Nýr Skerjafjörður

Heimild:  

 

Október 2017

Greinargerð
Í nýju aðalskipulagi er sleginn takturinn fyrir uppbyggingu Reykjavíkurborgar næstu áratugina.  Þar kemur glögglega fram hvert við viljum stefna og hvaða meðul við ætlum að nota til að komast þangað.  Þetta eru þó ekki bara áherslur okkar Reykvíkinga, eða Íslendinga, heldur eru þetta áherslur sem þekktar eru víðast á Vesturlöndum.  Við þurfum að breyta um stefnu ef við viljum lifa af á jörðu okkar.  Hugtök eins og loftlagsbreytingar, mengun, sóun, umferðartafir og sjálfbærni verða okkur æ tamari í munni, en við eigum kannski erfiðara með að takast á við þau og finna lausnir.  Ekki nóg með það; við virðumst sjaldnast sammála um leiðirnar sem við þurfum að fara.

Nýr Skerjafjörður er að sumu leyti tímamótaverkefni.  Staðsetning hefur allt til að skipulag á þessu svæði geti verið leiðarljós fyrir þá uppbyggingu sem við sjáum fyrir okkur á næstu áratugum, á landi sem er eitt verðmætasta sem við borgarbúar höfum yfir að ráða. Við erum að brjóta nýtt land um leið og við þéttum og styrkjum byggðina sem fyrir er.

Hugmyndin
Rammaskipulag Graeme Massie hefur verið leiðarljós skipulags í Vatnsmýrinni um nokkurt skeið.  Það er að nokkru okkar fyrirmynd, en við viljum brjóta það upp og hverfa frá hornréttum samgönguæðum og strangri randbyggð.  Við viljum mýkri form, fjölbreyttari byggð og mildara yfirbragð. Við leggjum áherslu á blandaða byggð þó íbúðabyggð sé í forgangi eins og aðalskipulag
gerir ráð fyrir. Með hliðsjón af staðsetningu við vinsæla núverandi byggð í Skerjafirði gerum ráð fyrir að ný byggð sæki yfirbragð til þorpsins. Með aukinni byggð í Skerjafirði verður einingin sjálfbærari, nýr grunnskóli og önnur þjónusta fær möguleika á að vaxa og dafna.

Megin hugmyndin er reitaskipting þar sem á hverjum reit eru mismunandi byggingar í hæð og formi. Nálægð við ströndina gerir svæðið einstakt og nýtum við hana til að gefa byggðinni sérstöðu og sem tækifæri fyrir íbúa að njóta náttúru og frístunda nálægt heimili. Græna beltið sem liggur milli Reykjavíkurtjarnar og Skerjafjarðar opnar leið fyrir aðra íbúa borgarinnar að njóta þeirra gæða sem svæðið býður uppá.
Við erum meðvituð um að við erum að byggja á flugvallarsvæði og teljum æskilegt að sú starfsemi finni sé stað í nýrri byggð.  Hugsanlegt er að varðveita megi eitthvað af flugskýlum og koma upp vísi að flugsafni í Reykjavík.
Ákjósanlegt er að tengja svæðið við verkefnið Reykjavík um snjalla borg (e. Smart City) með því að setja upp mæla og upplýsingaskjái til þess að auka umhverfisvitund hjá borgarbúum.

Byggðin
Við leggjum áherslu á fjölbreytta borgarbyggð. Hún er blanda randbyggðar og húsa með garða að götum. Við sækjum fyrirmyndir víða í borgarmynd Reykjavíkur; Vesturborgina, Vogana og Þingholtin. Lögð er áhersla á greiðar almennar gönguleiðir um alla reiti. Gatnakefi er lagskipt, þannig að gerður er greinarmunur á borgargötum, götum með hægari umferð og vistgötum.  Gerum ráð fyrir að Einarsnes sé megin tenging inn á svæðið.  Borgargata sem tengist Einarsnesi fer um þéttasta svæði byggðarinnar með starfsemi og megin þjónustu. Bílastæði eru víða samsíða götum en flest eru þau neðanjarðar. Bæjartorgið er miðlægt með allri þeirri þjónustu sem þar er þörf fyrir.  Á torginu geta farið fram fjölbreyttir atburðir s.s. útimarkaður, útihátíðir, tónleikar ofl..

Græna beltið
Græn tenging frá Skerjafirði að Reykjavíkurtjörn er mikilvæg fyrir byggðina. Gerum ráð fyrir að yfirbragð beltisins verði sem náttúrulegast í anda Vatnsmýrarinnar, en tengist neti leikvalla og áhugaverðra staða til að ferðast um og njóta útivistar. Við   suðurenda  beltisins  er viðburðasvæði þar sem við gerum ráð fyrir fjölbreyttri félagastarfemi og uppákomum af ýmsu tagi.
Lóð grunn- og leikskóla tengist græna beltinu og þjónar sameinuðum hverfum með möguleikum til stækkunar þegar framhald verður á íbúðabyggð á flugvallarsvæðinu.

Ströndin
Ströndin er mikilvægt framhald metnaðarfullrar uppbyggingar í Nauthólsvík.  Við færum núverandi strandlínu fram til að vinna land.  Við hönnum nýja strönd á svipaðan hátt og fyrirhugað er í Elliðavogi svo hún verði sem náttúrulegust.  Við sjáum ströndina á þessum stað byggjast upp af þremur mikilvægum þáttum.  Í fyrsta lagi smábátahöfn sem ekki er til staðar í þessum
hluta borgarinnar. Í öðru lagi viðburðaströnd; strandhluti sem tengist viðburðasvæðinu og í þriðja lagi „náttúruleg“ strönd; strönd með yfirbragð náttúrufjarar með gróðri sem hugsanlega getur laðað að sér fuglalíf. Vonandi sjáum við háfætta fjörufugla eins og sandlóu og stelki taka sér bólfestu á svæðinu.

Umhverfismál
Stefnt er að því að styrkja gróður og opin almenningsrými á svæðinu.  Byggingar með grænum þökum, grænir veggir, gegndræpt yfirborð og þakgarðar efla vistkerfi á svæðinu um leið og slík hönnun er hluti af vistvænum ofanvatnslausnum. Græna beltið er miðdeilir ofanvatnslausna en græna slóðin innan byggðar þjónar einnig því  hlutverki.

Aðstaða fyrir úrgang á svæðinu miðar að góðu aðgengi bæði íbúa og rekstaraðila að úrgangsílátum og að á hverjum stað verði aðstaða fyrir flokkun í allt að fimm úrgangsflokka. Úrgangi frá íbúum verður safnað í djúpgáma, sem verður komið fyrir á svæðum innan lóða sem eru í góðri tengingu við megin leiðir frá húsum og bjóða upp á trygga og örugga aðkomu sorphirðubíla til tæmingar.

Samgöngur
Vistvænum samgöngum er gert hátt undir höfði á skipulagssvæðinu til að gera íbúum svæðisins kleift komast ferða sinna án einkabíls.
Ný göngu-, hjóla- og almenningssamgöngubrú yfir Fossvoginn mun bæta vistvænar samgöngur. Gert er ráð fyrir að borgarlínan fari um brúna
og í gegnum Vatnsmýrarsvæðið á leið sinni að miðstöð almenningssamgangna við Hringbraut og þjóni þar með skipulagssvæðinu og báðum háskólunum. Á meðan flugvöllurinn er í rekstri munu hverfisstrætóar aka um brúna og annars vegar tengja skipulagssvæðið við Kársnesið, Háskóla Íslands og miðbæinn og hinsvegar Háskólann í Reykjavík við Kársnesið og Hamraborg í Kópavogi.
Tveir aðal samgöngustígar verða í Vatnsmýrinni. Annar þeirra liggur suður-norður um miðja Vatnsmýri og tengir samgöngustíga Hringbrautar við strandstíg og nýja brú yfir Fossvog. Hinn liggur austur-vestur um Vatnsmýrina tengir byggð í eystri hluta borgarinnar og Háskólann í Reykjavík við Háskóla Íslands og Vesturborgina.

Tölulegar upplýsingar-áfangaskipti
Svæðið sem er undir í þessari tillögu er um 190.000 m² að stærð. Tillagan gerir ráð fyrir um 160.000 m²  byggingarmagni en húshæðir eru að jafnaði tvær til fimm hæðir. Við gerum ráð fyrir um 1.400 íbúðum (miðað við 100 m² á íbúð) og um 20.000 m² atvinnu- og þjónustuhúsnæðis. Nýtingarhlutfall skipulagssvæðisins er um 0,85.
Reitir skipulags einfalda áfangaskiptingu.

Fleira áhugavert: