Neysluvatn er matvara – Setja þarf skýrari reglur

Heimild: 

 

Febrúar 2018

Neysluvatn er matvara

Svavar T. Óskarsson

Vegna umræðna um mengun neysluvatns á virkjunarsvæðum vatnsveitna á höfuðborgarsvæðinu og víða um land er ekki úr vegi að fara nokkrum orðum um lög og reglur varðandi neysluvatn, áhugasömum til upplýsinga.

Samkvæmt lögum og reglugerðum ber stjórnvöldum að ábyrgjast að mannvirkjagerð sé með þeim hætti að neytendum sé tryggt neysluvatn úr neysluvatnskerfum húsa. Í lögum um matvæli nr. 93/1995 er neysluvatn skilgreint sem matvara. Megintilgangur laganna er eins og segir:

1. gr. Tilgangur laganna er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi.

2. mgr. Neysluvatn: vatn, í upphaflegu ástandi eða eftir meðhöndlun, sem notað er til drykkjar, við matargerð og í matvælafyrirtækjum. Hitaveituvatn telst ekki neysluvatn. Heitt neysluvatn verður til við upphitun á köldu neysluvatni t.d. í gegnum varmaskipti.

Í tilskipun EB/EES nr. 98/83/EC sem var innleidd í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 536/2001 um [tiltekur gæði] neysluvatn segir í 6. gr.: Staður þar sem samræmis skal gætt við færibreytugildin [aðstæður] a) þegar um er að ræða vatn frá dreifikerfi, á þeim stað á athafnasvæði eða í starfsstöð þar sem vatnið kemur úr krönum sem eru venjulega notaðir fyrir neysluvatn.

Í sömu tilskipun sem tók gildi á Íslandi 2003 segir: 25) Ef stöðlum samkvæmt þessari tilskipun er ekki fylgt skal viðkomandi aðildarríki grafast fyrir um orsakir þess og tryggja að gripið verði til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta eins fljótt og unnt er til að færa gæði vatnsins í rétt horf. 26) Mikil­vægt er að koma í veg fyrir þann möguleika að mengað vatn geti valdið heilsutjóni. Banna skal dreifingu á slíku vatni eða takmarka notkun þess.

Þegar lög um vatnsveitur nr. 93/1995 voru sett urðu mikil umskipti í allri starfsemi vatnsveitna, þar sem nýjar reglur skilgreindu vatnsveitur sem matvælafyrirtæki.

Það er löngu tímabært að yfirvöld mannvirkjagerðar á Íslandi setji skýrari og ítarlegri reglur um starfsemi vatnsveitna og lagnabúnað neysluvatnskerfa í húsum, bæði hvað varðar nýlagnir og viðhald þeirra svo og að tryggja eftirfylgni með að þeim sé framfylgt. Þannig verður vatnsveitum og fagaðilum auðveldað að uppfylla ákvæði laga og reglna um neysluvatn og neytendum tryggt kalt og heitt neysluvatn sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru til vatnsins sem matvöru.

Höfundur er ráðgjafi hjá Orkuumsjón ehf.

 

Fleira áhugavert: