Rör í rör – Breyting á lagnaaðferð
.
Janúar 1997
Nauðsyn á meiri samvinnu
Með rör-í-rör kerfinu er um mikla breytingu á lagnaaðferð að ræða. Pípulagningamenn vinna svipað og rafvirkjar hafa gert í áratugi. Í NORSKA tímaritinu „Rörfag“, sem er gefið út af samtökum norskra pípulagningameistara, var sagt frá allsérstæðu námskeiði sem haldið var í bænum Drammen þar í landi.
að sérstæða við námskeiðið var að kennarar voru pípulagningameistarar, en nemendur tæknifræðingar og verkfræðingar, menn sem flokkast í þann starfshóp sem við í daglegu tali nefnum hönnuði á íslensku og allajafna sitja við teikniborð og tölvur. Í Drammen er lagnakerfamiðstöð, svipuð þeirri sem nú er unnið markvisst að að rísi hérlendis. Í slíkri miðstöð eru flest þau lagnakerfi sem fyrir koma í húsbyggingu, hvaða nafni sem hún nefnist. Þar er iðnnemum kennt en ekki síður þeim sem komnir eru út á vinnumarkaðinn en flestum, því miður ekki öllum, er orðið ljóst hve endurmenntun er mikil nauðsyn.
Hvað var gert?
Menn tóku sér góðan tíma, námskeiðið stóð í 3 daga, 5 tímar faglegt nám og 18 tímar í verklegu. Nemarnir fengu að æfa sig í ólíkum verklegum þáttum svo sem að leggja frárennslislagnir í grunn, hita krumpmúffur og leggja innanhússlagnir úr mismunandi efnum. Unnið var eftir teikningum og töldu menn sig læra mest af því að vinna eftir „lélegum“ teikningum, þar kom í ljós að ýmislegt sem var sjálfsagt og einfalt á teikniborði var nánast óframkvæmanlegt á vinnustað.
Farið var í gegnum lagnaefni og lagnakerfi frá ýmsum framleiðendum og opnaði það augu margra fyrir því að í lagnaheiminum eru líka til „lödur“ og „bensar“. Það kom þeim sem áttu hugmyndina að námskeiðinu skemmtilega á óvart hve áhugasamir hönnuðir voru fyrir því að setjast á skólabekk hjá iðnaðarmönnum.
Hvað gerist hérlendis?
Ekkert slíkt námskeið hefur verið haldið hérlendis og því ekki vitað hvernig lagnamenn mundu bregðast við því.
En eina vísbendingu höfum við og hún virðist ekki vera jákvæð.
Margumtalað rör-í-rör kerfi er að halda innreið sína á Íslandi. Hér er um mikla breytingu á lagnaaðferð að ræða, pípulagningamenn vinna svipað og rafvirkjar hafa gert í áratugi. Plaströrið sem flytur vatnið, er dregið inn í annað plaströr, þetta hefur tvo höfuðkosti; í fyrsta lagi er hægt að velja sér stað þar sem vatn frá hugsanlegum leka kemur fram og í öðru lagi er hægt að draga skemmt rör út úr kápurörinu og draga nýtt inn í staðinn, ekki þarf að brjóta gólf eða veggi.
En þetta krefst nýrrar þekkingar og nýrra viðhorfa bæði pípulagningamanna og hönnuða. Taka þarf tillit til margra nýrra þátta svo sem efniseiginleika plasts, burðarþols hússins og fleira mætti nefna.
Rör-í-rör kerfið kom fyrst fram í Sviss fyrir tæpum tveimur áratugum og þar sem það hefur verið notað mest, svo sem í Noregi, má heyra raddir um að farið hafi verið of geyst í sakirnar, framkvæmd hafi farið á undan þekkingu.
Hérlendis voru allir, sem málið varðaði, ákveðnir í að slíkt skyldi ekki gerast. Sjö lagnamenn sökktu sér ofan í verkefnið og yfirgripsmikið námsefni var samið og er til efs að annarsstaðar hafi verið staðið betur að undirbúningi notkunar á þessu nýja lagnakerfi en hérlendis.
Fræðsluráð bygginga- og tréiðngreina var framkvæmdaaðili námskeiðanna og var ákveðið að þau, sem hvert er 20 tímar, skyldu vera fyrir alla lagnamenn; verkfræðinga, tæknifræðinga, byggingafulltrúa, eftirlitsmenn og pípulagningamenn og í lok námskeiðanna tækju menn próf undir eftirliti Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins. Ekki var annað að heyra eftir fyrsta námskeiðið en að allir væru ánægðir og ekki síður með það að ólíkum stéttum væri blandað saman.
En fyrsta námskeiðinu var tæplega lokið þegar Háskóli Íslands, eða réttara sagt Endurmenntunardeild háskólans, hleypti af stokkunum eigin námskeiði í rör-í-rör kerfinu. Tæplega er þó hægt að tala um „eigið“ námskeið því kennarar eru þeir sömu og námsefnið það sama og hjá Fræðsluráði bygginga- og tréiðngreina að því undanskyldu þó að allt verklegt er fellt út og einnig þeir sem kenndu það.
Þannig fór um fyrstu tilraun þess hérlendis að fá alla lagnamenn til að setjast á skólabekk saman, hvort sem þeir eru úti á vinnustað í vinnugalla eða sitjandi við tölvu og borð í hreinlegra umhverfi og það var æðsta menntastofnun landsins, Háskóli Íslands, sem skildi hafrana frá sauðunum.