Hitaveitan – Skrítnar skepnur..
.
Apríl 1997
Mannskepnan er skrítin skepna
Hitaveitan er svo sjálfsögð, að enginn tekur eftir þessari tandurhreinu orku, sem streymir inn í híbýli manna dag og nótt, fyrr en eitthvað kemur fyrir. Þá kippast menn við.
EITT af einkennum tegundar þeirrar sem nefnist maður er að horfa eða stara miklu meira á það sem fer aflaga en það sem betur fer. Eftir því sem hagur manna og þjóða vænkast því meir er starað á það neikvæða, það jákvæða er svo sjálfsagt að enginn tekur eftir því. Ef enginn væri jarðhiti á Íslandi og öll hús hituð upp með olíu eða kolum væri talsvert öðruvísi um að litast á stilltum dögum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. En hitaveitan er svo sjálfsögð að enginn tekur eftir þessari tandurhreinu orku sem streymir inn í hýbýli manna dag og nótt, það tekur enginn eftir henni fyrr en eitthvað kemur fyrir.
Ef heita vatnið hættir að renna annaðhvort af því að lögn hefur bilað í götu eða gleymst hefur að borga reikninginn, sem í raun er ótrúlega lítil upphæð, þá kippast menn við, það tekur enginn eftir sjálfsögðum gæðum fyrr en þau hverfa. Burt með álver, eða hvað? Það er að verða þjóðaríþrótt að mótmæla þessu eða hinu, gífurleg orka lögð í það og einnig að heimta prestkosningar, endilega að koma af stað úlfúð meðal hinna sannkristnu. Ef öll þessi orka væri virkjuð til jákvæðra mála væri hægt að ýta mörgu þjóðþrifamálinu fram á við. Samtök hafa verið stofnuð til að berjast gegn álveri í Hvalfirði og taka þau nafn sitt af uppsprettu alls lífs á jörðu, sólinni. Það hefur að vísu verið bent á það af mætum og vísum mönnum að mengun frá þessu umrædda álveri er engan veginn neitt til að óttast.
Við höfum undirritað alþjóðlegan samning og lýst því yfir að koltvísýringur í andrúmslofti skuli ekki verða meiri árið 2000 en hann var þá áratug fyrr, háleitt markmið og góðra gjalda vert, en er það sanngjarnt? Spurningin er sú hvort við mengum ekki svo miklu minna en aðrar þjóðir að það sé erfitt að standa við fyrirheitið, það er nú einu sinni svo að það er miklu auðveldara fyrir sóða að verða svo og svo miklu hreinni á morgun heldur en í gær, en fyrir þann sem aldrei hefur skítugur verið, fyrir hann er ekki auðvelt að sýna mikla breytingu til bóta. Þvo fyrst þar sem skíturinn er mestur En kíkjum aðeins á sólarsamtökin miklu sem telja að allt velti á því að ekki rísi álver í Hvalfirði, ef því verði komið fyrir kattarnef séum við í góðum málum. Á góðviðrisdögum í vetur, í köldu og sólbjörtu veðri hefur gulleitt ský legið yfir Faxaflóa og hafa víst margir haldið að það væri komið frá Áburðarverksmiðjunni, gulleit ský komu stundum þaðan fyrr á árum.
En þá ágætu verksmiðju má sýkna og tæpast er álverið fyrirhugaða í Hvalfirði farið að spúa frá sér eiturgufum. Hvaðan koma þá ósköpin? Því hefur verið svarað, þetta skítaský kemur frá bílaflotanum sem þeysist um götur og þjóðbrautir, líka frá bílum þeirra sem eru að flengjast á fundi sólarsamtakanna þar sem herða skal fjöldann gegn uppbyggingu álvers. Ekki fyrir löngu var birt ein lítil teikning hér í pistli sem sýndi tankbíl og var þar listi yfir hvað brennt er af olíum miðað miðað við höfðatölu í hinum svokölluðu þróuðu ríkjum í heiminum. Það kom ekki á óvart þó heimsveldið Bandaríkin væri sigurvegari í brennslu olíu, iðnaður og ekki síður gífurlegur og orkufrekur bílafloti þarlendis þarf sinn sopa.
En það kom vissulega á óvart að þann vafasama heiður að sitja í öðru sæti hlotnaðist litla Íslandi, landi jarðhitans og hins hreina lofts. Hvar í ósköpunum brennum við allri þessari olíu? Við brennum bensíni og olíum á bílaflotanum og við brennum ógrynni af olíu á fiskiskipaflotanum, þar liggur skýringin, frá bílum og skipum kemur langmest af þeim koltvísýringi sem við sendum út í andrúmsloftið. Væri ekki nær að landsmenn allir, sólarfélagar einnig, taki nú rögg á sig og ráðist gegn vandanum þar sem hann er mestur.
Við erum að bösla við að reyna að fá útlendinga til að leggja hund yfir Atlantshafið til að við getum selt þeim raforku á spottprís, við ætlum seint að losna við nýlenduhugsunarháttinn, en gerum ekkert í því að veita fjármagni til þeirra hæfu vísindamanna sem af litlum efnum eru að reyna að þróa og sýna fram á þá miklu möguleika sem eru í rafknúnum flutningatækjum, eða að þróa innlenda framleiðslu á vetni eða metanóli.
Ef við ætlum að standa við alþjóðlegan samning um að halda koltvísýringi í skefjum þá er leiðin að taka skítugustu óþekktarormana og þvo þeim og breyta um orkugjafa, hinsvegar að slá tvær flugur í einu höggi með stóraukinni skógrækt og landgræðslu sem skilar okkur aftur grónu landi og bindur sjálfan óvininn, koltvísýringinn. VÍÐA um lönd spúa verksmiðjur eitri og eimyrju út í andrúmsloftið en á Íslandi er það bíla- og skipaflotinn sem er helsti sökudólgurinn.