Sjálfkeyrandi bílar – Sagan, þróunin
Heimild:
.
September 2015
Ralf G. Herrtwich, sem er yfir þróunardeild sjálfkeyrandi bíla hjá Mercedez-Benz, hélt mjög athyglisverðan fyrirlestur á Haustráðstefnu Advania í Hörpu. Þar fræddi Herrtwich ráðstefnugesti um þróun Mercedez-Benz á sjálfkeyrandi bílum.
,,Bílarnir sem Mercedez-Benz er að þróa eiga að verða þriðji staðurinn til að vera á milli heimilis og vinnu. Þegar fólk getur slakað á í bílnum, unnið, eða lagt sig gjörbreytist tilgangur bílsins. Þá skiptir máli að bíllinn geti keyrt sig sjálfur án aðstoðar farþega,” sagði Herrtwich. Hugmyndabíllinn Mercedes-Benz F 015 Luxury in Motion lofar góðu en hann hefur verið í prófunum og reynsluakstri undanfarna mánuði.
,,Hraðbrautarakstur er augljóslega auðveldari fyrir sjálfkeyrandi bíl heldur en akstur í borgum. Þar eru fótgangandi vegfarendur, hjólreiðafólk og umferðarteppa sem eru áskoranir fyrir sjálfkeyrandi bíla. Gefa inn, stýra, komast örfáa metra í umferðarteppu, bremsa, og endurtaka þetta margoft. Þetta eru áskoranir en við ætlum að gera sjálfkeyrandi bíla Mercedes-Benz tilbúna fyrir borgarakstur. Búnaður sem stýrir bílnum algjörlega sjálfvirkt gegnum umferðarteppu er nú reyndar þegar til staðar í nokkrum bílum Mercedes-Benz,” sagði Herrtwich.
Hann sagði að helsta áskorunin sem hönnuðir sjálfkeyrandi bíla stæðu frammi fyrir á þessari stundu væri ekki bara að koma í veg fyrir mistök ökumanna heldur frekar að láta bíla herma eftir því sem ökumenn gera vel. ,,Þægindi munu verða í fyrirrúmi í sjálfkeyrandi bílum Mercedez-Benz. Það að þurfa ekki alltaf að sitja við stýrið býður upp á nýja möguleika fyrir innri hönnun bílsins,” sagði Herrtwich. Þýski lúxusbílaframleiðandinn er bæði að þróa sjálfkeyrandi einkabíla og flutningabíla.
,,Það eru augljóslega mjög spennandi tímar framundan hjá Mercedes-Benz og í bílageiranum almennt. Ég tel að á næstu 10 árum megum við búast við meiri breytingum á bílum og bílaiðnaðnum en orðið hafa á síðustu 100 árum,” segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, sem er umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi.