Þjórsá – Virkjanamál, sagan 2009

Grein/Linkur:  Búðarhálsbólga

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Nóvember 2009

Búðarhálsbólga

Umræðan um virkjanamál á Íslandi hefur verið svolítið sérstök undanfarið. Sumir tala á þeim nótum að orkan sé nánast uppurin. Aðrir vilja keyra í nýjar virkjanir til að mæta þörf álvera og/eða annarrar nýrrar stóriðju.

Titan_Fossafelagid

TÍtan_Fossafélagið – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Raunveruleikinn er aftur á móti sá, að vegna erfiðra aðstæðna í efnahagslífi bæði Íslands og umheimsins síðustu 12 mánuðina eða svo, þá hefur allt verið í strandi í fjármögnun íslensku orkufyrirtækjanna. Nú berast reyndar fréttir  um að OR sé að fá lán frá Evrópska fjárfestingabankanum til að ljúka við Hellisheiðarvirkjun og komast áleiðis með Hverahlíðarvirkjun á Hellisheiði. Orkan þaðan mun eiga að fara til Norðuráls.

Ekkert hefur aftur á móti heyrst af fjármögnun næstu verkefna Landsvirkjunar. Það hefur reyndar verið svolítill hringlandaháttur með það hvar Landsvirkjun hyggst reisa næstu virkjun. Á tímabili leit út fyrir að það yrðu virkjanir í neðri hluta Þjórsár; Hvammsvirkjun (82 MW), Holtavirkjun (53 MW) og Urriðafossvirkjun (130 MW). Undirbúningur að þessum virkjunum hefur staðið lengi yfir og unnið var umhverfismat á þessum kostum fyrir nokkrum árum. Muni Orkubloggarinn rétt féllst umhverfisráðherra á framkvæmdirnar með einhverjum minniháttar skilyrðum. Og bæði hönnun og gerð útboðsgagna munu vera löngu tilbúin.

Thjorsa_nedri_virkjanir

Thjorsa_nedri_virkjanir

Það eina sem er eftir í undirbúningsferlinu er að fá sveitarfélögin til að afgreiða skipulagið og að semja við landeigendur og aðra vatnsréttarhafa. Skipulagsmálin eru reyndar komin mjög vel áleiðis. Nokkuð er um liðið síðan þessar virkjanir komust inn á aðalskipulag Ásahrepps og Rangárþings Ytra og málið mun líka hafa verið afgreitt af hálfu í Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Aftur á móti mun það enn vera óafgreitt í Flóahreppi, en það mál snertir Urriðafossvirkjun.

Það er athyglisvert að nú eru liðnir um átta áratugir síðan Einar Benediktsson og Fossafélagið Títan voru u.þ.b. byrjuð á því að virkja Urriðafoss. Framkvæmdirnar þarna hafa sem sagt tafist eilítið, ef svo má segja. Það magnaðasta er að þá, rétt eins og nú, strandaði allt á skorti á lánsfé. Eftirfarandi frásögn er af vefnum Thjorsa.is:

Urridafoss_1

Urridafoss

Í frumvarpi sem varð að lögum 31. maí 1927 var Títan gefið leyfi til að virkja Urriðafoss í Þjórsá. Fól það leyfi í sér heimild til að gera uppistöðu í ánni ofan við fossinn, hækka eða lækka vatnsborð eða farveg og gera vatnsrásir ofanjarðar eða neðan eftir þörfum. Ráðgert var að hin fyrirhugaða virkjun yrði allt að 160.000 hestöfl, en það jafngildir um 117 MW. Þess ber að geta að þarna var reiknað með mun meira vatnsrennsli en nú fer um farveg Þjórsár, eða um 500 m3/s í stað 360 m3/s sem nú er að jafnaði. Sakir fjárskorts varð ekkert úr þessum virkjunaráformum og lognaðist Fossafélagið Títan að mestu útaf uns félaginu var formlega slitið árið 1951.“

Myndin hér efst í færslunni er einmitt at einni útfærslunni á hugmyndum Fossafélagsins Títan á stöðvarhúsi Urriðafossvirkjunar. Og enn er tekist á um Urriðafossvirkjun og aðra virkjunarmöguleika í neðri hluta Þjórsár. Í byrjun september s.l. (2009) kom svo upp úr dúrnum að greiðslur frá Landsvirkjun til sveitarfélaganna og/eða beint til sveitarstjórnafólks vegna skipulagsvinnu sveitarfélaganna, kunni að vera óeðlilegar og jafnvel ólögmætar. Það mál er einn angi af miklum deilum manna um hvort yfirleitt eigi að virkja í neðri hluta Þjórsár. Sá ágreiningur verður ekki rakinn hér.

Auk þess sem skipulagsmálin eru enn ekki endanlega frágengin vegna allra þriggja virkjananna í neðri hluta Þjórsár, hafa viðræður Landsvirkjunar við landeigendur á svæðinu gengið eitthvað brösuglega. Þetta virtist reyndar lengst af ekki valda Landsvirkjun miklum áhyggjum. Möguleikarnir virtust óþrjótandi þrátt fyrir eitthvert vesen með landeigendur.

Eftirminnilegt er þegar stjórn Landsvirkjunar boðaði nokkuð óvænta áherslubreyting hjá fyrirtækinu haustið 2007. Nú skyldu nýir orkusölusamningar við stóriðju á Suður- eða Vesturlandi ekki lengur njóta forgangs, heldur yrði áherslan lögð á fjölbreytni. Það væri lang skynsamlegast; þannig mætti bæði dreifa áhættunni og líka væri þetta góð leið til að fá sem allra hæst raforkuverð.

Já – Landsvirkjun var í miklu stuði draumaárið mikla 2007, þegar Ísland virtist algerlega ósigrandi fjármálaveldi. Í árslok 2007 voru Landvirkjunarmenn greinilega mjög vongóðir um að það myndi ganga nokkuð hratt að hnýta lausa enda vegna neðri hluta Þjórsár. Sögðust ætla að að sækja um formlegt virkjunarleyfi vegna virkjananna þar strax á árinu 2008 og fullyrtu að raforkan þaðan færi til nýrrar tegundar af stórnotendum. M.a. væri verið að semja við kísilverksmiðju Becromal og netþjónabú Verne Holding eða Verne Global eða hvað það nú heitir þetta fyrirtæki Björgólfs Thors og félaga.

budarhals_yfirlitsmynd

budarhals_yfirlitsmynd

Allt í einu var sem álver væru barrrasta orðin púkó. Og yfirlýsingar Landsvirkjunar gáfu eiginlega nokkuð sterklega í skyn að orkuverðið til álveranna væri heldur snautlegt. En þrátt fyrir boðaða stefnubreytingu, var enn ekki öllum hindrunum rutt úr vegi. Samningar við landeigendur á Þjórsársvæðinu gengu afleitlega og í ágúst 2008 urðu enn á ný straumhvörf í virkjunaráætlunum Landsvirkjunar. Þá ákvað fyrirtækið, líkt og hendi væri veifað, að setja Búðarhálsvirkjun í forgang. Þannig mætti hraða hlutunum úr því svona hægt gekk á Þjórsársvæðinu.

Búðarhálsvirkjun  hljómaði kunnuglega í eyrum, en margir þurftu þó smá upprifjun. Sá kostur að virkja við Búðarháls hafði mikið verið til skoðunar upp úr aldamótunum. Öll leyfi munu hafa verið til staðar, en af einhverjum ástæðum ákvað Landsvirkjun árið 2003 að leggja Búðarhálsinn í salt. Kannski af því menn hafa talið virkjanir í neðri hluta Þjórsár arðsamari? Orkubloggaranum þykir þó líklegra að hjá Landsvirkjun hafi þótt skynsamlegt að geyma Búðarhálsvirkjun aðeins og eiga hana í handraðanum. Það hefði a.m.k. ekki verið galið plan, að mati Orkubloggarans.

Ákvörðunina um að setja Búðarhálsvirkjun aftur í forgang þarna síðsumars 2008 má væntanlega skýra með því, að farið var að liggja á að mæta aukinni orkuþörf álversins í Straumsvík. Þó svo Hafnfirðingar hafi verið á móti stækkun álversins þarf Straumsvíkurverið að fá 75 MW í viðbót. Vegna 40 þúsund tonna aukaframleiðslu sem unnt verður að fá með endurnýjun á tæknibúnaði í álverinu.

budarhals_landsnet

budarhals_landsnet

Vegna tafa á að ljúka undirbúningsferli virkjana í neðri hluta Þjórsár var sem sagt ákveðið í ágúst 2008 að drífa í Búðarhálsvirkjun, enda sú virkjun komin lengst áleiðis í undirbúningi. Búðarhálsvirkjun var aftur komin á dagskrá, fimm árum eftir að hún var sett í geymslu.

Virkjunin nýtir vatn af Tungnaársvæðinu og er í reynd afar lógísk framkvæmd. Reist verður tveggja km löng og allt að 24 m há stífla skammt ofan við ármót Köldukvíslar og Tungnaár, neðan við Hrauneyjafossstöð. Lónið sem þannig myndast hefur verið kallað Sporðöldulón  og á að verða um 7 ferkm. Stöðvarhúsið verður svo í í hlíð Búðarhálsins við Sultartangalón.

Frá Sporðöldulóni verður aðrennslisskurður inn að Búðarhálsi og þaðan fer vatnið að stöðvarhúsinu eftir 4 km löngum aðrennslisgöngum. Frá stöðvarhúsinu þarna rétt við Sultartangalón mun svo verða rúmlega 300 m frárennslisskurður út í lónið. Loks verður 17 km löng háspennulína lögð frá Búðarhálsstöð að tengivirki við Sultarstangastöð og þar með verður rafmagnið frá þessari nýju virkjun komið inn á landskerfið.

Langisjor_3

Langisjor

Einfalt og örugglega mjög hagkvæm virkjun. Að því gefnu að menn ætli sér ekki að gefa rafmagnið. Svo gælir Landsvirkjun eflaust við það að auka afköstin í framtíðinni með því að veita vatni úr Skaftá yfir í Tungnaá. Orkubloggarinn vonar þó innilega að náttúruundrinu Langasjó verði þar hlíft. Til að svo megi vera þarf væntanlega að taka Skaftá vestur eftir, norðan við Langasjó. Það yrðu óneitanlega nokkur viðbrigði ef hin fornfræga jökulá Skaftá umbreyttist í lauflétta bergvatnsá niður með Skaftárdal, Síðu og Landbroti. Stóra spurningin hlýtur að vera hvaða áhrif það myndi hafa fyrir blessaðan sjóbirtinginn? En það er allt önnur saga.

Næsta skref er sem sagt Búðarhálsvirkjun. Sem af einhverjum ástæðum er enn í strandi, þó svo Landsvirkjun segist hafa nóg laust fé til að byggja tvær slíkar virkjanir. Af hverju drífa þeir þá ekki barrrasta í þessu? Þetta átti jú að gerast hratt. Af hálfu Landsvirkjunar var þarna síðsumars 2008 stefnt að því að fara eins og skot í útboð vegna vélbúnaðar í virkjunina. Þetta verður reyndar einungis 80 MW virkjun og jafnast því ekki á við allar þrjár nýju Þjórsárvirkjanirnar (sem eiga að vera með uppsett afl yfir 260 MW!). Til að ná meiri hagkvæmni við kaup á búnaði í Búðarhálsvirkjun planaði Landsvirkjun að bjóða út allt heila gumsið í einum pakka; Búðarhálsvirkjun OG um leið búnaðinn fyrir virkjanirnar þrjár í neðri hluta Þjórsár (með valrétti). Þannig myndu fást enn betri verð. Og allar þessar virkjanir yrðu hvort eð er örugglega reistar innan örfárra ára.

Budarhals_stodvarhus_stadur

Budarhals_stodvarhus_stadur

Já – menn voru ennþá æpandi bjartsýnir í virkjanabransanum þarna síðsumars 2008. Virtust trúa því að lítið mál yrði að koma Búðarhálsinum og öllum þremur virkjununum í neðri hluta Þjórsár í útboð. Þetta var jú á sama tíma og horfur voru á að Glitnir og Geysir Green Energy myndu brátt stjórna jarðhitageira heimsins eins og hann legði sig. Menn voru meira að segja líka farnir að tala um Bjallavirkjun. Þetta var í ágúst 2008 og hvorki Landsvirkjun né iðnaðarráðuneytið virtust telja minnsta tilefni til að staldra við. Héldu menn í alvöru að allt væri í stakasta lagi og íslenskt efnahagslíf væri enn á blússandi sigurbraut? Svolítið sérkennilegt, svona eftir á að hyggja.

Draumurinn um hraðútboð fjögurra nýrra virkjana Landsvirkjunar upp á meira en þrjú hundruð MW gekk því miður ekki eftir. Höggið reið yfir. Íslenska efnahagsundrið reyndist einhver mesta blaðra sem sögur fara af og íslenska fjármálakerfið hrundi. Eins og spilaborg – og sá frasi hefur líklega sjaldan átt betur við. Hrunið olli því að möguleikar Landsvirkjunar til að fjármagna nýjar virkjanir gufuðu upp. Í bili. Og örskömmu eftir hrunið – á haustdögum 2008 – birtist lítil frétt þess efnis að Landsvirkjun hefði ákveðið að fresta því um þrjá mánuði að opna útboð við virkjun við Búðarháls.

Tungnaa_ofan_sigoldu

Tungnaa_ofan_sigoldu

Síðan er liðið ár og ekkert bólar á útboði. Reyndar á Landsvirkjun sjálf að eigin sögn nógan pening til að rífa þessa virkjun upp. Ekki bara einu sinni, heldur tvisvar: „Landsvirkjun á laust fé að fjárhæð um 340 milljónir dollara eða sem nemur ríflega 40 milljörðum króna. Þetta fé dugar til að byggja tæplega tvær Búðarhálsvirkjanir. Erlendir lánsfjármarkaðir eru hins vegar lokaðir íslenskum aðilum vegna sérstakra aðstæðna sem snúa að íslenska ríkinu. Á meðan ástandið er með þeim hætti er óábyrgt af hálfu Landsvirkjunar að ráðast í nýjar framkvæmdir nema að fyrirtækið hafi fjármagnað þær að fullu með nýjum langtímalánum. Að því er unnið.“ Af þessari fréttatilkynningu Landsvirkjunar má draga þá ályktun að fyrirtækinu sé nauðsynlegt að hafa umrætt lausafé tiltækt til að geta greitt af lánum sínum á næstu misserum.

En í dag vill sem sagt enginn lána Landsvirkjun né íslenska ríkinu pening til að reisa Búðarhálsvirkjun. A.m.k. ekki á viðráðanlegum kjörum. Til að leysa þann vanda hafa stjórnmálamenn sett fram ýmsar hugmyndir um fjármögnun. Sumir vilja að lífeyrissjóðirnir reddi málunum, aðrir að krónubréfaeigendur sjái um að skaffa fjármagnið. Enn aðrir stungu upp á því að erlendu verktakarnir sæju sjálfir um fjármögnunina – eða jafnvel að álverið í Straumsvík útvegaði þessa aura.

Rannveig_Rist_FV

Rannveig_Rist_FV

Það var ekki síst þáverandi iðnaðarráðherra – Össur Skarphéðinsson – sem talaði fyrir þeirri hugmynd að Straumsvíkurverið eða móðurfélag þess kæmi að fjármögnuninni. En svo virðist sem ekki einu sinni RioTintoAlcan vilji hafa milligöngu um að útvega þessar 400 milljónir dollara sem þessi bráðódýra virkjun kostar. Undarlegt. Treysta þau Rannveig Rist og félagar sér kannski ekki til að taka veð í virkjuninni – af því rafmagnið sé selt á svo hlægilega lágu verði?

Nýjustu fréttir af fjármögnun Búðarhálsvirkjunar eru að íslenskir lífeyrissjóðir séu nú í samningaviðræðum við Landsvirkjun (þetta kom fram á ráðstefnu Capacent Glacier fyrir um tveimur vikum). Ísland er sniðugt land. Ríkið á Landsvirkjun, en þjóin má ekki vita á hvaða verði Landsvirkjun selur rafmagnið til stærstu kaupendanna. Launþegarnir eiga peninginn í lífeyrissjóðunum, en hafa í reynd ekkert um það að segja hvernig lífeyrissjóðirnir starfa eða ráðstafa fjármunum launþeganna. Var einhver að tala um Nýja Ísland?

Fleira áhugavert: