ACER (ESB) – Forræði orkuflutningsmála Íslands
Apríl 2018
Með samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB hefur þingið afhent ACER allt forræði orkuflutningsmála í landinu.
Í Lissabonsáttmálanum frá 2009 voru lögð drög að því, að orkumálin yrðu á meðal forgangsmála á sviði nánara samstarfs ESB ríkjanna, sem þýðir, að færa skyldi stjórnun orkumálanna smám saman frá aðildarlöndunum og til Framkvæmdastjórnarinnar.
Orkuflutningssviðið fyrir jarðgas og rafmagn varð fyrst fyrir valinu, og skyldi ryðja burt öllum hindrunum á vegi orkuflutninga á milli landa með því að setja á laggirnar Orkustofnun ESB – ACER. Framkvæmdastjórnin framseldi vald sitt yfir málaflokkinum til ACER. ESB ríkin eiga þar atkvæðisrétt, en EFTA ríkin í EES mundu einvörðungu fá rétt til áheyrnar við inngöngu í Orkusambandið. Þannig mundi ríkja ójafnræði með EFTA- og ESB-ríkjunum við ákvarðanatökur hjá ACER.
Forskrift að færslu valds yfir raforkuflutningsfyrirtækjunum er í tvennu lagi. Fyrst eru allar reglusetningarheimildir og eftirlitsstarfsemi með raforkuflutningum færðar til orkustofnunar viðkomandi ríkis. Síðan er orkustofnun þjóðríkisins, eða sá hluti hennar, sem fer með málefni orkuflutninga, færð undan stjórnvaldi viðkomandi þjóðríkis, þ.e. undan ráðuneyti, og undir stjórnvald ACER.
Hjá EFTA-ríkjunum gerist þetta við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, viðhengi 4, sem fjallar um orkumál, og upp á punt er ESA (eftirlitsstofnun EFTA) komið fyrir sem millilið í skipuritinu, en fær samt engar heimildir til sjálfstæðrar ákvarðanatöku um fyrirmælin, sem berast frá ACER til útibús hennar í viðkomandi ríki.
Þetta er tilraun til að draga dul á, að fjölþjóðleg stofnun, þar sem EFTA-ríkin eru ekki fullgildir aðilar, muni stjórna stofnun í þjóðríkinu, sem er ekki ríkisstofnun, en fer með völd í landinu yfir málaflokki, sem varðar hagsmuni allra lögaðila og heimila í landinu. Á Íslandi virðist slíkt vera klárt brot á 2. grein stjórnarskrárinnar.
Hlutverk ACER er að útrýma flöskuhálsum í flutningskerfum orku innan ESB, sem nú valda því til dæmis, að offramboð getur verið sums staðar á umhverfisvænni raforku, þótt skortur sé á henni annars staðar. Sú viðmiðunarregla ríkir hjá ACER, að bæta skuli raforkusamtengingar á milli svæða eða landa, ef verðmismunur þar á milli er meiri en 2,0 EUR/ MWh, sem á núverandi gengi eru tæplega 0,25 ISK/kWh.
Núna er þessi verðmunur allt að tífaldur á milli Íslands og ESB. Hjá ACER hefur verið tekið eftir þessu og upplýsingar um hreinar og endurnýjanlegar orkulindir Íslands eru þar væntanlega, því að stofnunin hefur þegar sett „Ice Link“, um 1200 MW aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands, á forgangslista um samtengingarverkefni, sem hún hyggst hafa forgöngu um og láta framkvæma með gangsetningu orkuflutninga árið 2027.
Eftir að þjóðþing hefur samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í lagasafn sitt, hefur þingið afhent ACER og EFTA/ESB dómstólunum allt forræði orkuflutningsmála í landinu, og stjórnvöld viðkomandi lands geta þá ekki stöðvað þá framvindu, sem ACER hefur ákveðið. Á Íslandi mundi ferlið verða þannig, að ESA framsendir fyrirmæli frá ACER til OS, sem gefur út reglugerðir fyrir Landsnet um uppbyggingu raforkuflutningskerfisins innanlands til að gera kleift að reka sæstrenginn áfallalaust fyrir íslenzka stofnkerfið.
Slíkt er dýrt, og allur sá kostnaður mun falla á raforkunotendur innanlands. Samtímis munu Landsnet og National Grid á Bretlandi hefja viðræður um sæstrengsverkefnið, og komist þau ekki að samkomulagi um kostnaðarskiptinguna, sker ACER úr um hana. Skuldaaukning Landsnets vegna alls þessa gæti hæglega hlaupið á hundruðum milljarða ISK.
Fréttaskýring reist á upplýsingum utanríkisráðuneytis Íslands
Þann 28. marz 2018 birtist í Viðskiptablaðinu fréttaskýring undir fyrirsögninni: „Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi“. Þar eru allmargar staðhæfingar settar fram, sem stangast algerlega á við þær staðreyndir, sem fram koma í inngangi þessa greinarstúfs.
Staðhæft er, að áhrifin af innleiðingu téðs orkubálks verði „mjög lítil hér á landi“. Vitað er, að Ísland hefur engum undanþágum náð í þessu máli í samningaþjarki við ESB. Hvers vegna ættu þá áhrifin að verða allt önnur og minni hérlendis en annars staðar? Þessi misskilningur á sennilega rætur að rekja til þeirrar túlkunar utanríkisráðuneytisins, „að upptaka þriðja orkupakkans hér á landi hefði engin áhrif á það, hvort farið verði í lagningu sæstrengs til Evrópu.“
Þetta er grundvallarmisskilningur, sbr innganginn. ACER var ekki stofnsett til að viðhalda óbreyttu ástandi, heldur til að breyta því, eins og lýst hefur verið, og ACER mun hafa sömu valdheimildir til þess á Íslandi og í ESB-löndunum. Í því felst stjórnarskrárbrot.
Sagt er, „að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér framsal á yfirráðum yfir íslenzkum orkulindum …“ Þetta er rangt, því að við gangsetningu sæstrengsins verður íslenzki raforkumarkaðurinn hluti af raforkumarkaði ESB/EES, sem þýðir, að hver sem er innan ESB getur boðið í tiltæka raforku á Íslandi. Þetta mun þýða, að ráðstöfunarréttur yfir raforkunni hverfur til ESB-orkumarkaðarins og raforkuverðið hér færist nær ESB-verði.
Það er rangt, að höfnun Alþingis á þriðja orkubálki ESB „gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar“. Hámarksviðbrögð ESB eru niður njörvuð í EES-samninginum. ESB má óska eftir í Sameiginlegu EES-nefndinni, að atriði í orkukafla EES-samningins verði felld úr gildi. Þar kemur helzt til álita Annar orkumarkaðslagabálkur ESB í viðauka 4.
Slíkt getur ekki skaðað EFTA-löndin, og þau munu áfram halda sínum viðskiptum við ESB-löndin með orku og annað, enda eru hagsmunir ESB ótvíræðir að halda viðskiptafrelsinu við EFTA löndin. Í Sameiginlegu EES-nefndinni eru ákvarðanir teknar einróma. Að halda því fram, að beiting neitunarvalds Alþingis muni hafa alvarlegar afleiðingar á EES-samstarfið er sama og að segja, að staða EFTA-ríkjanna sé sú sama gagnvart stjórnvöldum ESB og ESB-ríkjanna sjálfra, sem þá jafngildir ESB-aðild.