Norskur vatnsaflsiðnaður – Skattkerfið í hnotskurn
Desember 2013
Skattkerfið í norska vatnsaflsiðnaðinum
Ísland og Noregur eru langstærstu raforkuframleiðendur í heimi (miðað við fólksfjölda). Bæði löndin byggja raforkuframleiðslu sína nær eingöngu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Í Noregi er vatnsaflið yfirgnæfandi og svo er einnig hér á landi, en að auki nýtum við Íslendingar jarðvarmann okkar til raforkuframleiðslu.
Það er athyglisvert að Íslendingar og Norðmenn eiga það einnig sameiginlegt að eignarhaldið á virkjununum í þessum tveimur löndum er mjög ámóta. Þ.e. yfirgnæfandi hluti þess er í opinberri eigu. Skattkerfi landanna gagnvart raforkuiðnaðinum er aftur á móti afar ólíkt.
Hér verður fjallað um norska skattkerfið. Og útskýrt hvernig það m.a. hvetur til þess að orkuauðlindirnar séu nýttar með sem mesta arðsemi í huga og hvernig nærsamfélög virkjana – og nærsamfélög annarra mannvirkja sem tengjast orkuvinnslunni – njóta margvíslegra tekna af þessari starfsemi.
Nærsamfélög í Noregi njóta virkjana
Í Noregi, rétt eins og á Íslandi, er litið svo á að vatnsföllin séu auðlind sem háð er einkaeignarétti landeiganda (þetta er ólíkt því lagalega fyrirkomulagi sem ríkir víða á meginlandi Evrópu þar sem eignaréttur landeiganda nær sjaldnast til vatnsfalla né til auðlinda djúpt í jörðu). Í Noregi er að reyndar litið svo á að þrátt fyrir þennan ríka einkaeignarétt eigi öll þjóðin rétt á að njóta verulegs hluta arðsins og ábatansaf vatnsaflinu. Vatnsaflið er sem sagt að vissu leyti álitin sameiginleg auðlind þjóðarinnar, m.a. vegna þess að umtalsverðan hluta vatnsaflins er að rekja til þess vatns sem rennur ofan af hálendinu.
Umrætt sjónarmið birtist t.d. í norsku reglunni um hjemfall. Sem felst í því að sá sem fær að virkja vatnsfall í Noregi hefur eftir tiltekinn árafjölda þurft að afhenda ríkinu virkjunina endurgjaldslaust. Sjónarmiðið um að öll þjóðin eiga að njóta verulegs hluta ábatans og arðsins af nýtingu vatnsaflsins kemur einnig fram í því að norski vatnsaflsiðnaðurinn er skattlagður verulega (heildarskattprósentan nálgast það sem er í norska olíuiðnaðinum!).
Í Noregi er að auki rík áhersla lögð á að nærsamfélög virkjana og vatnsfalla eigi sérstaklega rúman rétt til að njóta arðs af þeim auðlindum. Aukin arðsemi í raforkuvinnslunni skapar sem sagt ekki aðeins orkufyrirtækjunum auknar tekjur og meiri hagnað, heldur er norska kerfið þannig upp byggt að sveitarfélögum (og fylkjum) á nærsvæðum virkjana er tryggð ákveðin hlutdeild í tekjunum. Þetta kerfi virkar bæði sem hvati til að nýta orkuna og að arðsemi sé í fyrirrúmi í raforkuvinnslunni. Íslenska lagaumhverfið um orkugeirann hér virðir aftur á móti hvatann um aukna arðsemi að vettugi.
Skattkerfið í norska roforkuiðnaðinum í hnotskurn
Skipta má skattareglunum sem fjalla um norska raforkuiðnaðinn í sjö hluta. Upphæðirnar sem þetta skattkerfi skilar til hins opinbera skiptist í tvo nokkuð jafna hluta. Um helmingur fer til ríkisins og um helmingur til sveitarfélaga og fylkja (fylkin eru millistjórnsýslustig; hvert fylki samanstendur venjulega af nokkrum sveitarfélögum). Hlutfallið þarna á milli er þó ekki fast, heldur er það breytilegt.
Skattkerfið er þannig hannað að það tryggi sveitarfélögum nokkuð jafnar skatttekjur af vatnsaflsiðnaðinum. Tekjur ríkisins af vatnsaflsiðnaðinum geta aftur á móti sveiflast verulega á milli ára. Þær sveiflur stafa fyrst og fremst af sveiflum í raforkuverði; í Noregi geta langvarandi þurrkar haft mikil áhrif á raforkuverðið því þar er lítið um afgangsorku og miðlun hlutfallslega minni en t.a.m. hér á landi).
Eins og áður sagði þá rennur u.þ.b. helmingur skattgreiðslnanna frá norska vatnsaflsiðnaðinum til sveitarfélaga (og fylkja). Þannig fá norsku sveitarfélögin til sín beinharða peninga sem þau geta nýtt til góðra verka og til að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Sveitarfélögin geta t.d. nýtt tekjurnar til að bæta þjónustu sína og/eða til að lækka skatta á íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins. Þannig ná þau að verða samkeppnishæfari og eftirsóttari en ella væri. Um leið nýtur norska ríkið góðs af fyrirkomulaginu, því verulegur hluti skatttekna af raforkuvinnslunni rennur til þess.
Í hnotskurn eru umæddir sjö skattar eftirfarandi: Í fyrsta lagi er innheimtur hefðbundinn tekjuskattur af raforkufyrirtækjunum (skattur af hagnaði) rétt eins við þekkjum á Íslandi. Í öðru lagi er lagður sérstakur tekjuskattur á fyrirtækin, sem er skattur á hagnað sem er umfram ákveðna viðmiðun. Í þessu sambandi er stundum talað um auðlindarentu (sem hér á landi rennur í reynd að mestu leyti til álfyrirtækjanna). Í þriðja lagi er lagður s.k. náttúruauðlindaskattur á raforkuvinnsluna í Noregi. Sá skattur er föst upphæð á hverja framleidda kWst. Í fjórða og fimmta lagi þurfa allar virkjanir að greiða sveitarfélögum árleg leyfisgjöldannars vegar og afhenda sveitarfélögum tiltekið magn af raforku á kostnaðarverðihins vegar (s.k. leyfistengd raforka). Í sjötta lagi geta norsk sveitarfélög ákveðið að leggja eignaskatt á virkjanamannvirki. Loks þurfa raforkufyrirtækin í vissum tilvikum að greiða auðlegðarskatt.
Hafa ber í huga að sérreglur gilda um norskar smávirkjanir. En meginreglurnar sem reifaðar eru hér eiga við um langstærstan hluta af norska vatnsaflsiðnaðinum. Og eins og áður sagði þá er sá iðnaður, rétt eins og íslenski raforkuiðnaðurinn, að langmestu leyti í eigu hins opinbera (í Noregi er það hlutfall um eða rétt yfir 90%). Eftirfarandi er stutt yfirlit um hvern skattanna í norska vatnsaflsiðnaðinum:
Tekjuskattur: Þetta er almennur fyrirtækjaskattur og hefur hann undanfarin ár numið 28% af hagnaði fyrirtækjanna. Upphæð tekjuskatts einstakra raforkufyrirtækja er mjög breytileg milli ára, því hagnaður fyrirtækjanna sveiflast verulega vegna mikilla sveiflna á raforkuverði (ræðst af úrkomu og fleiri atriðum). Tekjuskatturinn rennur alfarið til ríkisins.
Grunnrentuskattur (auðlindarenta): Margar norsku vatnsaflsvirkjananna skila afar miklum hagnaði sökum þess að raforkuverð hefur farið hækkandi og virkjanirnar eru margar upp greiddar og fjármagnskostnaður því lítill. Í Noregi er talið eðlilegt að skattleggja þennan mikla hagnað með aukaskatti. Grunnrentuskatturinn er sem sagt viðbótarskattur á hagnað. Hann nemur 30% og leggst eingöngu á tekjur (hagnað) sem skilgreindar eru sem umframhagnaður eða auðlindarenta (skv. sérstökum reglum þar um). Grunnrentuskatturinn er reiknaður af hverri virkjun fyrir sig og upphæð hans getur verið afar breytileg milli ára vegna sveiflna á raforkuverði. Grunnrentuskattur rennur til ríkisins (rétt eins og tekjuskatturinn). Miðað við núverandi raforkuverð á Íslandi yrði vart um nokkurn grunnrentuskatt að ræða (skattur af þessu tagi kæmi etv. frekar til greina í íslenska sjávarútveginum). En ef t.d. raforka yrði seld um sæstreng héðan til Bretlands myndi grunnrentuskattur geta skilað Íslandi gríðarlega háum upphæðum.
Náttúruauðlindaskattur: Þetta er sérstakur skattur sem reiknast á vatnsaflsvirkjanir í Noregi. Skatturinn nemur fastri upphæð á hverja framleidda kWst (lagareglurnar um náttúruauðlindaskattinn eru óháðar því hvert raforkuverðið er á hverjum tíma). Viðtakendur náttúruauðlindaskattsins eru nærsamfélög virkjana og virkjaðra vatnsfalla. Náttúruauðlindaskatturinn rennur þó ekki eingöngu til þess sveitarfélags og fylkis þar sem sjálft stöðvarhúsið er staðsett, heldur t.d. líka til annarra sveitarfélaga og fylkja sem vatnsfallið fellur um. Um 85% skattsins rennur til sveitarféaga og um 15% skattsins rennur til fylkja. Hafa ber í huga að reglurnar um norska náttúruauðlindaskattinn hafa áhrif á upphæð tekjuskattsins og eru með þeim hætti að skatturinn skapar ekki aukaálögur á raforkufyrirtækin. Skattur af þessu tagi kann að vera óheppilegur í umhverfi þar sem lítill hagnaður er af raforkuvinnslu.
Leyfisgjöld: Sá sem fær virkjunarleyfi í Noregi þarf að sæta því að greiða sérstakt gjald á ári hverju, s.k. leyfisgjald. Leyfisgjöldin eru föst upphæð af hverri framleiddri kWst. Gjaldið rennur að stærstum hluta til sveitarfélaga. Viðtakendur eru öll sveitarfélög á vatnasvæði virkjunarinnar. Hér á landi eru leyfisgjöld í formi afar lágrar eingreiðslu við útgáfu virkjunarleyfis og íslenska fyrirkomulagið því mjög frábrugðið norsku leyfisgjöldunum.
Leyfistengd raforka: Sá sem fær leyfi til að virkja vatnsfall í Noregi þarf að sæta því að afhenda sveitarfélögum sem liggja að viðkomandi vatnsfalli allt af 10% raforkunnar á kostnaðarverði (samsvarandi skilyrði gildir um afhendingu á 5% af raforkunni til ríkisins, en því hefur ekki verið beitt). Hér á landi myndi þetta þýða að sveitarfélög hér fengju nú um 1,75 TWst af raforku afhenta á ári á kostnaðarverði, sem þau gætu síðan selt áfram. Vegna lágs raforkuverðs hér yrði þetta þó ekki jafn mikil hagnaðarlind eins og hjá sveitarfélögum í Noregi. Þetta yrði aftur á móti afar mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin ef tækifæri væri til að selja raforku á hærra verði (t.d. til Bretlands gegnum sæstreng).
Eignaskattur (og auðlegðarskattur): Eignarskattur á virkjanir og dreifikerfi í Noregi getur numið 0,7% af verðmæti virkjunar / dreifikerfis. Sveitarfélög þurfa að taka sérstaka ákvörðun um að leggja skattinn á. Skatturinn er víða innheimtur vegna virkjana, en einungis í helmingi tilvika vegna dreifikerfa. Viðtakendur eignarskattsins geta verið öll þau sveitarfélög sem hafa virkjunarmannvirki /dreifikerfi innan lögsögunnar. Loks má geta þess að skv. norskum lögum geta raforkufyrirtæki þurft að greiða sérstakan auðlegðarskatt. Hann nemur 1,1% miðað við tiltekna eign umfram skuldir, en leggst ekki á hlutafélög og skiptir því litlu máli í norska vatnsaflsiðnaðinum.
Hér á Íslandi skortir hvata til aukinnar arðsemi
Ýmis atriði í norska skattkerfinu eru þess eðlis að nærsamfélög virkjana hagnast á því að raforkuverð sé sem hæst og alls ekki hagkvæmt að raforkan sé t.a.m. seld nálægt kostnaðarverði til stóriðju. Skattkerfið virkar sem sagt hvetjandi fyrir íbúa nærsamfélaga virkjana til að vandlega sé hugað að því að ekki sé léleg arðsemi af orkusölunni.
Í þessu norska kerfi er ekki bara litið til virkjananna sjálfra. Því reglurnar eru þannig úr garði gerðar að sveitarfélög sem hafa önnur mannvirki en sjálft stöðvarhúsið innan sinnar lögsögu njóta einnig skattgreiðslna.
Hér á Íslandi er kerfið aftur á móti þannig að litlir sem engir hvatar eru hjá nærsamfélögum virkjana til að arðsemi aukist í raforkuvinnslunni. Hér skiptir langmestu – og nær eingöngu – hvar sjálft stöðvarhús virkjunar rís. Nánast einu beinu skatttekjur sveitarfélaga hér af virkjunum eru fasteignaskattar af virkjuninni – og þeir hafa runnið óskiptir til þess sveitafélags sem hefur stöðvarhúsið innan sinna stjórnsýslumarka. Í þessu sambandi hefur engu máli skipt hvar uppistöðulón liggja, hvar aðrennslisskurðir liggja, hvar jarðgöng liggja, hvar stíflur liggja, né hvar háspennulínur liggja. Allt snýst um stöðvarhúsið, þ.e. í hvaða sveitarfélagi það er staðsett.
Í næstu færslu Orkubloggsins verður nánar fjallað um það hvernig fyrirkomulagið hér á Íslandi beinlínis vinnur gegn sjónarmiðum um að auka arðsemi í raforkuvinnslunni. Og hvernig það virðist hreinlega hafa læst okkur í óarðbærri stóriðjustefnunni.