Pípulögnin gaf sig – Íslensk skattpíning

Heimild:

.

Desember 2019

Íslensk skattpíning

Ég lenti í þvi að það gaf sig pípulögn um daginn hjá mér. Enginn skaði því ég náði í snatri að loka inntaki og hringdi í pípara sem var fljótur að bregðast við. Einum og hálfum tíma síðar var allt komið í lag, píparinn skrifaði á mig reikning og ég greiddi kr. 15.060.- fyrir vinnuna. Semsagt 12.000.- kr + 25,5% vsk.
Nú er ég lánsamur maður og greiði skatt í hæsta skattflokki og því er staðgreiðsluprósenta mín 46,12%. Samkvæmt því þarf ég að vinna mér inn kr.27.951. – til að greiða hinum hjálpsama pípara. Við stöndum jú báðir skil á okkar opinberu gjöldum.

En hvað gerist hans megin? Í fyrsta lagi stendur hann skil á innheimtum virðisauka sem nemur 3.060.- kr. Eftir standa tekjur uppá kr 12.000.-. sem verða hluti af launagreiðslu píparans um næstu mánaðarmót. Gefum okkur að staðgreiðsla hans sé 40,12%. Af 12.000.- krónunum fær hann því 7.185.- krónur útborgað og restin fer í staðgreiðslu skatta.Ég vann mér inn 27.951 krónu, greiddi skatt, greiddi píparanum, hann greiddi skatt og sat uppi með 7.185 kr. Tæplega 75% peninganna hurfu í skatta.

Guð hjálpi svo píparanum ef honum dettur í hug að nota peningana í í einhverja neyslu. Það allra versta væri ef hann langaði í koníaksflösku því af útsöluverði sterks áfengis tekur ríkið 75% og þá er álagning ÁTVR ekki tekin inn í myndina. Ég þyrfti þá að vinna mér inn kr. 27.951.-, píparinn fengi koníaksflösku sem kostar ríkið 1575 krónur í innkaupum og skatturinn tekur rest eða 27.376.- krónur. Heildarskattheimta er því orðin 97%.
Við skulum bíða þess nú og sjá hvort að fjármálaráðherra sjái ekki möguleika á að ná einhvernveginn þessum 3% sem eftir eru. Það ættu allir að sjá að það tekur því varla að fara að vinna.

Fleira áhugavert: