Vindmyllugarður Búrfell – Ný staðsetning, uppröðun
September 2018
Rís vindmyllugarður ofan við Búrfell?
Eftir nokkurra ára undirbúning Landsvirkjunar fyrir allt að 200 MW vindmyllugarð við hálendisbrúnina ofan við Búrfell taldi Skipulagsstofnun tilefni til að þau áform yrðu endurskoðuð. Sú endurskoðun af hálfu Landsvirkjunar stendur nú yfir og hefur fyrirtækið sagst stefna að minna verkefni. Og hyggst einnig breyta uppröðun og staðsetningu vindmyllanna. Í þessari grein verður athyglinni beint að þessum breyttu áformum Landsvirkjunar.
Staðsetningin andspænis Heklu virðist umdeild
Landsvirkjun hefur kallað verkefnið Búrfellslund. Kortið hér að neðan sýnir eina af þremur upphaflegum hugmyndum fyrirtækisins um hvar staðsetja mætti vindmyllugarðinn. Hinir kostirnir tveir gerðu ráð fyrir að flestar vindmyllurnar yrðu aðeins neðar á sléttunni þarna ofan Búrfells.
Skástrikaða svæðið við Þjórsá (á kortinu) er sem sagt einn af þeim valkostum sem Skipulagsstofnun taldi vera með þeim hætti að tilefni væri til að skoða hvort „umfangsminni uppbygging“ eigi betur við á þessu svæði, „bæði hvað varðar hæð og fjölda vindmylla“. Á kortinu má líka sjá hvar núverandi tvær tilraunamyllur Landsvirkjunar eru staðsettar, en þær eru hvor um sig 0,9 MW.
Svæðið þarna ofan Búrfells hentar að mörgu leyti vel fyrir vindmyllur. Bæði eru vindaðstæður á svæðinu góðar (hár nýtingartími líklegur) og innviðir til staðar (háspennulínur, vegir o.fl.). Um leið yrði komist hjá þeirri röskun sem yrði ef vindmyllur yrðu þess í stað reistar á svæðum þar sem lengra er í nauðsynlega innviði. Dæmi um svæði sem hafa áhugaverðar vindaðstæður en eru fjarri öflugum háspennulínum eða ekki í sérlega góðu vegasambandi eru t.d. Melrakkaslétta og Gufuskálar á Snæfellsnesi.
Á móti kemur að þarna ofan við Búrfell er geysifögur fjallasýn og um svæðið liggur fjölfarin leið inn á hálendið. Það virðast fyrst og fremst hafa verið slík sjónræn áhrif – og þá ekki síst útsýnið til Heklu – sem ollu því að Skipulagsstofnun leist illa á staðsetninguna og umfangið á Búrfellslundi. En nú mun Landsvirkjun vera langt komin með að endurhanna verkefnið og þar með er kannski mögulegt að þarna rísi bráðum fyrsti vindmyllugarðurinn á Íslandi.
Vindmyllur eingöngu norðan vegar
Samkvæmt þeim upplýsingum sem Landsvirkjun hefur birt hefur staðsetningu vindmyllanna verið hnikað til þannig að þær verði allar norðan (eða vestan) Sprengisandsvegar. Í fyrri hönnun eða tillögum voru myllurnar aftur á móti flestar eða margar sunnan (eða austan) vegarins og þar með í sjónlínu vegfarenda sem horfa til Heklu.
Það svæði sem nú er hugsað fyrir vindmyllurnar er líka töluvert minna en í fyrri tillögum fyrirtækisins. Enda er endurhannaða verkefnið sagt verða „mikið minna“ en áður var fyrirhugað og sagt að það verði „kannski 50-100“ MW. En eins og áður sagði var upphaflega miðað við verkefni allt að 200 MW.
Verður Búrfellslundur tuttugu 4,2 MW vindmyllur?
Nýja staðsetningin á Búrfellslundi er afmörkuð með blástrikaða svæðinu á kortinu hér til hliðar (kortið er úr kynningu Landsvirkjunar). Vert er að taka fram að það er harla ólíklegt að Landsvirkjun verði við þeirri ábendingu Skipulagsstofnunar að vindmyllurnar verði lægri en áætlað var. Þvert á móti er tækniþróunin með þeim hætti að sennilega myndi Landsvirkjun nú vilja setja þarna upp vindmyllur sem yrðu öflugri og næðu jafnvel ennþá hærra upp en áður var fyrirhugað.
Miðað við þróun í vindorkutækninni er líklegt að Landsvirkjun muni vilja reisa vindmyllur þar sem hver og ein verður a.m.k. 4,2 MW að afli. Og miðað við heildarstærð vindmyllugarðs á bilinu 50-100 MW gætu þetta orðið ca. 12-25 stórar vindmyllur. En ekki 58-67 eins og áður var stefnt að. Og eins og áður sagði yrðu þetta sennilega ennþá hærri mannvirki en fyrri tillögur hljóðuðu upp á.
Margir staðir á Íslandi henta vel til að virkja vindinn
Forvitnilegt verður að sjá lokaútfærsluna af vindmyllugarði Landsvirkjunar þarna ofan Búrfells og hvað Skipulagsstofnun mun segja um hana. En þrátt fyrir breytta hönnun Búrfellslundar verður staðsetningin þarna andspænis Heklu sjálfsagt áfram umdeild. Sama á reyndar við um nánast hvert einasta virkjunarverkefni sem sett er á dagskrá; það er sjaldnast einhugur um slík verkefni. Núorðið er a.m.k. oftast mikill ágreiningur um bæði ný jarðvarma- og vatnsaflsverkefni. Og sama verður eflaust með vindmyllugarða.
Hér á Íslandi má víða finna svæði sem eru með góðar vindaðstæður. Og þó nokkur slík svæði eru bæði aðgengileg og hæfilega fjarri þéttbýli. Fyrir vikið ætti ekki að vera mjög flókið að staðsetja vindmyllugarða hér með þeim hætti að þeir valdi fólki ekki óægindum, hafi lítil umhverfisáhrif og bjóði samt upp á hagkvæma tengingu við öflugar háspennulínur í nágrenninu. En hvort vindmyllugarður í smækkaðri mynd ofan við Búrfell fær brautargengi, á eftir að koma í ljós.