Framtíðin – Í röngu ljósi..
Mars 2018
Eins verðmætur hæfileiki og það er að geta gert tiltölulega nákvæmar spár um framtíðina virðist okkur flestum erfitt að gera annað en að fylgja hugmyndum fjöldans um það sem koma skal. Og fjöldinn hefur sjaldnast rétt fyrir sér.
Þetta segir Magnus Lindkvist framtíðarfræðingur og rithöfundur.
Lindkvist telur mikilvægt að fólk og fyrirtæki þori að hugsa stórt og djarft um framtíðina. „Reynslan kennir okkur að framtíðin verður alltaf skrítnari en við gerðum okkur í hugarlund og mistökin sem við gerðum voru að leyfa okkur ekki að gera nógu fjarstæðukenndar spár.“
En það er þægilegt að fylgja hjörðinni og á vissan hátt öruggari leið til að komast í gegnum amstur hins daglega lífs. Það sem meira er; djörfu hugmyndirnar mæta oft mikilli mótspyrnu. „Ég held það hafi verið Voltaire sem sagði eitthvað á þá leið að það væri yfirmáta erfitt að hugsa öðruvísi en samferðamenn okkar. Það jafngildir því að ögra ríkjandi ástandi og er fljótleg leið til að eignast óvini,“ segir Lindkvist.
„Samfélagið er á margan hátt hannað til að halda lífi í hefðunum og hægja á breytingum. Er skemmst að minnast Uber sem hefur storkað ástandinu eins og það er á leigubílamarkaði svo að borgaryfirvöld víða um heim hafa bannað fyrirtækinu að starfa. Sama með rafmyntir; seðlabankar hér og þar hafa ýmist reynt að setja strangar reglur um notkun þeirra eða hreint og beint bannað þær. Ef eitthvað er alveg nýtt, og virðist geta virkað, þá er fyrsta viðbragðið oft að reyna að banna það.“