Þróun hitakerfa – Ofnhita-, lofthitakerfi

Heimild: 

.

Júlí 1995

Hitakerfi þróast í gagnstæðar áttir

Ofnhitakerfin eru stöðugt að verða einfaldari,. Lofthitunarkerfin verða aftur á móti æ flóknari.

Aldrei verður fullyrt með vissu hvar fyrsta hitakerfið var lagt og hver gerði það, kerfi sem byggðist á því að hita upp vatn og láta það streyma um pípur og ofna og skila varma til allra hýbýla. Oftast er miðað við árið 1792, þegar miðstöðvarhitun var lögð í Englandsbanka. Að vísu voru það Frakkar sem voru á undan Englendingum, en ekki til að hita upp hýbýli manna, heldur til að hita gróðurhús og einnig hænsnahús.

Lofthitakerfi eru miklu eldri og voru talsvert notuð á dögum Rómverja og enn þann dag í dag eru þessi hitakerfi, hvort sem hitaberinn er vatn eða loft, þau kerfi sem við notum til að veita okkur yl, ánægju og þægindi. En það er vissulega forvitnilegt að skoða örlítið hvernig þessi kerfi hafa þróast, vatnshitakerfin annars vegar og lofthitakerfin hins vegar.

Til einfaldleikans

Ofnakerfi eru langalgengustu vatnshitakerfin, en á tímabili fyrir nokkrum áratugum var geislahitun í lofti algeng, en er nú nánast horfin. Hins vegar eru gólfhitakerfi stöðugt að vinna á í Vestur- Evrópu og þeirrar þróunar gætir einnig hérlendis.

Fyrir fimmtíu árum þekktist tæplega nokkur sjálfvirkur stjórnbúnaður á ofnhitakerfum og algengasti hitagjafinn var kol. Fyrsta verk húsmóður á hverju heimili var að fara í kjallarann og kveikja upp; þá var oft kalt í húsum eftir nóttina á köldum vetrum. Engar dælur voru heldur á þessum hitakerfum, það var aðeins eðlislögmálið sem var drifkrafturinn, heita vatnið var léttara en það kalda og þess vegna steig það upp en það kalda seig niður; hringrásin var hafin.

Síðar fer að koma ýmis sjálfvirkur stjórnbúnaður, dælur knýja vatnið, raftengdir mótorlokar opnuðu og lokuðu fyrir rennslið en þeir stýrðust af hitanema, sem oftast var staðsettur í stofu og þannig fékkst jafnari hiti öllum til ánægju.

Yfirleitt er það eðli tækninnar að verða flóknari og flóknari, en stýringar ofnhitakerfa tóku þveröfuga stefnu og er það ekki síst að þakka þeim merka manni Mads Clausen, stofnanda Danfoss. Hann hóf framleiðslu ofnventla, sem ekki þurftu neina raftenginu því drifkraftur þeirra er sú eðlisfræði að gas eða vax þenst út við hækkandi hita og dregst saman við kólnun; þetta er sá kraftur sem opnar og lokar ventlinum, ýmist opnar fyrir vatnið eða lokar. Þróunin hefur því óumdeilanlega verið í átt til einfaldleikans.

Þveröfug þróun

Lofthitakerfi Rómverja voru vissulega einföld. Um þau eru enn til menjar t.d. í Þýskalandi. Flest munu þau hafa verið þannig gerð að loftstokkar lágu undir gólfi, það var síðan eðlisfræðin sem var drifkrafturinn; heita loftið leitaði upp en það kalda niður.

En slíkur einfaldleiki er ekki aðall lofthitunarkerfa nútímans eða loftræstikerfa eins og þau eru nefnd í dag. Hlutverk þeirra er tvíþætt; í fyrsta lagi að hita upp vistarverur en ekki síður að flytja burt mengað loft og koma með hreint í staðinn. Loftræstikerfi í einhverri mynd eru því ómissandi í samkomuhúsum þar sem reykur, sviti og önnur mengun kemur frá því fjölmenni sem þar er, en á síðari árum er það nánast sjálfgefið að loftræstikerfi séu einnig í skólum, söfnum, skrifstofum og fleiri vinnustöðum.

En þróun loftræstikerfa hefur ekki verið þróun til einfaldleikans eins og þróun ofnhitakerfanna. Stýring þeirra verður stöðugt flóknari og vélbúnaður og stokkar taka meira og meira rými, engin opinber umræða fer fram um þetta hérlendis en það er eitthvað öðruvísi hjá okkar næstu nágrönnum á Norðurlöndum, þar er stöðug umræða í gangi og fleiri og fleiri setja spurningarmerki við þróunina og spyrja sjálfa sig og aðra hvort ekki sé tími til að spyrna við fótum.

Það er ótrúlegt en satt að þess eru dæmi hérlendis að loftræstitækin, vélbúnaðurinn, hafi fyllt allt að fjórðungi gólfrýmis þess húsnæðis sem hann á að þjóna og er þá ekki meðtalið það rými sem stokkarnir krefjast.

Arkitekt einn var að hanna skóla og ofbauð svo hversu hönnuður loftræstikerfisins krafðist meira og meira rýmis að hann stundi upp: „Er ekki best að þú fáir allan kofann, það verður bara að kenna úti á lóð.“

Fleira áhugavert: