ACER samningur – Landa-, raforkusala
Ágúst 2018
EES-samningurinn er einn besti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert en sá böggull fylgir skammrifi að okkur ber að taka upp reglur ESB sem ekki eru allar jafn góðar. Nú síðast ber okkur að samþykkja þriðja orkupakkann og þar með að stofnun ESB, ACER, sjái um að reglugerðir okkar um raforkugeirann séu í samræmi við reglugerðir innan ESB og það án þess að athuga afleiðingarnar, til dæmis á frelsi okkar til að haga vinnslu úr tveim af mikilvægustu auðlindum okkar eins og best hentar. Ekki er heldur minnst á hvort sú aðferð sem þarna er notuð sé fordæmisgefandi fyrir sjávarauðlindina, sem ESB vill gjarnan hafa putta í.
Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um sölu á landi til bresks auðmanns sem virðist kaupa upp lönd svo hann hafi næði til laxveiða hér á landi. Allt er þetta löglegt og fínt vegna þeirra reglna ESB sem við höfum undirgengist vegna EES-samningsins. Annað dæmi er kaup Kanadamannsins Ross Beaty á HS Orku. Stofnaði hann fyrirtæki í skúffu í Svíþjóð. Þar með gat hann keypt sér orkufyrirtæki suður með sjó og það sem hann gerir með fyrirtækið, eins og að virkja vatnsafl vestur á Ströndum er innan regluverks ESB.
Eitthvað hefur verið fjallað um ACERsamninginn, það er þriðji orkupakki ESB. Þar eigum við að undirgangast reglur sambandsins um skipulag og eftirlit á orkusölu. Pakki tvö var án nokkurrar umræðu innleiddur með lögum og telja margir að það hafi verið mistök á sínum tíma. Breytingin nú felur í sér að sett verði á fót embætti „landsreglara“ sem fylgist með verðlagningu, og hefur eftirlit með viðskiptum á raforkumarkaði. Eftirlitið á fylgjast með spotmarkaði með rafmagn og öðrum viðskiptum óháð íslenskum aðstæðum. Skulu markaðssjónarmið ráða eins og þau best gerast í ESB-löndum.
Raforkuframleiðsla á ESBmarkaði er að ráðandi hluta keyrð á kolum og jarðgasi. Hér er allt keyrt á vatni og jarðhita. Markaðsaðstæður á jarðefnum stjórna því verðinu í ESB-löndum en hér sveiflast ekkert nema rigningin. Þar eru framleiðendur fjölmargir en hér örfáir. Þar er eignarhaldið eins fjölbreytt og mannlífið, en hér í höndum ríkis og sveitarfélaga nær eingöngu. Undantekningin er skúffan í Svíþjóð.
Kaupendur hér eru að megni til þrír stórir. Þeirra kaup hafa leitt til þess að virkjanir hér eru stórar og almennir notendur njóta stærðarhagkvæmninnar með ódýrri orku frá sjálfbærum auðlindum sem ekki stjórnast af sveiflum á jarðefnaeldsneyti. Heildarnotkun Íslands af rafmagni er 17 Twh (Terawattstundir). Í Bretlandi er rafmagnsnotkunin 304 TWh og í ESB er hún um 2.786 TWh samkvæmt tölum frá Eurostat. Einnig notar Evrópa gríðarlegt magn jarðefna beint við hitun húsa og í efnaiðnaði sem ekki eru inni í þessum tölum. Hér á landi gætir þessa lítið. Fiskimjölsverksmiðjur hér á landi eru meira að segja hættar að brenna olíu til þurrkunnar. Sú orka sem er ekki bundin í langtímasamningum og flokkast sem almenn notkun fyrirtækja og almennings hér á landi er um 3 TWh samanborið við 2.786 TWh ESB eða 0,1%.
ESB er að fást við allt önnur vandamál og mörg umhverfistengd. Þeir þurfa að spara orku og jafna aðgengi orku á sínum markaði. Við eigum ekki við þeirra vandamál að etja en eigum samt að taka upp þeirra reglur. – Reglur sem ekki eiga við okkar markað sem er annars eðlis og ótengdur Evrópu.
Menn hafa sagt að upptaka ACER hafi lítil áhrif hér á landi til að byrja með en viðurkenna einnig að lagabreytingin 2003 hafi verið mistök. Einnig viðurkenna þeir sem ég hef rætt við að þeir viti ekki hvaða áhrif fyrirhuguð lagabreyting nú kemur til með að hafa á markaðinn hér heima til lengri tíma litið. Ætla menn virkilega að innleiða ný lög án þess að vita með vissu hver áhrifin verða? Hvers vegna vinna menn ekki heimavinnuna sína og laga það sem var breytt með lögunum 2003. Þá var Landsvirkjun framleiðandi til þrautavara en ekki lengur. Það er ekki lengur á ábyrgð eins né neins ef orku vantar í landinu. Þetta þarf að ræða og einnig það hvort við viljum að orkufyrirtækin séu rekin með auknum hagnaði og greiði arð til þeirra sem varðveita hlutabréfin, eða láti eigandann njóta ávaxtanna með ódýrri orku til heimilanna?
Við getum notað okkar sérstöðu, sérstaklega ef við erum ekki undir regluverki ESB um skipulag og eftirlit á orkusölu. Við eigum að hætta verslun með upprunavottorð sem leiðir til þess að framleiðendur hér á fiski, kjöti eða grænmeti eru skráðir sem notendur á kjarnorku eða kolum sem uppruna orku við sína framleiðslu. Við eigum að nota vörumerkið Icelandic fyrir íslenska framleiðslu og ferðaþjónustu. Merki fyrir hreinleika og sjálfstæði.
Hef ég heyrt þau rök fyrir upptöku ACER, að við séum svo vitlaus að við getum ekki stjórnað okkur sjálf. Það er ekki farsælt hugarfar frjálsrar þjóðar. Nú mun frumvarp um þetta efni verða lagt fram á þingi og þingmenn ákveða hvort við ætlum að stjórna okkar auðlindum sjálf eða treysta á ESB. Þá kemur í ljós hvort rökin um heimsku landans halda velli á Alþingi Íslands.