Danmörk – Vatnsskortur yfirvofandi

Heimild:

.

Ágúst 2019

Vatnsskortur yfirvofandi í Danmörku – Miklir þurrkar ógna grunnvatninu

Miklir þurrkar á síðasta ári og nú í sumar hafa alvarleg áhrif á vatnsbúskap Dana, svo alvarleg að vatnsskortur er yfirvofandi og ekki er útilokað að grípa þurfi til vatnsskömmtunar. Grunnvatn er uppspretta drykkjarvatns í Danmörku enda ekki hægt að sækja vatn í jökla eða upp á fjöll.

Meiri úrkoma hefur verið í sumar en síðasta sumar en samt sem áður er vatnsstaðan nú sú sama og fyrir ári. Danskir fjölmiðlar skýra frá þessu. Fram kemur að þetta sé fyrsta þurrkatímabilið, sem nær yfir meira ein eitt ár, frá því á tíunda áratug síðustu aldar. Þetta hefur í för með sér að grunnvatnsstaðan versnar dag frá degi.

Hans Jørgen Henriksen, hjá dönsku jarðfræðistofnuninni, segir að hugsanlega sé ekki svo langt í að skammta þurfi vatn. Danir séu mjög viðkvæmir fyrir svona langvarandi þurrkum þar sem þeir treysti alfarið á grunnvatnið.

Fyrir aðeins tveimur árum var grunnvatnsstaðan mjög góð enda rigndi mikið sumarið 2017. En á síðasta ári herjuðu miklir þurrkar og nær ekkert rigndi allt sumarið. Úrkoman síðasta vetur nægði ekki til að bæta þurrkana um sumarið upp. Og úrkoman í sumar hefur ekki verið nægilega mikil til að bæta ástandið.

Einnig ógna loftslagsbreytingarnar grunnvatni Dana því þær hafa í för með sér hækkandi yfirborð sjávar og þá eykst hættan á að sjór komist í grunnvatnsból við strendur landsins.

Fleira áhugavert: