Neysluvatn Heiðmörk – Útfjólublá geislun, hláka, örverur

Heimild:

.

Gvendarbrunnar, Elliðavatn séð til vesturs

Desember 2019

Aukin lýsing vatns frá vatnsbólum í Heiðmörk

Veitur hafa sett upp búnað til að lýsa hluta þess kalda vatns sem íbúar borgarinnar fá úr vatnsbólunum í Heiðmörk. Með því eru örverur, sem geta borist í vatnsbólin, gerðar óvirkar áður en vatninu er veitt út í dreifikerfið. Vatn úr borholum á svokölluðu neðra svæði vatnstökusvæðisins í Heiðmörk fer í gegnum lýsingarbúnaðinn.

Lýsingin felur í sér að vatnið er látið renna í gegnum útfjólublátt ljós en þessi háttur er víða hafður á hér á landi, einkum þar sem vatn er tekið af yfirborði eða úr grunnum borholum. Ekki er talin ástæða til að lýsa vatn úr dýpri holunum í Heiðmörk þar sem aldrei hafa fundist gerlar.

Í hláku eykst hættan á að vatn af yfirborði berist í grynnstu borholurnar og beri með sér örverur. Það er þó fátítt en í janúar 2018 fannst aukið magn jarðvegsgerla úti í vatnsdreifikerfinu í Reykjavík. Þá var ákveðið að kaupa lýsingartæki svo tryggja mætti fólki og fyrirtækjum í höfuðborginni nægt heilnæmt vatn. Nú hafa fleiri slík tæki verið sett upp. Lýsingin mun vera í gangi á meðan hætta er á hláku, þ.e. frá hausti og fram á vor. Sýnataka úr vatnsbólunum og dreifikerfinu er tíð, bæði á vegum Veitna og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, og gefur glögga mynd af gæðum vatnsins.

Lýsing á vatni gerir einungis örverur óvirkar en kemur ekki í veg fyrir annars konar mengun, svo sem af völdum olíu og annarra efna. Hún dregur því ekki úr mikilvægi vatnsverndar í Heiðmörk.

Fleira áhugavert: