Nýting vatnsafls Noregi, Íslandi – Hjemfall reglan

Heimild: 

.

Hjemfall

Ja, vi elsker dette landet,
som det stiger frem,
furet, værbitt over vannet,
med de tusen hjem. 

Júlí 2012

Noregur er eitt af örfáum ríkjum hins vestræna heims sem framleiðir svo til alla raforku sína með nýtingu endurnýjanlegra auðlinda. Það geta Norðmenn þakkað hinu mikla vatnsafli í landinu. Norsku vatnsaflsvirkjanirnar framleiða nú um tíu sinnum meiri raforku en allar vatnsaflsvirkjanirnar sem starfræktar eru á Íslandi. Sé litið til höfðatölu er Noregur næst stærsta vatnsaflsríki heims (á eftir Íslandi).

Upphaf vatnsaflsvirkjana í Noregi

Það var í lok 19. aldar og þó einkum í upphafi 20. aldarinnar að Norðmenn byrjuðu af alvöru að nýta vatnsaflið til raforkuframleiðslu. Áður hafði það nýst til að knýja litlar sögunarmyllur. Fyrsta vatnsaflsvirkjunin í Noregi reis árið 1885. Fljótlega upp úr því tók að bera á s.k. Fossaspekúlöntum í Noregi. Þetta voru menn sem unnu gjarnan í umboði útlendinga og fóru um Noreg í leit að álitlegum virkjunarstöðum sem nýta mætti fyrir iðnaðarframleiðslu. En það var þó ekki fyrr en að nokkur ár voru liðin af 20. öldinni að alvara hljóp í þennan nýja iðnað.

Virkjanir einkaaðila gerðar leyfisskyldar – Noregur öðlast sjálfstæði

Á þessum tíma var Noregur fullvalda ríki (síðan 1814), en landið var ennþá í ríkjasambandi við Svíþjóð og sænski konungurinn var þjóðhöfðinginn. Til að sporna gegn því að erlendir Fossaspekúlantar næðu að kaupa norsk vatnsföll lögfesti norska Stórþingið í Osló þá reglu að engin slík kaup næðu fram að ganga nema með leyfi stjórnvalda. Þar með var unnt að koma böndum á tilþrif Fossaspekúlantanna.

Eyde-1866-1940

Eyde-1866-1940

Það var svo árið 1905 að Noregur öðlaðist sjálfstæði. Um nákvæmlega sama leyti komu fram menn í Noregi sem vildu byrja að virkja nokkur helstu vatnsföll landsins í tengslum við umfangsmikla uppbyggingu á stóriðju. Þetta voru ekki bara hugmyndaríkir andans menn í anda Einars Benediktssonar, heldur réðu þeir yfir nýrri tækni sem gerði slíka iðnaðaruppbyggingu ennþá raunhæfari en ella.

Þarna fór fremstur í flokki norski verkfræðingurinn Sam Eyde. (sbr. myndin hér að ofan). Eyde sá einkum tækifæri til að nýta norska vatnsaflið til saltpéturframleiðslu, en brátt varð samstarf hans við norska vísindamanninn Kristian Birkeland (sem er á myndinni hér að neðan) til þess að áburðarframleiðsla varð einnig afar áhugaverður kostur.

Kristian- Birkeland-1

Kristian- Birkeland-1

Birkeland hafði þá þróað aðferð til að vinna áburð með því að nýta köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Aðferðin var mjög orkufrek og upplagt að nýta norsku vatnsföllin til raforkuframleiðslunnar. Eyde gekk þegar í það að finna fjárfesta til að reisa verksmiðju og virkjun undir merkjum hins nýstofnaða fyrirtækis Norsk Hydro-Elektrisk Kvælstofaktieselskab). Sem í dag heitir einfaldlega Norsk Hydro og er eitt stærsta norska fyrirtækið (í dag er áburðarframleiðslan sem lengi var innan Norsk Hydro aftur á móti að finna hjá áburðarrisanum Yara International).

Eyde var með fleiri járn í eldinum en Norsk Hydro og samstarf við Kristian Birkeland. Því hann hafði líka kynnst öðrum Norðmanni, sem hafði þróað ekki síður merkilega iðnaðartækni

Sá hét Carl Wilhelm Söderberg og aðferðin eða efnafræðin að baki uppgötvunum hans átti eftir að verða lykilatriði í öllum  málmbræðsluofnum heimsins langt fram eftir 20. öldinni.

Söderberg fæddist reyndar í Svíþjóð en bjó nær alla sína ævi í Noregi. Nú er Orkubloggarinn ekki efnafræðingur og hættir sér því ekki útí nánari útlistanir á þessum mikilvægu uppgötvunum Norðmannanna tveggja; þeirra Birkeland og Söderberg. En líklega má segja að uppgötvun Söderberg's sé meðal merkari iðnaðaruppgötvana á 20. öldinni allri – þó svo nafn hans sé fáum tamt í munni (á ljósmyndinni hér að neðan er Söderberg ásamt lítilli dóttur sinni).

Carl-Wilhelm-Søderberg-og-dottir-hans- Gerd-1905

Carl-Wilhelm-Søderberg-og-dottir-hans- Gerd-1905

Til að koma aðferð Söderbergs í framkvæmd átti Eyde frumkvæðið að því að stofna annað norskt iðnfyrirtæki; Det Norske Aktieselskap for Elektrokemisk Industri. Sem í dag er þekkt undir nafninu Elkem og komst nýverið í eigu kínversk fyrirtækis. Elkem á sem kunnugt er járnblendiverksmiðjuna hér á Grundartanga í Hvalffiðri.

Einkaleyfi Söderberg's var í eigu Elkem og fyrirtækið var í lykilstöðu gagnvart stórum hluta málmbræðsluiðnaðarins mest alla 20. öld. Það eitt segir talsvert um það hversu Söderberg-ferlið var mikilvæg vinnsluaðferð.

Eyde gekk bærilega að fjármagna bæði Norsk Hydro og Elkem. Þar var fé frá sænska iðnjöfurinum Marcus Wallenberg  áberandi, en líka ýmsir stórir evrópskir bankar. Bæði voru þessi fyrirtæki alfarið í einkaeigu og þegar fréttist af tilburðum þeirra til að festa sér norsk fallvötn hrukku ýmsir norskir stjórnmálamenn við. Þar kom ekki bara til tortryggni gagnvart erlendu fjármagni, heldur jafnvel miklu fremur áhyggjur um að örfáir erlendir aðilar myndu ná tökum á alltof stórum hluta af norska vatnsaflinu og gætu jafnvel komist þar í einokunaraðstöðu. Einnig þótti mörgum stjórnmálamanninum skipta miklu að norsk raforka færi ekki aðeins í verksmiðjurekstur, heldur yrði hún jafnframt nýtt til að rafvæða byggðir og ból norsku þjóðarinnar.

Rjukanfossen-before-hydro-station

Rjukanfossen-before-hydro-station

Menn áttuðu sig á því að sennilega væru norsku vatnsföllin einhver mesta og verðmætasta auðlind landsins (það var jú ennþá óralangt í olíuævintýrið). Á þessum tíma var norska þjóðin sárafátæk og hafði afar takmarkaða möguleika til að standa í stórframkvæmdum.

Áðurnefnt skilyrði um að fá þyrfti leyfi stjórnvalda til að reisa vatnsaflsvirkjun eða kaupa vatnsréttindi  átti einungis við um einstaklinga en ekki um fyrirtæki. Þegar iðnfyrirtækin Elkem og Norsk Hydro komu til sögunnar árin 1904 og 1905 varð ljóst að bæði fyrirtækin þurftu gríðarmikla raforku til starfsemi sinnar og bregðast þurfti skjótt við ef þau ættu ekki að eignast sum öflugustu vatnsföll Noregs.

Norskum stjórnvöldum umhugað um að liðka fyrir iðnaðaruppbyggingu í landinu, en þau vildu einnig varast að fyrirtækin, sem voru fyrst og fremst fjármögnuð erlendis frá, eignuðust norsk vatnsföll með húð og hári.  Því leituðu norsku stjórnmálamennirnir nú logandi ljósi að leið sem gæti opnað fyrir iðnaðaruppbyggingu, en um leið haldið vatnsaflsauðlindunum í norskum höndum og stuðlað að rafvæðingu landsins.

Hjemfall-reglan verður til 

Meðan verið var að velta fyrir sér framtíðarfyrirkomulagi gagnvart uppbyggingu virkjana, ákvað norska þingið í hinu nýsjálfstæða Noregi (Stórþingið í Osló) að búa svo um hnútana að fyrirtæki gætu ekki eignast rétt yfir norskum vatnsföllum né byggt þar virkjanir nema fá til þess sérstakt leyfi stjórnvalda. Þetta var um margt sambærileg regla og áður hafði gilt um útlendinga (einstaklinga). Reglan var lögfest í apríl 1906 og hafa þau lög jafnan verið nefnd  Panikkloven vegna hraðans við að koma þeim á.

Johan Castberg-norge

Johan Castberg-norge

Í kjölfarið tóku norsk stjórnvöld að beita því skilyrði við veitingu virkjunarleyfa að fyrirtæki fengu ekki virkjunarleyfi nema með því skilyrði að viðkomandi virkjun myndi í fyllingu tímans verða eign norska ríkisins. Þetta er s.k. hjemfall-regla.

Þetta varð grundvallarregla gagnvart t.a.m. þeim virkjunum sem Elkem og Norsk Hydro byggðu fyrir verksmiðjur sínar. Það mun hafa verið norski stjórnmálamaðurinn og lögfræðingurinn Johan Castberg sem var helsti fylgismaður og höfundur þessa fyrirkomulags. Þar naut Castberg víðtæks stuðnings kollega sinna á Stórþinginu og þ. á m. forsætisráðherrans þáverandi, sem var hinn áhrifamikli Gunnar Knudsen.

Fyrst eftir 1906 var hjemfall-reglunni beitt með nokkuð mismunandi hætti í tengslum við veitingu virkjunarleyfa. En svo kom að því árið 1909 að Þetta skilyrði var beinlínis lögfest sem almenn forsenda þess að fá slíkt leyfi.

Rjukanfossen-norge

Rjukanfossen-norge

Hjemfall-reglan náði því til allra virkjana einkaaðila sem reistar voru frá og með 1909 og flestra sem reistar voru frá og með 1906. Þess vegna enda allar þær virkjanir í eigu norska ríkisins og það eru einungis fáeinar virkjanir einkaaðila sem eru ekki háðar hjemfall.

Hjemfall merkir sem sagt að virkjanir í einkaeigu falla til norska ríkisins að afloknum afmörkuðum nýtingartíma eða afnotatíma. Sá tími hefur í gegnum tíðina almennt verið 60 ár að hámarki. Að þeim tíma loknum færist eignarhaldið að virkjuninni og viðkomandi vatnsréttindi til ríkisins án nokkurs endurgjalds.

Vegna þessarar reglu eru margar gömlu virkjanirnar, sem einkafyrirtæki reistu snemma á 20. öldinni, nú komnar í opinbera eigu. Og svo fer einnig um þó nokkrar fleiri stórar virkjanir á næstu árum og áratugum. Það er því vel að merkja alrangt sem sagði í Skýrslu nefndar forsætisráðherra sem skipuð var samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði laga nr. 58/2008, undir forsæti Karls Axelssonar, hrl., að aldrei hafi komið til hjemfall's í Noregi og að óvíst sé hvort nokkru sinni muni koma til hjemfall's. Þetta er þvert á móti alveg kristallstært – og sáraauðvelt að nálgast lista um allar þær virkjanir sem hafa fallið til norska ríkisins og líka þær sem enn eiga eftir að falla til norka ríkisins vegna hjemfall. Orkubloggarinn er að sjálfsögðu með slíkan lista undir höndum beint frá norskum stjórnvöldum.

Auk hjemfall-skilyrðisins lögfesti Stórþingið líka þá reglu að sveitarfélög þar sem einkaaðili fékk að byggja og reka virkjun skyldu eiga rétt á að fá allt að 10% raforkunnar á kostnaðarverði. Þetta hafði mikla þýðingu fyrir almenning og stuðlaði að hraðri rafvæðingu víða í Noregi.

Svelgfoss-vandkraftverk-1

Svelgfoss-vandkraftverk-1

Hjemfall-reglan hefur auðvitað orðið til þess að gera hið opinbera smám saman umsvifameira í raforkuframleiðslu í Noregi. Í dag er norska ríkisfyrirtækið Statkraftlangstærsti raforkuframleiðandinn í landinu. Samtals eru ríkið, norsku fylkin og sveitarfélögin nú með um 90% hlutdeild í raforkuframleiðslunni í Noregi. Hlutdeild einkaaðila er einungis um 10%.

Vegna hjemfall-reglunnar munu margar af þeim norsku vatnsaflsvirkjunum sem enn eru í einkaeigu senn líka verða eign hins opinbera. Þá verða u.þ.b. 96-97% af öllu því vatnsafli sem virkjað hefur verið í Noregi í höndum hins opinbera! Afgangurinn eru gamlar virkjanir sem einkaaðilar byggðu fyrir gildistöku hjemfall-reglunnar, en þær eru flestar í eigu norska orkufyrirtækisins Hafslund. Hafslund var stofnað árið 1898 og reisti sína fyrstu vatnsaflsvirkjun árið 1899 (í dag er Hafslund skráð á hlutabréfamarkaðnum í Osló).

Sjónarmiðin að baki hjemfall-reglunni og eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar

Samkvæmt hjemfall-reglunni geta einkaaðilar einungis átt tímabundinn rétt yfir norskum vatnsaflsauðlindum. Og þegar sá afmarkaði nýtingatími er útrunninn rennur virkjunin og vatnsréttindin sjálfkrafa til ríkisins og það án nokkurs endurgjalds. Umræddur afnotatími hefur skv. norskum lögum lengst af verið 60 árog reglan átt við allar virkjanir stærri en 4.000 hö (fyrst í stað var þó viðmiðunin 1.000 hö).

Svartsengi-HS-Orka-Magma-EnergyAð sumu leyti minnir þessi regla á 65 ára hámarks-afnotatímann sem íslensk lög kveða nú á um vegna nýtingar á vatnsafls- eða jarðvarmaauðlindum í eigu ríkis eða sveitarfélaga til raforkuframleiðslu. Stóri munurinn er þó sá að skv. norskum lögum þarf að afhenda viðkomandi virkjun endurgjaldslaust til ríkisins í lok nýtingartímans, en í íslenskum lögum segir ekkert um hvernig fara skuli með virkjun þegar nýtingartímanum lýkur (sem er auðvitað með miklum ólíkindum og bersýnilega til þess fallið að skapa framtíðarágreining).

Þarna er einnig sá munur að skv. íslensku lögunum má framlengja afnotatímann (til allt að 60 ára í senn). En skv. norskum lögum færist eignarhaldið alltaf til ríkisins í lok afnotatímans (í nokkrum tilvikum hafa einkafyrirtæki fengið að halda áfram að reka virkjun eftir að hjemfall varð virkt með því að leigja hana eða kaupa virkjunina af ríkinu gegn nýju hjemfall-tímabili).

Oslo_Historie_fabrikkjentene

Oslo_Historie_fabrikkjentene

Að baki því að norsk stjórnvöld tóku upp hjemfall-regluna fyrir meira en öld síðan var, sem fyrr segir, einkum það sjónarmið að koma yrði í veg fyrir að norsku vatnsföllin yrðu eign útlendinga. Hjemfall-reglan var álitin skynsamleg leið til að samtvinna tvennskonar mikilvæga hagsmuni; annars vegar að tryggja framtíðaryfirráð stjórnvalda yfir vatnsaflinu og hins vegar heimila einkaaðilum að fjárfesta í virkjunum og liðka þannig fyrir iðn- og rafvæðingu Noregs.

Eðlilega voru þó sumir sem gagnrýndu hjemfall-regluna mjög og töldu hana hægja á fjárfestingum í norskum iðnaði. Þeir vildu að einkaaðilar fengju einfaldlega að eiga og reka sínar virkjanir ótímabundið eins og almennt gildir um eignir fyrirtækja. Almennt naut þó hjemfall-reglan víðtæks stuðnings meðal norskra stjórnmálamanna.

En stenst það eignaréttarákvæði stjórnarskrár að banna einkaaðilum að reisa vatnsaflsvirkjun nema þeir afhendi virkjunina endurgjaldslaust til ríkisins að ákveðnum tíma liðnum? Nú vill svo til að einkaeignaréttur nýtur svipaðrar stöðu í Noregi eins og á Íslandi skv. íslensku stjórnarskránni. Engu að síður töldu norsk stjórnvöld sig hafa fulla heimild til að binda virkjun fallvatna svo ströngum skilyrðum.

norway-flag.png

norway-flag.png

Þar að baki voru t.a.m. þau sjónarmið að jafnvel þó svo vatnsföll séu háð einkaeignarétti þess sem á landið þar sem vatnsfallið rennur, sé vatnsaflið í reynd sameiginleg auðlind sem öll þjóðin eigi að njóta. Vatn sem rennur um land í einkaeigu sé oftast að verulegu leyti komið frá hálendinu, sem í Noregi hefur verið skilgreint sem eign ríkisins (konungs).

Litið er svo á að einkaaðilum sé almennt heimilt að nýta vatnsfall á landi sínu til að framleiða raforku. En að þá sé eðlilegt að ríkið geti skilyrt slíka nýtingu með þeim hætti að eftir tiltekinn tíma skuli viðkomandi virkjun og rétturinn til að nýta vatnsfallið til raforkuframleiðslu, falla til ríkisins.

Sumum lesenda Orkubloggsins kann að þykja að þetta séu nokkuð harkaleg skilyrði. Og finnast að það að þrengja svo mjög að einkaaðilum hljóti að vera brot á stjórnarskrárákvæðum um vernd eignaréttarins. En í Noregi ríkti víðtæk sátt um þetta kerfi í nærri hundrað ár. Og sú sátt studdist við dóm Hæstaréttar Noregs frá árinu 1917, þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að hjemfall-skilyrðið væri ekki brot á eignaréttarvernd stjórnarskrárinnar.

Alþingi Íslendinga fór aðra leið

Rétt eins og í Noregi, þá fór fram mikil umræða á Íslandi á fyrstu árum 20. aldar um skipan vatnamála og hvernig haga ætti eignarétti í tengslum við nýtingu vatnsréttinda. Árið 1907 samþykkti Alþingi lög um takmörkun á eignar- og umráðarétti á fossum o.fl. (Fossalögin), sem koma áttu í veg fyrir að útlendingar næðu yfirráðum yfir vatnsafli hér á landi.

tjorsa-fossafelagid-titan-urridafossvirkjun_gottfred_seatersmoen_1918.jpg

tjorsa-fossafelagid-titan-urridafossvirkjun_gottfred_seatersmoen_1918.jpg

Kannski má segja að íslensk lagasetning um rétt til að nýta vatnsafl hafi í gegnum tíðina einkennst af tveimur meginatriðum. Annars vegar því að sá réttur sá alfarið í höndum landseigandans. Og hins vegar að þrengja sem allra mest að því að útlendingar fjárfesti í íslenskum virkjunum. Í Noregi var aftur á móti litið svo á að opna þyrfti útlendingum leið að því að fjárfesta í virkjunum, en um leið binda virkjunarrétt einkaaðila verulegum takmörkunum og taka þar afar ríkt tillit til samfélagslegra sjónarmiða.

Fossalögin íslensku byggðust á þeirri forsendu að fasteignareigandi eigi vatnsafl þeirra vatna sem fellur á landi hans. Engir fyrirvarar í anda hjemfall voru settir í Fossalögin og var þetta því ólíkt því fyrirkomulagi sem Norðmenn ákváðu. Með Fossalögunum var því sjónarmiðum einkaeignaréttarins skipað í öndvegi og minni áhersla lögð á almannasjónarmið.

Þetta fyrirkomulag hefur alla tíð síðan verið í fullu gildi hér á landi. Og þrátt fyrir ýmsar nýjar takmarkanir vegna t.d. almennra skipulags- og umhverfisreglna, má segja að víðtækur eigna- og umráðréttur íslenskra landeiganda yfir vatnsföllum á landi þeirra hafi jafnvel styrkst í sessi eftir því sem tíminn hefur liðið.

Einar_Arnorsson-vatnalogin-frumvarp

Einar_Arnorsson-vatnalogin-frumvarp

Íslensku Fossalögin komu til endurskoðunar nokkrum árum eftir setningu þeirra. Á tímabili benti ýmislegt til þess að í þetta sinn yrði mögulega farin nokkuð áþekk leið eins og Norðmenn höfðu farið. En þegar til kom varð niðurstaðan sú að komið var á skipan sem er ólík þeirri sem er í Noregi.

Aðalhöfundur vatnalagafrumvarpsins var Einar Arnórsson, lagaprófessor, en hann studdist m.a. við starf Fossalaganefndar Alþingis. Í íslensku Vatnalögunum nr. 15/1923 er mælt svo fyrir að rétturinn til að nýta vatn til raforkuframleiðslu tilheyri landeiganda og er sá réttur algerlega ótímabundinn. Þessi regla veitir landeiganda víðtækan rétt yfir vatninu og nýtingu þess og hefur hún gilt hér alla tíð síðan. Það myndi ekki breytast við gildistöku nýju Vatnalaganna nr. 20/2006, sem samþykkt voru á Alþingi í mars 2006 (en hafa enn ekki tekið gildi en þau hafa nú verið numin úr gildi og tóku aldrei gildi). Grundvallarskipanin um eignarétt að vatni á Íslandi er því óbreytt frá því sem fastsett var árið 1923.

Með setningu íslensku Vatnalaganna árið 1923 var sem sagt með ótvíræðum hætti tekið af skarið um það að á Íslandi gildir sú regla að landeigendur eigi ótímabundinn rétt til að hagnýta það vatn sem á landareign þeirra finnst eða um hana rennur, þ.m.t. orkunýtingarrétt. Engar takmarkanir voru settar á þennan rétt m.t.t. eignarhalds á virkjunum sem byggðar yrðu. Og í réttarframkvæmd hér á landi á þeim tíma sem liðinn er frá setningu Vatnalaganna 1923 hafa íslenskir dómstólar jafnan staðfest eignarrétt landeigenda að vatnsorku, m.a. þegar vatnsföll hafa verið tekin til virkjunar. Og að þarna sé tvímælalaust um að ræða eignarréttindi landeigenda sem njóta verndar skv. eignaréttarákvæðum 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.

Norway-national-day

Norway-national-day

Því má segja að sjónarmið einkaeignaréttar vegna vatnsréttinda hafi á 20. öldinni fengið mun meiri meðbyr hér á Íslandi heldur en í Noregi. Er þó norskur réttur þekktur fyrir sterkan einkaeignarétt; t.d. mun sterkari en í rétti flestra annarra Evrópuríkja þar sem sjá má meiri einkenni Rómrréttar, þess efnis að vatnsréttindi séu fyrst og fremst almannaréttindi.

Reyndar er það svo að þrátt fyrir ólíka löggjöf um meðferð vatnsréttinda í Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar er staðan núna – næstum heilli öld eftir að skipan þessara mála í þessum tveimur löndum var ákveðin – sú að í báðum löndunum er yfirgnæfandi hluti allrar raforkuframleiðslu í höndum hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga). Engu að síður er augljós munur á. Nýleg einkavæðing fyrirtækis á borð við HS Orku hefði t.a.m. ekki verið möguleg í norska vatnsaflsiðnaðinum vegna takmarkana í norskum lögum á aðkomu einkaaðila að virkjanarekstri.

Hjemfall reglan afnumin í upphafi 21. aldarinnar 

Á síðasta áratugi 20. aldar tóku Norðmenn, rétt eins og Íslendingar, upp nánara samstarf við Evrópusambandið (ESB). Þá er átt við gerð Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Í aðdraganda samningsins létu norsk stjórnvöld kanna það sérstaklega hvort aðild Noregs að EES kallaði á einhverjar breytingar á fyrirkomulagi virkjunarleyfa og eignarhaldi á norskum vatnsaflsvirkjunum. Niðurstaða þeirrar fræðilegu athugunar var sú að svo væri ekki og Norðmenn myndu því áfram geta notað hjemfall-regluna óbreytta.

EFTA-court-building-luxembourg

EFTA-court-building-luxembourg

En jafnskjótt og EES-samningurinn gekk í gildi tók að bera á gagnrýni á hjemfall-fyrirkomulagið og fram komu athugasemdir þess efnis að það væri ósamrýmanlegt ákvæðum EES-samningsins. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði brátt formlega athugasemd við fyrirkomulagið og sagði það stríða gegn EES-réttinum. Norðmenn þráuðust við og málið endaði fyrir EFTA-dómstólnum.

Norsk stjórnvöld töpuðu málinu og þar með varð ljóst að ef Noregur ætlaði að halda áfram að vera innan EES yrði að gjörbreyta skilyrðunum í tengslum við  virkjunarleyfi og rekstur vatnsaflsvirkjana í Noregi. Eftir nokkrar vangaveltur ákváðu norsk stjórnvöld að falla frá þeirri aldarlöngu framkvæmd sinni að setja hjemfall sem skilyrði virkjunarleyfa. Það varð þó alls ekki til þess að auka aðgang einkaaðila að norska vatnsaflsiðnaðinum. Þvert á móti!

Því í stað hjemfall-reglunnar tóku Norðmenn upp það einfalda fyrirkomulag að nú fá einkaaðilar engin ný virkjunarleyfi í Noregi (nema þegar um smávirkjanir er að ræða en sú heimild hefur alltaf verið til staðar).  Þetta bann er algilt um allar stærri virkjanir (þ.e. stærri en 4.000 hö sem jafngildir um 3 MW) og þess vegna engar horfur á að einkaaðilar verði umsvifameiri í hinum gríðarstóra norska vatnsaflsiðnaði.

norge-vannkraft-2.jpg

norge-vannkraft-2.jpg

Jafnræðissjónarmið EES-dómstólsins urðu sem sagt til þess að lokað var á nær allar fjárfestingar einkaaðila í norska vatnsaflsiðnaðinum. Svona er nú veröldin oft skrítin og kannski mætti segja að þarna hafi EES-löggjöfin bitið í eigið skott.

Það er engu að síður mikill uppgangur í byggingu smávirkjana á vegum einkaaðila í Noregi. Það kemur til vegna þess hversu raforkuverð til framleiðenda í Noregi hefur hækkað mikið síðustu árin. Raforkuframleiðsla er sem sagt orðin miklu arðbærari en áður var og þess vegna eru nú tækifæri til að fjármagna og byggja litlar virkjanir sem áður þóttu óhagkvæmar. Þær mega þó ekki vera stærri en 4.000 hö (um 3 MW), þ.e. þegar um einkaaðila er að ræða. Já – þannig er fyrirkomulagið í Noregi.

Fleira áhugavert: