Hver er tilgangur með lagnakerfum í húsum? Tilgangurinn með að setja lagnir í nýbyggingar er sá að lagnirnar komi fólkinu sem býr og/eða starfar í húsunum að fullu gagni og að fólkið fái vellíðunartilfinningu fyrir lögnum.Lagnir kosta peninga og þeir peningar eiga að skila sér til baka í þægilegheitum fyrir fólkið.
Væntingar fólks til lagnakerfa eru nú orðnar miklar bæði til hreinlætis, upphitunar og loftræstingar. Ég man vel þá tíma þegar allt vatn var borið heim til allra þarfa bæði í íbúðarhús og skepnuhús. Fyrir utan íbúðarhúsið á hlaðinu stóð „Kamarinn“ sem allir þurftu að fara á hvernig sem viðraði.
Stórkostlegar breytingar hafa orðið á neysluvenjum fólks hvað varðar notkun lagna síðan fyrir árið 1945 og flest af því sem gert hefur verið er til batnaðar.
Nú á seinni tímum virðist sem gæði hönnunar hafi hrakað mikið hvað varðar aðgengi að lögnum til þjónustu við þær.
Hér áður fyrr voru flestallar lagnir sýnilegar og virkuðu sem skraut í húsum og enginn utanaðkomandi raki komst að þeim til að valda á þeim tæringu. Ef leki kom upp, þá gat hann ekki leynst vegna þess að allt var sýnilegt.
Það er athyglisvert að þær lagnir og ofnar sem fyrst voru lagðar í íbúðarhús á Íslandi árið 1895 (hús Ottó Wathne á Seyðisfirði) eru þar enn að hluta til í notkun, þær eru allar sýnilegar og enginn utanaðkomandi raki kemst að þeim til að skemma þær.
Lagnirnar eru því orðnar 107 ára gamlar.
Hverju er þetta að þakka?
Í dag eru dæmi um að lagnir séu farnar að leka og stórskemma ný hús áður en húsin ná eins árs aldri. Nú eru lagnir faldar inni í veggjum, loftum og gólfum þar sem raki kemst oft að þeim og skemmir þar.
Hverjir eru það sem tóku upp á því að hanna lagnir þannig, að þær eru steyptar inn í veggi, loft og gólf (gólfraufar) og settar inn í létta veggi og fölsk loft og með því gera þjónustu við lagnirnar illframkvæmanlegar, húseigendum til mikils tjóns.