Hönnuðir, iðnaðarmenn – Meiri samvinna
.
Desember 1996
Sérþekking er nauðsynleg en samvinna ekki síður, tæknimenn þurfa að taka upp meiri samvinnu. Þeir hafa löngum bograð hver í sínu horni.
ÞAÐ hefur löngum loðað við tæknimenn að vera hver að bogra í sínu horni, þetta á bæði við um iðnaðarmenn og hönnuði. Þetta leiðir til þess að oft eyðir hver og einn alltof miklum tíma í að finna lausn á vandamáli sem margir stéttarbræður hafa farið í gegnum og leyst.
Er nauðsynlegt að finna upp hjólið aftur og aftur? Það er ekki óalgengt að heyra sagt sem svo „maðurinn er verkfræðingur, hann hlýtur að vita það“. Verkfræðingum og tæknifræðingum, sem eru þeir sem hanna lagnakerfi, er enginn greiði gerður með þessu oftrausti, ef svo má segja. Þessar stéttir ganga í skóla, tækniskóla og háskóla og fá þar nauðsynlega undirstöðumenntun, síðan tekur við margskonar sérmenntun.
En þá er eftir erfiðasti og mikilvægasti skólinn, raunveruleikinn, að fást við raunveruleg verkefni, þá tekur við að byggja ofan á þá menntun sem skólinn hefur veitt.
Það er freistandi að taka dæmi; það er ekki það sama að hanna ofnakerfi og loftræstikerfi, það krefst sérþekkingar að hanna lagnakerfi í sundlaug, það krefst sérþekkingar að hanna frárennsliskerfi í götur í byggðahverfi.
Á sama hátt krefst það sérþekkingar pípulagningamanns að sjóða saman og leggja plaströr, þar kemur til sögunnar allt önnur tækni en gildir við lagnir úr málmum. Ekki nóg með það, mismunandi málmar krefjast þess að lagnamaðurinn þekki þá og eiginleika þeirra, ekki síst hvernig tengja má þá saman og plastefnin eru ekki síður fjölskrúðug flóra.
Sá hönnuður sem fær það sem verkefni að hanna lagnakerfi, sem hann finnur að hann hefur ekki næga þekkingu á, en lætur samt slag standa og hellir sér í verkefnið án þess að tala við kóng eða prest, tekur mikla áhættu. Það sama gildir um iðnaðarmanninn, pípulagningamanninn og blikksmiðinn, þeirra ábyrgð er mikil ef þeir finna að þekkingin er ekki nægjanleg og enginn ætti að taka áhættuna.
Hvað á hann þá að gera, vísa frá sér verkefninu, játa að þekking hans sé ekki nægjanleg?
Nei, það er enganveginn þörf á því, verkefnið er ögrandi og hver vill láta af hendi verkefni? Hinsvegar er ábyrgðin gagnvart verkbeiðanda sú að hann á ekki að fá í hendur nema það besta.
Þarna er kjörið tækifæri til að afla sér þeirrar sérþekkingar sem skortir, taka upp samvinnu við stéttarbróður sem hefur langa og góða reynslu í nákvæmlega þessu verkefni. Það tryggir að verkkaupinn fær það besta og sá ungi og reynsluminni öðlast nauðsynlega þekkingu.
Er ekki kominn tími til taka upp meiri samvinnu og leyfa þekkingunni að fljóta óhindrað, tapar nokkur á því?
GÓÐIR fagmenn eru alltaf að læra.