Thomas Boone Pickens – 1928/2019

Heimild: 

.

Janúar 2010

Pickens í stuði

Go back to sleep America. The Oil Crisis is over.  „I dont think so!“ Gamli olíurefurinn T. Boone Pickens virðist sjaldan hafa verið í jafn feykilega góðu stuði eins og einmitt núna, kominn á níræðisaldur.

pickens_biography.jpg

pickens_biography

Það er að vísu erfitt þessa dagana að fjármagna áhættusamar framkvæmdir og þess vegna hefur hægt á metnaðarfullum vindorkuáformunum hans. Það verður því miður ekkert af því, í bili a.m.k., að Pickens reisi stærsta vindorkuver í Bandaríkjunum vestur á vindbörðum sléttum Texas.

En Pickens lætur það ekki stöðva baráttu sína fyrir framförum í bandarískum orkumálum. Nú leggur hann alla áherslu á að trukkafloti Bandaríkjanna snúi baki við díselolíunni og halli sér að metani. Og þó svo lífrænt metan sé hið besta mál, er Boone Pickens ekki að horfa til þess – heldur þess að Bandríkjamenn sæki meira gas í jörðu. Það hefur nefnilega komið í ljós á síðustu árum að það er miklu meira af vinnanlegu og ódýru gasi í Bandaríkjunum heldur en menn höfðu áætlað. Með því að sækja þetta gas og nota það á bandaríska flutningabílaflotann má spara óhemju af olíu og þar með minnka þörf Bandaríkjanna á innfluttri olíu umtalsvert.

Það er eitur í beinum Pickens að horfa upp á hundruð milljarða dollara streyma á ári hverju frá bandarískum almenningi og fyrirtækjum til olíufurstanna við Peraflóa og annarra einræðisherra. Það er sem sagt engin tilviljun að Pickens notar Arabagrýluna í nýjustu sjónvarpsauglýsingunni, sem nú gengur í bandarísku sjónvarpi. Tilgangurinn er og að þrýsta á þingmenn og stjórnvöld í Washington DC til að horfa í ríkari mæli til gassins.

Margir dást að kraftinum í Pickens, sem bráðum verður 82ja ára. Sjálfur gerir hann góðlátlegt grín að sjálfum sér og býður hverjum ungum manni sem er að skipta á milljörðunum gegn því að fá æsku viðkomandi. Þetta segir Pickens reyndar af þvílíkri sannfæringu að um leið nær hann að minna fólk á að peningagræðgi eigi aldrei að verða að forgangsatriði í lífinu.

En úr því Orkubloggið ar farið að minnast á peninga, þá má rifja upp að skv. tímaritinu Forbes er veraldlegur auður Boone Pickens nú talinn vera rúmlega einn milljarður dollara. Hefur rýrnað um heila 2 milljarða dollara eða 65% frá árinu áður! Það stafar aðallega af því að eignir Pickens sveiflast mjög í takt við olíuverðið og þegar Forbes-listinn var reiknaður út 2008 var olíuverð í hæstu hæðum. Nýjasti listinn (frá 2009) kom aftur á móti út um það leyti sem olíuverð hafði hrapað og dregið með sér mörg helstu orkufyrirtæki Bandaríkjanna.

Pickens er síðustu misserin búinn að vera á ferð og flugi að kynna boðskap sinn um bæði vind og gas. Hann reynir auðvitað oftast að lúlla heima hjá kellu sinni og er venjulega mættur á skrifstofuna sína hjá vogunarsjóðnum BP Capital í Dallas fyrir kl 6 á morgnana (BP Capital fjárfestir í hrávörum og verkefnum sem tengjast með einhverjum hætti orku). Þar byrjar hann daginn á líkamsrækt áður en hann einhendir sér í verkefni dagsins. Sem þessa dagana er oftast að skjótast með Gulf Stream þotunni sinni um Bandaríkin og flytja fyrirlestra um að bandaríska þjóðin losi sig úr snöru innfluttrar olíu og gangi ótrauð í átt að meira orkusjálfstæði.  Lesendur Orkubloggsins geta sjálfir tekið þátt í þessu ágæta verkefni Boone Pickens, með því að skrá sig á Pickens Plan.

pickens_smiling.jpg

T. Boone Pickens 1928-2019

Ýmsir hafa velt fyrir sér hvaðan Pickens fær óþrjótandi lífsorku sína og nú síðast féllst hann á að taka þátt í rannsókn Texasháskóla um langlífi. Til að gera langa sögu stuttu, mun þar hafa komið í ljós að virknin í heila Boone Pickens sé svipuð og meðaltalið hjá þeim sem eru á þrítugsaldri (20-29 ára). Vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni segja ástæðuna sambland af erfðum, aga og lífsstíl. Pickens stundi reglulega og góða líkamsrækt og í stað þess að halda sig mest í sama umhverfinu sé hann óhræddur við að takast sífellt á við nýjar áskoranir og hitta og kynnast nýju fólki. Þetta viðhaldi virkni hans bæði líkamlega og andlega – auk þess sem hann sé andlega vel af Guði gerður.

Orkubloggarinn hefur lengi haft gaman af því að fylgjast með T. Boone Pickens. Og vonar að hann endist lengi enn… þrátt fyrir að kallinn hafi venjulega stutt repúblíkanabjánana í bandarískum forsetakosningum. Og jafnvel þótt það örli kannski á laufléttum fordómum í garð Araba í nýjustu auglýsingunni hans, er sá gamli vel meinandi. Hann vill einfaldlega að bandaríska þjóðin framleiði sitt eigið eldsneyti. Það ættu Íslendingar líka að gera að sínu metnaðarmáli.

Fleira áhugavert: