Austur Eyfellingar – Heitt vatn, borhola

Heimild:

.

September 1995

Skógarfoss af heitu vatni

Möguleikar hér á orkuöflun til húshitunar eru margir. Við höfum engan veginn gefið þeim nægan gaum.

Það hljóp á snærið hjá Austur- Eyfellingum þegar heitt vatn streymdi upp úr borholu, það hljóta allir að gleðjast yfir því ef þessi fagra sveit getur hætt að brenna olíu sér til hitunar og notað til þess í staðinn heitt, tært vatn úr iðrum jarðar, ekki síður verður þægilegt að fá sundlaug í sveitina til hollustu og líkamsræktar.

Einn ágætur fræðingur og bormaður vakti athygli á því í viðtali á skjánum af þessu tilefni, að möguleikar á öflun innlends varma í stað varma úr innfluttri olíu væru meiri hérlendis en viðurkennt hefði verið fram að þessu.

Þetta voru orð í tíma töluð.

Möguleikarnir eru margir

Það er alkunna að brennsla hverskonar efna, hvort sem þau eru í föstu eða fljótandi formi, hefur í för með sér talsverða en mismikla mengun, líklega er gasbrennsla einna umhverfisvænust. Olían er ekki barnanna best, en líklega gætum við losnað við það litla sem eftir er af notkun hennar hérlendis til húshitunar með tiltölulega litlum kostnaði.

Sú staðreynd, að olían er alltof verðmætt hráefni til að brenna því, hefur litla þýðingu hérlendis og ekki verður það hlutskipti okkar Íslendinga að fara að breyta viðhorfum heimsins að því leyti svo við skulum láta það tal niður falla.

Fyrir utan heita vatnið höfum við annan innlendan orkugjafa, sem notaður er til húshitunar, raforkuna. Einhvernveginn hefur okkur tekist þannig til í byggingu raforkuvera að hún er hér óeðlilega dýr vegna of mikillar framleiðslugetu, vonandi breytist það með betri nýtingu ef stærri og fleiri orkukaupendur bætast við.

Það væri freistandi að benda hér á þó nokkra möguleika á orkuöflun til húshitunar; möguleika sem við höfum engan veginn gefið nægan gaum og það skal verða gert í næstu pistlum.

Áður hefur verið bent á að notkun á varmadælum gæti verið hagkvæmur kostur á ýmsum stöðum á landinu og reynt hefur verið að skýra nokkuð hvað varmadæla er en hún er þeirrar náttúru að hún skilar frá sér þrefaldri þeirri orku sem hún notar.

En þeir fáu aðilar, sem áhuga hafa haft á því að nota varmadælur, hafa mætt andstöðu hjá yfirstjórn rafveitumála hérlendis; það er engin spurning að orkumálaráðherra á að láta það mál til sín taka.

Varmi í jörðu

En í þessum pistli skulum við halda okkur við einn möguleika, möguleika sem bormaðurinn á skjánum benti á; það er hækkandi hiti eftir því sem neðar kemur í jarðskorpuna, en það er ekki víst að þar sé vatn.

Þessvegna fáum við ekkert heitt vatn upp úr borholum á þeim svæðum, ekki nema við göngum feti lengra eins og víða er gert í Skandinavíu; það er einfaldlega dælt vatni ofan í slíkar borholur og það síðan látið flytja varmann upp á yfirborðið.

Það má ekki búast við að þannig fáist hátt hitastig, en þá er sá möguleiki að auka orkuna með notkun varmadælu en jafnvel án hennar er oft mögulegt að fá nægilega hátt hitastig t. d. 30 – 40 gráður, sem er mjög vel nýtanlegt í gólfhitakerfum.

Fleira áhugavert: