Evrópusambandið – Orkumál ESB

Heimild: 

.

 

Ágúst 2010

Blikur á lofti í orkuframtíð ESB

european-union_flag.jpg

european-union_flag – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Það er þetta með Evrópusambandið.

Um það leyti sem Orkubloggarinn útskrifaðist úr lagadeildinni fyrir… fyrir svo ótrúlega mörgum árum, var bloggarinn sannfærður um ágæti þess að Ísland yrði aðili að ESB. Taldi ESB eiga svo mikla framtíðarmöguleika, að það væri eiginlega alveg borðleggjandi að leita eftir aðild að sambandinu.

Þetta var vorið 1991. Og bloggarinn er reyndar ennþá svolítið spenntur fyrir Evrópusambandinu. En ekki verður framhjá þvi litið að ESB stendur nú frammi fyrir miklum vanda í orkumálum, sem kann að veikja mjög stöðu sambandsins til framtíðar. Þar er Orkubloggarinn að vísa til vatnaskilanna sem urðu árið 2004 í efnahagssögu ESB. Árið 2004 var nefnilega fyrsta árið í sögunni sem ESB fékk meira en helminginn af orku sinni frá innfluttum orkugjöfum.

Í dag er hlutfall innfluttrar orku hjá ESB um 54% og flest bendir til þess að hlutfall innfluttrar orku muni vaxa á næstu árum (þó svo kreppan hafi nú aðeins slakað á orkuþörfinni – tímabundið). ESB er sem sagt að verða æ háðara öðrum um orku. Það á bæði við um olíu á samgöngutækin og gas til raforkuframleiðslu og annarra daglegra nota.

Nú framleiða einungis 9 af aðildarríkjunum 27 svo mikla orku að það fullnægi meira en helmingi af orkuþörf viðkomandi landa. M.ö.o. þá þurfa 18 aðildarríkja ESB að flytja inn meiri orku en þau framleiða (hér er átt við alla orku; alla raforku, eldsneyti til raforkuframleiðslu og olíuafurðir á samgöngutækin). Og það sem enn verra er; í hópi hinna 18 ríkja sem eru rauðu megin við strikið eru nefnilega nær öll fjölmennustu löndin innan sambandsins. Nær allar fjölmennustu þjóðirnar – Frakkar, Ítalir, Spánverjar og Þjóðverjar – þurfa að flytja inn meira en helming orkunnar.

eu_energy_dependency_1020927.png

eu_energy_dependency

Af stóru þjóðunum er staða Ítala verst. Ítalía flytur inn hátt í 90% af allri orku sem notuð er í landinu! Spánverjar flytja inn meira en 80% og Þjóðverjar rúmlega 60%.  Frakkar eru nánast á pari (50/50) þrátt fyrir öll kjarnorkuverin sín, en ekkert land framleiðir jafn mikið af rafmagni með kjarnorku eins og Frakkland.

Sjá má hlutfall innfluttrar orku hjá hverju aðildarríkjanna í töflunni hér að ofan. Einungis eitt af aðildarríkjum ESB framleiðir meiri orku en það notar. Það er Danmörk! Og sem fyrr sagði þá flytur ESB nú inn um 54% af allri sinni orku. Hlutfallið væri ennþá svartara (hærra) ef ekki vildi svo vel að eitt fjölmennasta landið innan ESB – Bretland – er ennþá gríðarlegur orkuframleiðandi.

Bretar fullnægja enn um 80% af orkuþörf sinni með eigin framleiðslu. Það geta þeir þakkað miklum kolanámum og gríðarlegum olíu- og gasauðlindunum í Norðursjó. Pólland er annað afar fjölmennt ríki sem er nokkuð vel sett með orkulindir. En það er vel að merkja nær eingöngu að þakka geggjuðum kolanámum landsins.

uk-electricity_coal-gas.gif

uk-electricity_coal-gas

Stóra vandamálið er að á næstu árum mun staða Breta að öllum líkindum versna til muna. Allt frá 1980 hefur kolavinnsla í Bretlandi farið hnignandi og Bretar sífellt þurft að flytja meira inn af kolum. Olíu- og gasvinnslan innan breskrar lögsögu hélt þó áfram að vaxa enn um sinn, eftir að kolaframleiðslan hafði toppað. Þess vegna var einfalt mál að nota gasið sem orkugjafa í rafmagnsframleiðslunni og kom ekki að sök þó kolin væru farin að minnka.Fyrir vikið jókst hlutfall gass í raforkubúskapnum í réttu hlutfalli við það sem dró úr vægi kolanna.

