Heitt neysluvatn – Lækka hita í 60°C
Janúar 1999
Hvernig á að lækka hita á kranavatni?
Í húsnæði sem á eftir að byggja standa allar lausnir til boða, en því er ekki svo farið í þeim byggingum sem þegar hafa verið reistar og beinum við sjónum okkar að vandamálinu í þeim. Mikilvægara kann þó að vera að flokka byggingar eftir því hvaða starfsemi fer þar fram innandyra burt séð frá því hvort um nýja eða gamla byggingu er að ræða. Það er ekki sama hvort um er að ræða bílaverkstæði eða leikskóla, það skiptir máli hverjir það eru sem nota þrifatækin, hvort það eru fullorðnir og vonandi þroskaðir einstaklingar eða börn á leikskólaaldri.
Er æskilegt að lækka hitann við alla notkunarstaði? Það má færa fyrir því rök að svo sé ekki. Það er óþarfi að endurtaka rökin fyrir nauðsyn lækkunar hitastigs heita vatnsins við baðker og í sturtum, en er einhver þörf á því við eldhúsvask eða handlaug? Á því er engin nauðsyn, slysahætta af völdum heita vatnsins á þessum stöðum er hverfandi og vissulega er það jákvætt að geta skolað fituna af diskunum með 70 C heitu vatni eftir skötuátið. En lækkun hitans er sjálfsögð við þá notkunarstaði þar sem nauðsynin er óumdeild.
Önnur ástæða fyrir því að fara þessa leið er einnig mikilvæg, við megum aldrei gleyma því að vera á varðbergi gegn því að aðrir vankantar og jafnvel hættur kunna að koma í ljós þegar eitt vandamál er leyst. Hér er átt við bakteríugróður og hættuna af honum, ef hitinn er lækkaður í kerfinu í heild. Því má efalaust svara og segja að sú hætta verði ekki raunveruleg fyrr en hiti vatnsins er lækkaður niður í 50 C, en reynslan erlendis, t.d. í Svíþjóð, sýnir að þessi ófögnuður skýtur upp kollinum þó hitastigið sé svo hátt sem 60 C. Þetta hefur reynst hinn mesti vágestur á sjúkrahúsum í Svíþjóð og er fyrst og fremst hættulegur fólki, t.d. sjúklingum með veiklað ónæmiskerfi.
Margir fagmenn vísa þessari hættu á bug og því hefur verið haldið fram að „legionella“-bakterían, sem veldur hinni svokölluðu hermannaveiki, sé óþekkt hérlendis, en fyrir því eru sterkar vísbendingar að hún sé vandamál á a.m.k. tveimur sjúkrastofnunum hérlendis. Vanmetum ekki hættuna af hættulegum bakteríugróðri, sem kann að skapast við lækkun á hita kranavatns. Úr hvaða efni eru leiðslurnar? Í eldri byggingum má ekki gleyma að huga að leiðslunum, úr hvaða efni eru þær? Leiðslur sem hafa þolað ágætlega hitaveituvatn áratugum saman mundu kannski hrynja á fáum árum ef breytt yrði yfir í upphitað ferskvatn.
Við lækkun á kranavatni við inntak eru tvær leiðir færar: Hita upp ferskvatn í millihitara. Setja sjálfvirkan blandara við inntak. Minnt skal á að við erum enn að ræða um lausnir í eldri byggingum með sínum misjafnlega gömlu lögnum. Ef ekki á að leggja nýjar lagnir fyrir heitt neysluvatn í húsið er hægt í flestum tilfellum að segja að millihitari kemur ekki til greina. Það kemur til af því að í flestum tilfellum eru fyrirliggjandi lagnir úr því efni, sem þola ekki upphitað ferskvatn og satt best að segja hafa seljendur millihitara farið offari í sinni markaðsfærslu. Sjálfvirkur blandari við inntak er betri lausn á eldri kerfum en millihitari vegna þess að hlutfall ferska vatnsins er það lágt þegar vatnið er blandað niður frá 70-80 C í 60 C. Niðurstaða um lausn í eldri lagnakerfum: Æskilegast er að lækka hitann við notkunarstað, við baðker og sturtur, óþarfi að lækka hita við önnur tæki. Sjálfvirk blöndun við inntak getur skaðað lagnakerfið. Notkun millihitara kemur ekki til greina nema lagnakerfið innanhúss sé endurnýjað.