Saga Ungverjalands – Erlend stjórn, endurreisn..

Heimild: 

 

Nóvember 2017

Ungverjaland: Mikil saga – óljós stefna

Saga ríkja Mið- og Austur-Evrópu er saga endalausra innrása, undirokunar og hernáms. Þessi lönd hafa í gegnum tíðina verið í miðju fólksflutninga og endurtekið orðið fyrir barði innrásaherja að austan og vestan. Saga Ungverjalands er engin undantekning frá þessu en þjóðflokkur Magjara er talin hafa hreiðrað um sig á þessum stað fyrir ríflega 1000 árum. Hestafólk af gresjunum í austri og sjálfsagt á flótta undan einhverjum öðrum þjóðflokkum á reiki. Víða í Búdapest má sjá styttur og lágmyndir af mönnum á hestbaki sem vísa til þessarar fortíðar. Þó í tíma sé landnám Magjara ekki fjarri því íslenska þá er ljóst að saga þjóðanna hefur verið ólík. Ungverjar máttu þola yfirráð og hersetu annarra í gegnum aldirnar og saga og menning landsins ber þess augljós merki.

Ungverjar kalla sjálfa sig Magjara en uppruni þeirra er rakin til svæða þar sem Evrópu og Asía mætast eða í Úralfjöllum. Þeir fluttu sig svo suður og vestur á bóginn á fjórðu og fimmtu öld eftir Krist, og settust að við norðanvert Kaspíahafið. Þeir tóku kristni um líkt leyti og Íslendingar og hafa náð að þreyja þorrann á ungversku sléttunni þó oft hafi það verið undir erlendum yfirráðum.

Innlendir og erlendir konungar réðu Ungverjalandi framan af öldum en í sögu landsins má sjá merki þess að reynt var beisla yfirvaldið. Aðeins sjö árum eftir að Magna Carta-sáttmálin var samþykktur í Bretlandi 1215 setti Gullinskráin svonefnda konungi Ungverjalands skorður um meðferð valds hans og veittu aðlinum jafnvel heimild til að óhlýðnast honum ef hann fór ekki að lögum.20171028_171442

Erlend stjórn

Ottómanveldið náði yfirráðum yfir Ungverjalandi á fyrrihluta 16. aldar en þegar veldi þeirra dvínaði tók Habsborgaraveldið við og miðja þess var Vínarborg. Austurrísk-ungverska keisaradæmið (formlegt heiti á þýsku: Die im Reichsrat vertretenen Königreiche und Länder und die Länder der heiligen ungarischen Stephanskrone) var konungssambandsríki í Mið-Evrópu frá 1867 til 1918, myndað af Austurríska keisaradæminu og Ungverska konungdæminu. Morðið á ríkiserfingjanum, Franz Ferdinand, kom fyrri heimsstyrjöldinni af stað en hún markaði endalok ríkisins. Eftir styrjöldina skiptist Austurrísk-ungverska keisaradæmið á milli ríkjanna Austurríkis, Ungverjalands, Tékkóslóvakíu, Póllands, Slóveníu, Króata og Serba en þessi þrjú síðasttöldu ríki urðu síðar hluti Júgóslavíu.

En þó að sjálfstæði hafi verið fengið þá biðu þjóðarinnar miklar hörmungar. Kommúnískur ævintýramaður, Bela Kun, náði völdum eftir stutt stjórnunartímabil Mihály Károlyi og hóf stríðsrekstur gegn nágranaþjóðunum meðal annars út á væntingar um landavinninga og hugðist færa landamærin að því sem þau voru fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Þessi áform snérust í höndum hans og landið varð að láta af hendi stór landsvæði. Heima fyrir var upplausn og bófasveitir kommúnista, eins og „Lenín-bræðurnir”, sáu um að elta uppi andbyltingarsinna. Stjórnleysi ríkti og pólitískar aftökur tíðar en að lokum neyddist Kun til þess að flýja til Sovétríkjanna. Næstu árin voru áfram erfið ungversku þjóðinni og á árabilinu 1920 til 1960 er talið að um 600.000 Ungverjar hafi látið lífið, stór hluti þeirra gyðingar og aðrir minnihlutahópar. Í flestum tilfellum fórnarlömb nasista.

Endurreisn Búdapest

Búdapest í dag er mikil borg en þar búa um 1,8 milljón manna, tæplega 20% af þjóðinni. Dóná skiptir borginni í tvennt og borgarhlutarnir heita Búda og Pest en borgirnar sameinuðust á 19. öld. Dóná er rækilega brúuð innan borgarmarkanna og nokkrar af brúm hennar þekktar í byggingasögunni eins og Drottningarbrúin og Keðjubrúin. Búdapest fór illa út úr seinni heimsstyrjöldinni. Varð að þola langt umsátur þegar þýskar hersveitir vörðust rússneska hernum þar í nokkra mánuði. Um 80% borgarinnar skemmdist illa í átökunum en Ungverjar börðust framan af við hlið Þjóðverja. Það er í raun merkilegt að sjá hvernig borgin hefur risið úr rústunum en enn má þó finna niðurnídd hús, hugsanlega arfleif yfirráð kommúnista þar sem sameignin tók yfir séreignina sem var ekki heppilegt fyrir viðhaldið. Þess má reyndar geta að í kommúnistaríkjum Austur-Evrópu byggðist lögfræði á ákveðinni þekkingu á refsirétti og marxísk fræði voru talin nauðsynlegur grunnur fyrir alla lögfræðinga. Hugtök eins og eignarrétt varð því að endurvekja þegar járntjaldið féll.

Búdapest minnir um sumt á París þegar kemur að byggingastíl. Art Nouveau byggingar eru áberandi en einnig má finna þar fjölbreytilega blöndu byggingastíls, frá austri og vestri.20171028_171914

Járntjaldið fellur

Kommúnistar réðu öllu í Ungverjalandi eftir heimsstyrjöldina og landið var hluti af áhrifasvæði Sovétríkjanna, meðal annars með þátttöku í Varsjá-bandalaginu. Árið 1956 reis ungverska þjóðin upp gegn ofurvaldi kommúnista en uppreisnin var barin niður eftir blóðuga bardaga á götum Búdapest. Mikil fjöldi Ungverja flúði land og sumir komu alla leið til Íslands og auðguðu menningu og mannlíf hér.

Þegar kom fram á níunda áratug síðustu aldar réðst kommúnistaflokkur Ungverjalands í nokkrar umbætur í stjórnmálum og fjöldamótmæli neyddu hann til að ganga lengra. Í maí 1989 opnuðu Ungverjar sinn hluta járntjaldsins og leyfðu fólki að flýja til vesturs. Í október samþykkti ungverska þingið lög um lýðræðislegar kosningar. Þar eð mörg þúsund Austur-Þjóðverjar höfðu flúið til Vesturlanda í gegnum Ungverjaland lokuðu ráðamenn í Austur-Þýskalandi öllum landamærum sínum. Æ fleiri Austur-Þjóðverjar urðu fangar í eigin landi og sífellt fleiri mótmæltu. Þannig má segja að járntjaldið hafi rifnað í Ungverjalandi og landið snéri sér í vesturátt. Uppreisnum ársins 1989 hefur verið lýst þannig: „Pólland – 10 ár; Ungverjaland – 10 mánuðir; Austur-Þýskaland – 10 vikur; Rúmenía – 10 klukkustundir“. Ráðstjórnarríkin voru síðan leyst upp í desember árið 1991 og fjórtán ríki í ríkjasambandinu lýstu yfir sjálfstæði.

Órólega deildin innan ESB

Ungverjar gengu í  Nató 1999 og urðu eitt af 10 nýjum ríkjum Evrópusambandsins í stækkuninni stóru 2004. Ungverjar notast við eigin gjaldmiðil, forintuna, og afrekuðu rétt eins og Íslendingar að taka mikið af íbúðalánum í erlendri mynt, að mestu evru, fyrir bankahrunið 2008. Af því sköpuðust miklir erfiðleikar.

Óhætt er að segja að pólitísk þróun í Ungverjalandi síðustu ár sé ekki eins og ESB ætlaði.  Viktor Orban komst til valda 2010 og hefur hann reynt á stjórnskipun landsins og þolinmæði Brusselveldisins. Þessa þróun má reyndar sjá í öðrum fyrrum Habsborgararíkjum, svo sem Austurríki og Tékklandi. Þetta hefur verið órólega deildin innan ESB og Orban talar gjarnan um að lýðræði í Ungverjalandi verði að fá að þróast á eigin forsendum. Það styrkir kannski ekki trúna á að það sé skynsamleg leið að hann hefur meðal annars takmarkað völd fjölmiðla og eftirlitsstofnana.

Fleira áhugavert: