Lagnir fasteignakaup – Hverju þarf að huga að?

Heimild: 

 

Júní 1999

Skipta lagnirnar máli?

Tengd myndVið kaup á fasteign er hægt að hafa tvennt til viðmiðunar til að meta hita- og neysluvatnslagnir í viðkomandi eign. Annars vegar aldurinn og hins vegar hvaða efni er í lögnunum.

Það er fróðleg lesning að fá í hendur lýsingar á íbúðum eða húsum, sem eru í boði hjá fasteignasölum. Þar eru gefnar margar sjálfsagðar og nytsamlegar upplýsingar, stærð og staðsetning, aldur og auðvitað ástand fjármálanna, hve mikið á eigninni hvílir af skuldum.

Eflaust er þetta form, sem fasteignasalar nota, byggt á þeirra reynslu, á því hvað það er helst sem væntanlegur kaupandi vill vita. Þegar kemur að upplýsingum um lagnir og búnað þeim fylgjandi er ekki mikið um upplýsingar og það kemur líklega til af því að þetta er ekki, eða hefur ekki verið, áhugavert fyrir kaupendur.

Lagnir eru enda flestar huldar í þeim húsum, sem á markaði eru, svo það er ekki mikið vitað um ástand þeirra.

En það eru margar vísbendingar sem kaupendur geta farið eftir, þó þeir kalli ekki til sérfræðing til að taka út lagnakerfin.

Danfoss, er það ekki?

Sá reitur á upplýsingablaðinu, sem lýsir lögnum, inniheldur oft aðeins eitt orð, þar kann að standa „Danfoss“. Hvað segir þetta eina orð væntanlegum kaupanda, er það eitthvað sem hann getur byggt á?

Því miður harla lítið.

Stundum fá hugtök eða orð slíkt ofurvald í hugum manna, að ef það er nefnt er hætt að hugsa, málið er útrætt og þar með ekki orð um það meira. Sú var tíðin að ameríkanar kölluðu allar myndavélar kodak og allar jarðvinnuvélar caterpillar, svo mikill var máttur þessara tveggja risa á markaði. Þess vegna sjáum við þetta eina orð á upplýsingablaðinu „Danfoss“ og þá telja margir að málinu sé borgið.

Danska fyrirtækið Danfoss, sem nú er starfandi um allan heim, er eitthvert merkasta fyrirtækið á lagnasviði og óumdeildur frumkvöðull og framleiðsluvörur þess í sífelldri framþróun.

En þó varan heiti „Danfoss“ er hún ekki eilíf, það vita þeir best sem hana framleiða. Þess vegna má búast við því að sá sem er að kaupa eign sem er eldri en 20 ára, standi frammi fyrir því að þurfa að endurnýja alla ofnventlana hvort sem þeir heita Danfoss eða eitthvað annað.

Þar kemur tvennt til, í fyrsta lagi er líftími sjálfvirkra ofnventla varla meiri en 15 – 20 ár, eftir það fer nákvæmni þeirra að hraka. Í öðru lagi, ef þetta eru hinir upphaflegu sjálfstýrðu ofnventlar hvað sem þeir heita, þá er hönnun þeirra orðin úrelt, síðan þá hefur mikil framþróun orðið í gerð þeirra. Auk þess má búast við að þeir ventlar sem á kerfinu eru stýrist eingöngu af vatnshita, séu hinir margfrægu retúrkranar. Þess vegna segir það ekki nokkurn skapaðan hlut um hitastýringuna í húsinu þó að á upplýsingablaðinu standi „Danfoss“.

Aðrar vísbendingar

Myndaniðurstaða fyrir pipes in housesVið kaup á fasteign er hægt að hafa tvennt til viðmiðunar til að meta hita- og neysluvatnslagnir í viðkomandi eign, annarsvegar aldurinn og hins vegar hvaða efni er í lögnunum og þá koma ýmsar þversagnir í ljós. Búum til dæmi, segjum sem svo að til sölu sé parhús í Kópavogi byggt 1965. Í annarri íbúðinni eru hitalagnir úr svörtum snittuðum stálrörum, neysluvatnslagnir úr galvaniseruðum snittuðum stálrörum, á ofnum eru engir sjálfvirkir lokar, aðeins handvirkir lokar.

Í hinni íbúðinni eru allar lagnir, bæði í hitakerfi og neysluvatni, úr eirrörum en á öllum ofnum eru Danfoss kranar sem voru settir á þá í upphafi. Hvað er almennt hægt að segja um lagnir í þessum tveimur íbúðum? Það er augljóst að húsið hefur verið byggt úr góðri steypu á sinni tíð, engar alkalísprungur sjáanlegar. Því má búast við að svörtu stálrörin í hitalögninni séu í góðu lagi, því að ef enginn utanaðkomandi raki kemst að rörunum endast þau von úr viti þó þau séu inni í einangrun veggja, en þau liggja augljóslega hvergi í gólfraufum. Hvergi ber á ryðlit á kranavatni, galvaniseruðu rörin eru svo gömul að þau hafa myndað sér sína eigin varnarhúð að innan, svo þau geta átt langa lífdaga framundan.

Setja þarf sjálfvirka ofnventla á alla ofna og endurnýja þrýstijafnara. En það nákvæmlega sama þarf að gera í hinni íbúðinni, þó þar hafi verið auglýst „Danfoss kerfi“ sem vissulega er staðreynd, en því miður; lífdagar þessara Danfoss krana eru löngu liðnir, þeir koma ekki að neinu gagni framar, það verður að setja upp nýja.

En það eru eirrör bæði í hitakerfi og neysluvatnslögnum og þá er ástæða til að hringja aðvörunarbjöllum. Dómurinn er einfaldur; lagnirnar í hita- og neysluvatnskerfunum verður að endurnýja eins fljótt og unnt er, hver mánuður sem þær endast hér eftir er happdrættisvinningur.

Í þessu tilfelli er dæmt svörtu og galvaniseruðu rörunum í hag, en þar ræður miklu umbúnaður og aldur, að kerfin eru ekki yngri, mættu vera eldri án þess að vera talin lakari.

Eirlagnir á þessum stað og þessum aldri eru hins vegar algjör vonarpeningur.

ÞÖRF á viðhaldi húsa utanhúss er öllum augljóst, en hver hugsar um lagnirnar sem liggja í leyni?

Fleira áhugavert: