Rándýr virkjun í norðri – Kostnaðarsamanburður

Heimild: 

 

Júní 2018

Ketill Sigurjónsson

Rís rándýr virkjun í norðri?

Áhuga­vert er að skoða saman­burð á kostn­aði ísl­enskra virkj­ana. Þá sést að kostn­að­ur­inn þar er mjög mis­mun­andi. T.a.m. er fyrir­hug­uð Hval­ár­virkj­un á Strönd­um í þessu sam­hengi ansið dýr virkj­un. Samt er mik­ill áhugi á að reisa virkj­un­ina. Sá vilji virðist end­ur­spegl­a ákveðna óhag­kvæmni í rekstri ísl­enska virkjana­kerfisins.

Kostnaðarsamanburður virkjana

Þegar fjallað er um kostnað nýrra virkj­ana á Ísl­andi er nær­tæk­ast að miða við töl­ur sem sett­ar voru fram í skýrslu sem unn­in var fyrir Sam­orku fyr­ir um tveim­ur ár­um og er birt á vef sam­tak­anna. Í skýrsl­unni er kostn­að­in­um dreift á fram­leidda raf­orku á líft­íma virkj­un­ar­inn­ar og þá fæst kostn­að­ur á hverja fram­leidda orku­ein­ingu (oft mi­ðað við eina MWst eða eina kWst). Á ensku er í þessu sam­bandi talað um level­ized cost of energy; LCOE. Þetta er að vísu ekki galla­laus að­ferð. En er engu að síður al­þekkt og al­mennt við­ur­kennd sem nokk­uð skyn­sam­leg leið til að bera sam­an fjár­hags­lega hag­kvæmni ólíkra virkjun­ar­kosta.

 

 

Hvalárvirkjun er nokkuð dýr virkjunar­kostur

Samkvæmt áður­nefndri skýrslu, sem unn­in var fyrir Sam­orku, er LCOE vegna Hval­ár­virkj­un­ar 49,70 USD/MWst. Til sam­an­burð­ar má nefna að skv. sömu skýrslu er LCOE vegna hinn­ar nýju Þeista­reykja­virkj­un­ar 28,90 USD/MWst og LCOE vegna fyrir­hug­aðrar Hvamms­virkj­un­ar í neðri hluta Þjórs­ár er 38,80 USD/MWst. Og LCOE vegna mögu­legrar jarð­varma­virkj­un­ar í Eld­vörp­um er sagð­ur vera 44,80 USD/MWst. Hval­ár­virkj­un er því nokk­uð dýr virkj­un­ar­kost­ur. Þar að auki yrði afar kostn­að­ar­samt að tengja virkj­un­ina við flutn­ings­kerfi Lands­nets. Þegar/ ef það er tek­ið með í reikn­ing­inn myndi sam­an­burð­ur­inn gera Hval­ár­virkjun enn­þá dýrari.

Hvalárvirkjun miklu dýrari en almennt raforkuverð

Í tilvitnaðri skýrslu er viðmiðunar­gengi USD sem nem­ur 125 ísl­ensk­um krón­um (ISK). Í dag er geng­ið nær 110 ISK. Slík­ar geng­is­sveifl­ur hafa ekki stór­felld áhrif á sam­an­burð virkj­un­ar­kostanna. Þess má geta að Hval­ár­virkj­un hef­ur ekki ver­ið kynnt sem raf­orku­kost­ur fyrir stór­iðju. Þess vegna virð­ist mega ganga út frá því að raf­orku­sal­an frá virkj­un­inni verði fyrst og fremst til almennra not­enda og t.a.m. mögu­lega einn­ig til smærri stór­not­enda eins og gagna­vera. Í reynd er þó ork­an frá Hval­ár­virkj­un ekki eyrna­merkt ein­stök­um teg­und­um raf­orku­not­enda.

Almennt heildsölu­verð á raf­magni á liðnu ári (2017) var að með­al­tali ná­lægt 4,5 ISK/kWst sem jafn­gildir 4.500 ISK/MWst. Með­al­gengi USD og ISK árið 2017 var 106,78 og því var almennt raf­orku­verð hér árið 2017 um 42 USD/MWst að meðaltali. Þetta verð er nokk­uð fjarri LCOE upp á 49,70 sem reikn­að hefur ver­ið út vegna Hval­ár­virkj­un­ar (auk þess sem tengi­kostn­að­ur við flutn­ings­mann­virkin eru ekki inni­fal­inn í þeirri tölu). Sam­kvæmt þessu er Hval­ár­virkj­un­ tölu­vert dýr­ari en al­mennt raf­orku­verð hér rétt­lætir.

 

 

HS Orka veit hvar hagkvæmni Hvalárvirkjunar liggur

Af framangreindu ætti að vera aug­ljóst að Hval­ár­virkj­un er dýr virkj­un­ar­kost­ur. Og mið­að við al­mennt raf­orku­verð geng­ur virkj­un­in ekki upp fjár­hags­lega. En veru­leik­inn er ekki alveg svona ein­fald­ur. Fyrir­tæk­ið sem á meiri­hlut­ann í þessu virkj­un­ar­verk­efni, HS Orka, sér ber­sýni­lega ein­hverja hag­kvæmni í virkj­un­inni. Við vit­um ekki ná­kvæm­lega hvaða út­reikn­ing­ar eða áætl­an­ir liggja þar að baki og verð­um því að reyna að geta okk­ur til þess.

Liggur hagkvæmni Hvalárvirkjunar í dýru topp­afli frá Lands­virkjun?

Höfundur veit ekki fyrir víst af hverju HS Orka sér hag­kvæmni við Hval­ár­virkj­un. Aft­ur á móti má vekja athygli á því að þau sem standa að sam­starfs­hópn­um Jarð­strengir hafa fært rök fyrir því að HS Orku sé mik­il­vægt að ráða yfir nýrri nokk­uð stórri vatns­afls­virkj­un til að geta upp­fyllt alla raf­orku­sölu­samn­inga sína. Eða ella kaupa dýrt topp­afl af Lands­virkjun.

Samkvæmt skrifum Jarð­strengja kaup­ir HS Orka veru­legt magn af raf­magni til að mæta álags­topp­um og í þeim við­skipt­um er fyrir­tæk­ið mjög háð fram­boði og verð­lagn­ingu Lands­virkj­un­ar. Og að Hval­ár­virkj­un hafi fyrst og fremst þann til­gang að minnka eða losa HS Orku und­an þess­um dýru topp­afls­kaupum.

Jarðstrengir kunna þarna að hafa nokk­uð til síns máls. Þann­ig segir ber­um orð­um í gögn­um Orku­stofn­un­ar um Hval­ár­virkj­un (við­auki 05 af 92 við skýrslu Orku­stofn­un­ar OS-2015/02) að virkj­un­in muni „nýt­ast best eig­end­um sín­um sem topp­afls virkj­un“. Þetta orða­lag kann að vera vís­bend­ing um að til­gang­ur virkj­un­ar­inn­ar sé ein­mitt fyrst og fremst að mæta topp­afls­þörf HS Orku. Í til­viki ekki stærri vatns­afls­virkj­un­ar með miðl­un er aug­ljós­lega hag­kvæmt að nýta virkj­un­ina með þessum hætti. Um leið má hafa í huga að skv. skrif­um Jarð­strengja er HS Orka að greiða Lands­virkj­un sem nem­ur 150-200 USD/MWst fyr­ir raf­orku á álags­tímum.

Huga þarf að aukinni hagkvæmni í raforku­kerfinu

Miðað við uppgefna kostnaðar­tölu Hval­ár­virkj­unar, sbr. hér fyrr í greininni, virð­ist sem Jarð­strengir kunni að hafa les­ið rétt í það hvert við­skipta­módel Hval­ár­virkj­un­ar sé. Þ.e. að HS Orka vilji minnka veru­lega þörf sína á að kaupa dýrt topp­afl frá Lands­virkj­un (jafn­vel þó svo verð­ið á því sé leynd­ar­mál og því óvíst).

Það er ekki heppilegt ef reyndin er sú að orku­fyrir­tæki þurfi að reisa svo dýra 55 MW virkj­un norð­ur á Strönd­um til að mæta toppafli. Sennilega er til betri leið til að tryggja raf­orku­geir­an­um nægt raf­magn til að upp­fylla orku­sölu­samn­inga sína. Hvern­ig væri t.a.m. að reyna að ná meiri hag­kvæmni út úr hinu stóra íslenska vatns­afls­kerfi? Kerfinu sem þegar er til staðar.

Í reynd liggur tölu­verð innbyggð of­fjár­festing í hinu stóra kerfi miðl­un­ar­lóna og vatns­afls­virkjana sem Lands­virkjun ræð­ur yfir. Sú „of­fjár­fest­ing“ kem­ur til af því að Lands­virkj­un þarf að hafa borð fyrir báru til að geta upp­fyllt orku­sölu­samn­inga sína á mis­góð­um vatns­tímabilum. Þar skipta samn­ing­arn­ir við stór­iðju­fyrir­tæk­in fjög­ur mestu máli.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Orku­stofn­un­ar er meðal­nýt­ing íslensku vatns­afls­virkj­an­anna um 66%. Það væri þjóð­hags­lega æski­legt að finna leið­ir til að þetta stóra kerfi geti skil­að meri raf­orku með lág­marks til­kostn­aði. Þann­ig myndu allir fá ávinn­ing; bæði Lands­virkj­un, önn­ur raf­orku­fyrir­tæki og neyt­endur. Og það er reynd­ar aug­ljóst hvern­ig þetta markmið gæti náðst með hag­kvæmum hætti. Sem er með sam­spili þessa gríðar­stóra vatns­afls­kerfis og ódýrrar vind­orku. Það ánægju­leg­asta við tíð­ind­in af lækk­andi kostn­aði vind­orku er tví­mæla­laust að þetta skap­ar hag­kvæma leið til að auka hér raf­orku­fram­boð án eins mikils til­kostn­að­ar eins og ella væri.

—————————-

Lazard-LCOE-version-11_2017-table

   Lazard-LCOE-version-11_2017-table                 SMELLA Á MYND TIL AÐ STÆKKA

Höfundur vinn­ur að vind­orku­verk­efnum í sam­starfi við evrópskt orku­fyrir­tæki. Hér til hlið­ar má sjá nýjasta kostn­að­ar­mat Lazard á mis­mun­andi virkj­un­ar­kost­um og þar er vind­orkan nú með lægstan kostnað; allt niður í 30 USD/MWst. Þess­ar tölur Lazard eru frá 2017, en þess má geta að nú eru vís­bend­ing­ar um að raf­orku­fram­leiðsla með sólars­ellum á hag­kvæm­um svæð­um sé að verða ódýr­asta teg­und­in af nýjum raf­orku­verkefnumSvo myndi ekki vera á Ísl­andi (of lítil með­al­geisl­un), en hér á landi eru aft­ur á móti vind­að­stæð­ur með því besta sem ger­ist í heim­inum.

Fleira áhugavert: