Gyrodactylus – Vatn erlenda húsbíla
.
Júlí 2012
Ein helsta smitleið ýmiss konar veira og sníkjudýra milli laxveiðiáa í Noregi er þegar húsbílar losa og sækja sér vatn á tanka. Á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) er að finna athyglisverða frétt um þetta mál undir fyrirsögninni „Tifandi tímasprengja?“.
Á vefsíðu SVFR segir: „Á sama tíma og veiðimenn eru látnir sótthreinsa búnað sinn við komu til landsins streyma erlendir húsbílar með vatn á tönkum hingað til lands.
.
Nágrannar okkar í Svíþjóð og Noregi hafa undanfarna áratugi barist við sníkjudýrið Gyrodactylus. Illkynja sjúkdómsvaldar á borð við veirur ýmiss konar og sníkjudýrið Gyrodactylus salaris hafa aldrei greinst í ferskvatnsfiskum á Íslandi en til að hefta að slíkt ber veiðimönnum sem koma erlendis frá að hreinsa veiðibúnað sinn við komuna til landsins.
Hins vegar gleymist einn mikilvægur þáttur í þessum forvörnum. Í ljós hefur komið að helsta smitleið á milli laxveiðiáa í Noregi er þegar að húsbílar sækja sér vatn á tanka. Þá taka ferðamenn vatn úr nærliggjandi fallvatni en losa vatnið sem fyrir var á húsbílnum út í sama fallvatn. Með þessu hefur sníkjudýrið fundið sér nýja ferðaleið á milli norskra laxveiðiáa.
Þetta vekur upp spurningar um forvarnir hérlendis. Á sama tíma og veiðimenn eru látnir sótthreinsa fluguboxin sín streyma til landsins húsbílar erlendis frá með vatn í tönkum til neyslu og notkunar á salernum. Sníkjudýr á borð við Gyrodactylus getur lifað allt að viku tíma við réttar aðstæður án hýsils og því er auðvelt að sjá fyrir sér að húsbílar sem hingað til lands koma geti losað sýkt vatn í veiðiárnar, uml leið vatn bílsins er endurnýjað.“