. Því harðara sem vatnið er, þeim mun meiri steinefni (aðallega kalsín og magnesín) inniheldur það og því oftar þarf að hreinsa eimingartækin; íslenskt vatn flokkast sem mjúkt vatn þar sem það inniheldur lítið magn af steinefnum.
Það getur tekið þónokkurn tíma að eima vatn og einnig þarf að hafa gott geymslupláss ef eima á mikið af vatni í einu. Auk þess er hægt að hreinsa steinefni betur frá vatninu með afjónunartækjum en eimingartækjum. Hreinsun vatns með afjónunartækjum þykir því vanalega þægilegri kostur.
.
Heimildir:
- DEIONIZED WATER vs DISTILLED WATER: What’s the difference. (Skoðað 22.08.2013)
- Electrical resistivity and conductivity – Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 22.08.2013)
- Hreinsun, sótthreinsun og dauðhreinsun áhalda 2013.pdf. (Skoðað 23.08.2013)
- Distilled Water | Baseline of Health. (Skoðað 28.08.2013)
- Sylvan Source – Facts vs Myths. (Skoðað 28.08.2013)
- Hreinlætis- og örverufræði – baráttan við örverurnar og áhrif þeirra. (Skoðað 22.08.2013)
Myndir:
- Mynd 1: Eimingartæki – Emelía Eiríksdóttir
- Mynd 2: Ambassador Autoclave – Rodwell Scientific Instruments. (Sótt 01.09.2013)
Höfundur þakkar Snorra Þórissyni framkvæmdastjóra Rannsóknarþjónustunnar Sýni fyrir upplýsingar sem nýttust við gerð þessa svars.