En svo kom að því um aldamótin að einnig gasframleiðslan náði hámarki og síðustu tíu árin hefur bæði olíu- og gasframleiðsla Breta minnkað verulega. Í olíuvinnslunni hefur þetta gerst nánast með með ógnarhraða, en gasframleiðslan hefur ekki fallið alveg jafn hratt. En fer þó einnig hnignandi.

coal_plant_modern_1021152.jpg

coal_plant_modern

Nú eru að vísu vonir um að nýjar olíulindir finnist djúpt úti af Skotlandi. Samt sem áður er líklegast að Bretar hafa náð bæði Peak Oil og Peak Gas. Og næsta víst að innflutningsþörf Breta á olíu og gasi mun aukast jafnt og þétt á komandi árum. Í þessu sambandi er líka athyglisvert að Bretland er það land Evrópusambandsins, sem á lengst í land með að ná markmiðum um að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Einmitt þess vegna eru frábær tækifæri fólgin í því að Ísland bjóði Bretum raforku – á marföldu verði miðað við hvað stóriðjan hér er að borga. En það mun ekki breyta því að senn fer Bretland sömu leið og hin stóru Evrópusambandsríkin. Uns Bretland verður heldur ekki orkusjálfstætt.

Talandi um endurnýjanlega orku frá Íslandi, er ekki hægt að sleppa að nefna þá svakalegu staðreynd, að sá orkugjafi sem framleiðir hæsta hlutfallið af öllu rafmagninu innan ESB er sá Svarti sjálfur: Kol! Þar að auki nýtur evrópski kolaiðnaðurinn massífra niðurgreiðslna og ríkisstyrkja – þó meira sé talað um háleit markmið ESB í grænni orku. Evrópusambandið er m.ö.o. kolsvart og líka sífellt að verða öðrum háðara um gas og olíu.

russia-gas-pipe.jpg

russia-gas-pipe

Já – lindirnar í Evrópu eru smám saman að tæmast og spurningin bara hversu langan tíma það tekur. Líklegt er að orkusjálfstæði Breta mun minnka nokkuð hratt á næstu árum og þar með syrtir enn í álinn fyrir orkubúskap ESB. Jafnvel þó svo jafnvægi kunni að vera að komast á í orkunotkun margra ESB-ríkjanna (þ.e. að orkunotkunin haldi ekki áfram að vaxa eins og verið hefur fram til þessa), bendir allt til þess að bandalagið muni þurfa að flytja æ meira af orkunni inn. Enn sem komið er kemur stór hluti af þessari orku frá Norðmönnum, en flest bendir til þess að þörf ESB fyrir bæði arabíska olíu og rússneskt gas fari nokkuð hratt vaxandi.

cartoon-gas-pipes-putin.png

cartoon-gas-pipes-putin

Það að þurfa að flytja inn mikið af raforku eða orkugjöfum þarf sossum ekki að vera áhyggjuefni. A.m.k. ekki ef framboð af orku er nóg og verðið lágt. Vandamál Evrópu er aftur móti það, að álfan er mjög háð afar fáum orkubirgjum. Þar eru stærstu bitarnir olía og gas frá Noregi, olía frá Persaflóanum, olía og gas frá Rússlandi og gas frá Alsír og Katar. ESB fær sem sagt gríðarlega stóran hluta af allri sinni olíu og gasi frá einungis örfáum ríkjum. Þar eru Rússar langstærstir. Sérstaklega er þó athyglisvert að einungis einn af stóru olíu- og gasbirgjum ESB getur talist vera þeim viðunandi vinsamlegur. Nefnilega Noregur.

Já- í reynd er Noregur eini vinsamlegi orkuvinur Evrópu. En jafnvel þó svo Norðmenn nái að viðhalda gasframleiðslu sinni eða jafnvel auka hana eitthvað á næstu árum, er augljóst að ESB þarf að fá sífellt meira gas frá löndum eins og Rússlandi, Alsír, Líbýu og Katar. Jafnvel þó svo við myndum líta á gasviðskipti ESB og Rússa sem gagnkvæma hagsmuni þar sem allt er í góðu, þá eru margir sem telja að olíu- og gasframleiðsla Rússa sé búin að ná toppi og muni héðan í frá fara hnignandi. Það er m.ö.o. alls ekki víst að Rússar geti mætt innflutningsþörf ESB með þeim hætti sem nauðsynlegt er til að gasverðið rjúki ekki upp. Þess vegna horfa Evrópuþjóðirnar nú til tækifæra til að fá aðgang að nýjum olíu- og gaslindum. Og þar er einkum horft annars vegar til Mið-Asíuríkjanna við Kaspíahafið og hins vegar til Íraks.

eu_gas-pipelines_nabucco_nord_south_stream.gif

eu_gas-pipelines nabucco nord south stream

Þess vegna hefur ESB undanfarin ár róið öllum árum að því að fá lagða nýja gasleiðslu sem tengi sambandið við gasveldin við Kaspíahaf. Hugsunin er líka sú að í framtíðinni geti leiðslan sú tengst annarri leiðslu sem myndi liggja frá Írak og jafnvel annarri leiðslu frá Íran. Þessi þýðingarmikla gasleiðsla, sem tengja á Evrópu við Kaspíahafsríkin og verða lykill að framtíðartengingu við Írak, er kölluð Nabucco.

Því miður kæra Rússar sig ekkert um að ESB leggi olíu- eða gasleiðslur beint austur eftir Tyrklandi og til Kaspíahafslandanna. Rússar vilja fá sem mest af þeirri olíu og þó sérstaklega gasinu, eftir leiðslum inn til Rússlands. Svo þeir geti flutt það áfram til ESB, tekið gjald fyrir og þar að auki haft þannig sterkara tangarhald á orkunni sem berst ESB. Og vegna sterkra pólitískra tengsla við Kaspíahafsríkin er eins víst að Rússum muni verða ágengt í að ná fram þessari stefnu sinni.

Í þessum tilgangi hafa Rússar undirbúið lagningu mikillar gasleiðslu beint frá Rússlandi og til ESB, eftir botni Svartahafsins. Sú leiðsla er kölluð South Stream og undanfarið hefur átt sér stað mikið kapphlaup um það hvort Nabucco eða South Stream muni hafa vinninginn. Nú síðast varð ESB fyrir því áfalli að sjálfur Obama Bandaríkjaforseti lýsti yfir stuðningi við lagningu South Stream. Og veikti þar með enn frekar vonir ESB um að Nabucco líti dagsins ljós. Á Evrópa öngvan vin lengur?

china_gas_pipeline_worker.jpg

china_gas_pipeline_worker

Þar að auki þarf ESB líka að horfast í augu við að undanfarin ár hafa Kínverjar verið öflugir við að styrkja tengsl sín við gasríkin á austurströnd Kaspíahafsins. Landa eins og Kazakhstan, Túrkmenistan og Úsbekistan. Kínverjarnir hafa látið athafnir fylgja orðum og eru nú þegar búnir að leggja leiðslur frá Kína og þarna vestur eftir. Það er því margt sem bendir til þess að Kaspíahafsgasið muni fyrst og fremst streyma til Kína og Rússlands, en að Evrópa fái lítinn beinan aðgang að þeim miklu auðlindum.

Nei- það blæs ekki byrlega þessa dagana í að tryggja ESB orku til framtíðar. Enda eru framkvæmdastjórarnir hjá ESB orðnir svo skelfilega ringlaðir að þeir eru farnir að tala um að orka frá öldu- og sjávarfallavirkjunum og lífmassa hafsins muni leysa orkuvandamál Evrópu. Þá fyrst er ástandið orðið alvarlegt þegar framkvæmdastjórar ESB láta út úr sér svona dómadags vitleysu. Þó svo virkjun sjávarorku sé mikil snilldarhugmynd, þá er þetta tækni á algeru frumstigi og ómögulegt að segja hvenær hún kemst á eitthvert flug. Það á við um allar tegundir sjávarorkuvirkjana. Og það á ekki síður við um þá hugmynd að framleiða fljótandi lífrænt eldsneyti úr sjávarlífi (þörungum). Það er einfaldlega svo að á næstu áratugum og jafnvel alla 21. öldina mun enginn orkugjafi geta leyst olíu, gas, kol og kjarnorku af hólmi svo neinu nemur. Að tala um sjávarorku sem leið fyrir Evrópu að losna undan gashrammi Rússa eða að slíkt muni minnka olíuþorsta Evrópu er í besta falli kjánalegt.

tunis_summer-la-goulette-3.jpg

Myndin hér að ofan er úr bíómyndinni dásamlegu, Sumar í Goulette, sem gerist í Túnis rétt áður en sex daga stríðið skall á. Kvikmynd sem minnir okkur á hvernig stjórnmálaruglið við botn Miðjarðarhafsins hefur í meira en 40 ár mengað allt mannlíf á svæðinu. Dapurlegt.

Orkubloggarinn er orðinn þreyttur á þessari vitleysu. Framkvæmdastjórn ESB verður að taka sig á. Og skilja það að skynsamasta leiðin til að tryggja öruggt orkuframboð í Evrópu er að byrja eins og skot að leggja Nabucco leiðsluna austur til Azerbaijan, áður en Kínverjarnir verða komnir þangað með enn eina leiðsluna. ESB þarf líka að stuðla að nánara sambandi við olíu- og gaslöndin í Norður-Afríku; Egyptaland, Líbýu og Alsír. Byggja þangað tengingar og auka þaðan framboð af bæði olíu og gasi.

iraq_pipes.jpg

iraq_pipes

Síðast en ekki síst þarf ESB að horfast í augu við það að þeir sem ráða munu yfir æpandi olíu- og gaslindunum í Írak verða í algerri lykilstöðu i alþjóðastjórnmálum framtíðarinnar. Það kann að vera bæði dýrt og erfitt að vera með herlið í Írak, en að skilja landið eftir í höndum Bandaríkjamanna og láta þá sitja uppi með að leysa úr vandanum væri galin niðurstaða.

Til að svo tryggja orkusjálfstæði Evrópusambandsins þarf risaátak og nánast æpandi framsýni stjórnmálamanna. Sennilega er eina vitið fyrir ESB að fara strax að huga í alvöru að stækkun bandalagsins til bæði austurs og suðurs. Þá myndi Evrópa enn á ný þróast í þá átt að verða bandalag allra ríkjanna í kringum Miðjarðarhaf, þar sem kristnir menn, arabar og gyðingar geta lifað í sátt og samlyndi.

Mörgum kann að þykja slíkur samhugur trúarbragðanna vonlaus og þetta vera barnaleg draumsýn hjá bloggaranum. En í reynd eru öll þessi lönd fyrst og fremst byggð velmeinandi fólki. Það þarf einfaldlega að finna leiðir til að auka menntun og útrýma fátæktinni, sem þarna er svo víða að finna. Og þar með eyðileggja jarðveginn fyrir ofsatrúarhópana, sem þrífast á misskiptingu, vanþekkingu, fátækt og fordómum. Ef það tekst ekki, er hætt við að staðnað ESB Evrópulandanna einna, muni í framtíðinni enda sem orkulítill þurfalingur. Og verða peð í valdatafli orkustórveldanna Bandaríkjanna, Rússlands og Kína.

Fleira áhugavert: