Fyrstu netskilaboðin – Árið er 1969

Heimild:

.

Þriðjudaginn 29. október, voru nákvæmlega 50 ár frá því að fyrstu skilaboðin voru send milli tveggja tölva yfir hið svokallaða ARPA-net. Þetta fjarskiptanet var forveri og fyrsti vísirinn að því interneti sem við þekkjum og er svo alltumlykjandi í dag.
.

Smella mynd til að heyra umfjöllun RÚV

.

Nóvember 2019
.
Fimmtíu ár frá fyrstu netskilaboðunum

Það var ARPA, rannsóknarstofnun á vegum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, sem stóð að baki tilrauninni. Stofnunin fékk gríðarlega fjármuni úr ríkissjóði til að setja í hvers konar tækniþróun og rannsóknir – enda voru vísindin einhver mikilvægasti vígvöllurinn í köldu stríði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna sem þá stóð yfir.

Vísindin á vígvelli kalda stríðsins

Í þessu andrúmslofti kalda stríðsins var forsetinn Dwight Eisenhower tilbúinn að moka peningum í vísindarannsóknir þrátt fyrir að vera algjörlega óviss um nákvæmlega hvers eðlis ágóðinn yrði – hugmyndafræði ARPA var að ef snjöllustu vísindamenn þjóðarinnar fengju tíma og frelsi til að vinna að því sem þeim fannst áhugavert, kæmi eitthvað gagnlegt úr því að lokum, eitthvað gagnlegt fyrir hátæknistríðið gegn Sovétmönnum.

Hugmyndin um að skapa fjarskiptanet sem gæti sent skilaboð milli tölva spratt upp á nokkrum mismunandi stöðum á svipuðum tíma. Sovétmenn voru sjálfir að fikta við að þróa slíkt net, OGAS, á sjöunda áratugnum, en vestanhafs var það maður að nafni J.R. Licklider sem er yfirleitt talinn hafa mótað hugmyndina og plantað fræinu í hugum réttra manna þegar hann starfaði hjá ARPA í upphafi sjöunda áratugarins.

Vörn gegn árásum eða bara betri nýting á tölvum?

Licklider sá fyrir sér að samtenging tölva gæti gagnast til að mismunandi aðilar gætu samnýtt vinnslugetu sinna afkastamestu tölva, notað þær til fullnustu á öllum tímum sólarhringsins. En það var ekki verra að netið gæti gagnast hernum í yfirvofandi kjarnorkustríði við Sovétríkin. Fjarskipti í gegnum símalínur voru óörugg því notendur tengdust allir í gegnum miðlæga punkta, símstöðvar sem var auðvelt að taka úr umferð. „Til þess að eyðileggja slíkt fjarskiptakerfi er kannski nóg að sprengja eina svolítið stóra símstöð og þá eru stór landsvæði dottin úr sambandi við önnur,“ segir Sæmundur Þorsteinsson, lektor við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands.

Hugmyndin var að skapa algjörlega nýja tegund fjarskiptanets án miðju, þar sem hver hnútpunktur var tengdur við marga aðra og skilaboðin gætu þannig ferðast ólíkar leiðir um netið á áfangastað. Til þess að þetta gæti gengið þurfti að nota nýja tækni, svokölluð pakkaskipti, þar sem upplýsingum er pakkað saman í litlar einingar og þær sendar yfir fjarskiptalínurnar á næsta hnútpunkt og þeim svo dreift áleiðis til áfangastaðarins.

Fyrstu skilaboðin send

Fyrstu skilaboðin, sem doktorsneminn Charley Kline sendi frá tölvu í Háskólanum í Los Angeles til rannsóknarstofnunarinnar SRI við Stanford-háskóla, í um 600 kílómetra fjarlægð, urðu styttri en áætlað var. Honum tókst aðeins að senda stafina L og O áður en kerfið hrundi. Síðar sama kvöld var stöðugri tengingu komið á á milli tölvanna.

Fyrst um sinn voru aðeins fjórar tölvur tengdar ARPA-netinu, en smám saman jókst fjöldi tölva sem var tengdur við netið. Eftir því sem gagnsemi tölvunetsins kom í ljós fyrir samnýtingu tölva og  samskipti, fóru fleiri að setja upp sín eigin net.

Samtengd net og internet

Aðeins fimm árum eftir að ARPA-netinu var komið á fóru voru tölvunetin orðin þónokkur. „Þessi mörgu tölvunet sem voru orðin til, einangrað hér og þar í heiminum, voru ekki endilega sömu tegundar. Og það er engin augljós leið hvernig maður tengir saman svona ólík net,“ segir Sæmundur.

Tilraunir til að tengja tölvunetin gengu misjafnlega þar til Vinton Cerf og Robert Kahn gáfu út skjal þar sem kveðið var á um ákveðnar fjarskiptareglur sem þeir nefndu TCP og IP – eða Internet Protocol. „Þetta internet þýðir interconnection network, við erum að tengja saman ólík net. Besta þýðingin á þessu væri kannski millinetið,“ segir Sæmundur.

Fleira áhugavert: