Urriðaholt – Rannsóknarmiðstöð regnvatnslausna..
Maí 2018
Fyrsta umhverfisvottaða hverfið
Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Garðabær og Urriðaholt ehf. undirrituðu samstarfssamning um uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvarinnar nýverið. Miðstöðin verður vettvangur langtímavöktunar á veðurfari sem innifelur meðal annars þætti sem skipta sköpum í fráveituhönnun t.d. regn, hita, sólarorku og snjóalög.
Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, segir það mikilvægt fyrir Veðurstofuna að efla samvinnu við sveitarfélögin í landinu. „Með tilkomu veðurstöðvarinnar í Urriðaholti getum við bætt veðurþjónustu okkar fyrir höfuðborgarsvæðið. Samningurinn um uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvarinnar er mjög framsækið verkefni og skapar þekkingu sem er mikilvæg á heimsvísu, því vatnsbúskapur og hvernig við högum honum er ein mesta áskorun framtíðarinnar,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.
Blágrænum regnvatnslausnunum er beitt til að draga úr álagi á fráveitukerfi og viðhalda um leið heilbrigðum og sjálfbærum vatnsbúskap. Markmiðið er margþætt og felur m.a. í sér auðveldara og ódýrara viðhald fráveitukerfa, lengri líftíma þeirra og síðast en ekki síst ávinninginn sem felst í að hleypa vatni og gæðum þess aftur inn í hið byggða umhverfi á öruggan og markvissan hátt.
Þörfin fyrir blágrænar regnvatnslausnir, hérlendis jafnt sem erlendis, eykst hratt m.a. vegna áhrifa hnattrænnar hlýnunar. Þær auka seiglu bæja til að takast á við loftslagsbreytingar, hreinsa vötn, ár og læki, grænka borgir og auka líffræðilegan fjölbreytileika þeirra. Síðast en ekki síst þá sýnir reynslan að þær eru hagkvæmari en þær hefðbundnu, segir á vef Veðurstofunnar..
„Urriðaholt er fyrsta BREEAM umhverfisvottaða hverfið á Íslandi og fyrsta hverfið þar sem blágrænar regnvatnslausnir voru innleiddar sem aðallausn á ofanvatni til verndar Urriðavatni. Það er einnig fyrsta hverfið á heimsvísu þar sem blágrænar regnvatnslausnir hafa verið innleiddar á jafn norðlægri breiddargráðu og í jafn miklum landhalla. Hverfið þykir eftirbreytnivert, alþjóðlegt dæmi um farsæla innleiðingu þeirra og hefur þegar vakið athygli vegna þessa. Því þótti kjörið að nýta Urriðaholtið sem rannsóknarvettvang fyrir vísindalegar rannsóknir á blágrænum regnvatnslausnum og miðla niðurstöðum úr þeirri vinnu jafnt innan- sem utanlands.“