Raforkuverð & Samningar álveranna
Júlí 2015
Raforkuverðið til álveranna
Í þessari grein er að finna upplýsingar um raforkuverð Landsvirkjunar til álveranna þriggja hér á Íslandi árin 2005-2014. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:
- Lægst er raforkuverðið til Norðuráls (Century Aluminum). Verðið til Fjarðaáls (Alcoa) er aðeins hærra en til Norðuráls.
- Hæst er raforkuverðið til álversins í Straumsvík (Rio Tinto Alcan; RTA). Ástæða þess er nýr raforkusamningur sem var gerður 2010. Sá samningur er ólíkur hinum orkusamningunum við álfyrirtækin hér, því í nýja samningnum við Straumsvík er raforkuverðið ekki tengt álverði heldur bandarískri neysluvísitölu.
- Mjög lágt raforkuverð til Norðuráls (Century Aluminum) og Fjarðaáls (Alcoa) veldur því að meðalverð raforku til álvera á Íslandi er með því allra lægsta í heiminum.
- Raforkuverðið til Straumsvíkur (RTA) er líka fremur hógvært. Og er t.d. talsvert mikið lægra en meðalverð raforku til álvera í Bandaríkjunum og er álíka eins og meðalverð á raforku til álvera í Afríku.
Lágt verð til Fjarðaáls, en Norðurál er með lægsta verðið
Grafið hér fyrir neðan sýnir meðalverð Landsvirkjunar á raforku til hvers og eins álveranna á tímabilinu 2005-2014. Á grafinu er í öllum tilvikum sýnt meðalverð yfir hvert ár. Öll raforkuverð sem þarna eru sýnd og fjallað er um í þessari grein eru með flutningi.
Álverin eru þrjú; rauði liturinn er raforkuverðið til álvers Norðuráls á Grundartanga (Century Aluminum), græni liturinn er raforkuverðið til álversins í Straumsvík (Rio Tinto Alcan; RTA) og ljósblái liturinn er verðið til álvers Fjarðaáls á Reyðarfirði (Alcoa).
Eins og sjá má á grafinu greiðir álverið í Straumsvík hæsta raforkuverðið, sem nú nálgast að vera um 35 USD/MWst. Árið 2014 greiddi Straumsvík verð sem var tæplega 45% hærra en orkuverðið sem Fjarðaál greiddi og nálægt 60% hærra verð en álver Norðuráls á Grundartanga greiddi.
Meðalverð Landsvirkjunar á hverri seldri MWst til álvera á Íslandi þetta sama ár (2014) var rétt rúmlega 26 USD. Sambærilegt verð til álvera í Afríku það ár var um 30% hærra og sambærilegt verð til álvera í Bandaríkjunum og Evrópu var um 45% hærra.
Framan af áttu allir orkusamningar Landsvirkjunar vegna álveranna það sammerkt að raforkuverðið var tengt álverði. Þess vegna hefur raforkuverðið til álveranna hér oft sveiflast mjög mikið, þ.e. þegar miklar sveiflur hafa orðið á álverði á álmarkaði London Metal Exchange (LME).
Tenging raforkuverðs við álverð dregur úr áhættu álfyrirtækjanna af verðsveiflum (vegna þess hversu raforkukaupin eru stórt hlutfall af rekstrarútgjöldum álvera). Aftur á móti eykur slík verðtenging áhættu orkufyrirtækja. Umrædd verðtenging raforkuverðsins við álverð á LME kemur t.d. mjög skýrt fram á grafinu á á tímabilinu 2008-2010. Einnig er vert að vekja athygli á því að árin 2006-08 var álverð fádæma hátt og þess vegna var raforkuverðið til álveranna líka óvenjulega hátt á því tímabili.
Meðalverð til álvera í Afríku er talsvert mikið hærra en meðalverðið hér á landi
Á grafinu er einnig sýnt meðalverð á raforku til álvera 2014 á tveimur svæðum sem eðlilegast og skynsamlegast kann að vera að Ísland eða íslensk raforkufyrirtæki miði sig við þegar samið er um raforkusölu til álveranna hér á landi. Þ.e. hafi hliðsjón af því hvert raforkuverð er til álvera í Bandaríkjunum (blá súla) og í Evrópu (grá súla). Eins og sjá má er meðalverðið á raforku til álvera bæði í Bandaríkjunum og Evrópu miklu hærra en hér á landi.
Þarna á grafinu er líka sýnt meðalverðið 2014 til álvera í Afríku (svört súla). Sem er áhugaverð viðmiðun. Eins og sjá má er meðalverð raforku til álvera í Afríku talsvert mikið hærra en umrætt meðalverð hér á landi (meðalverð Landsvirkjunar). Þetta er athyglisvert, því pólitísk og þar með rekstrarleg áhætta vegna álversfjárfestinga er vafalítið almennt mun meiri í Afríkuríkjum en er hér á landi.
Þess vegna mætti búast við því að Afríkuríki þyrftu að verðleggja raforkuna ennþá lægra en Ísland til að draga til sín fjárfestingu álframleiðslufyrirtækja. Á móti kemur að vinnuaflið þar syðra er töluvert ódýrara en hér. Það hlýtur þó að teljast eðlilegt að meðalverð á raforku til álvera á Íslandi verði til framtíðar a.m.k. ekki lægra en er til álvera í Afríku.
Alcoa fékk hagstæðan samning 2003
Það eru tvær meginskýringar á því hversu meðalverð á raforku til álvera á Íslandi er ennþá lágt í alþjóðlegum samanburði. Stærsta skýringin er risasamningurinn sem gerður var við Alcoa (Fjarðaál) árið 2003. Þar var samið um verð sem var töluvert langt undir meðalverði á raforku til álvera á þeim tíma.
Hin skýringin á umræddu lágu meðalverði hér er sú að raforkusamningar við Century Aluminum (Norðurál) draga meðalverðið hér líka niður (samningur Landsvirkjunar við Century er tvískiptur og er annars vegar frá 1997 og hins vegar frá 1999, en að auki eru HS Orka og OR/ON að selja raforku til Century). Eins og áður sagði, þá nýtur Norðurál (Century) lægsta raforkuverðsins af álverunum hér. Það eru sem sagt einkum raforkusamningarnir við þessi tvö álfyrirtæki, Alcoa og Century, sem draga meðalverðið hér ansið langt niður.
Það er athyglisvert að samningur Landsvirkjunar við Alcoa hljóðaði upp á svo til sama raforkuverð eins og kveðið er á um í samningi Landsvirkjunar við Century 1997/1999 – að teknu tilliti til breytinga á bandarískri neysluvísitölu (CPI). Þegar litið er til annarra orkusamninga sem gerðir voru við ný álver upp úr aldamótunum sést að þessi samningur Alcoa frá 2003 er fyrirtækinu óvenju hagstæður. Og mögulega tryggir hann að Alcoa sé þarna með í sínum höndum einhverja eftirsóttustu framleiðslueininguna í álbransanum öllum.
Kaflaskil með nýjum samningi Landsvirkjunar og Rio Tinto Alcan árið 2010
Árið 2010 urðu mikilvæg kaflaskil í raforkuviðskiptum Landsvirkjunar við áliðnaðinn. Því það ár gerði Landsvirkjun, undir forystu nýs forstjóra, nýjan raforkusamning við RTA vegna álversins í Straumsvík. Sá samningur fól í sér mikla verðhækkun frá því sem var.
Grafið hér til hliðar er hið sama og að ofan, en hér er sérstaklega búið að setja inn merkingu til að vekja athygli á verðbreytingunni til Straumsvíkur (sbr. grænu súlurnar). Örin sem þarna er sýnd hefur ekki sérstaka þýðingu aðra en þá að vekja athygli á því hversu verðið til RTA hækkaði á umræddu 2ja ára tímabili. Og fór úr því að vera lægst af álverunum hér á landi yfir í það að vera hæst.
Með nýja samningnum 2010 hækkaði ekki aðeins sjálft raforkuverðið til RTA, heldur er verðið í þessum nýja samningi Landsvirkjunar við RTA vegna Straumsvíkur ekki tengt álverði heldur bundið bandarískri neysluvísitölu. Þess vegna hefur verðið þar ekki sigið niður á við, sbr. græna súlan 2011-14, heldur stigið jafnt og þétt upp á við, þrátt fyrir að álverð sé nú lægra en það var þegar samningurinn var gerður 2010.
Þessi nýi samningur hefur dregið mjög úr áhættu Landsvirkjunar og haft afar jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins. Það er athyglisvert að áður en forstjóraskipti urðu hjá Landsvirkjun um áramótin 2009/2010, hafði staðið til að nýi raforkusamningurinn við RTA yrði bundinn við álverð. Efnahags- og bankahrunið 2008 tafði fyrir því að lokið yrði við að staðfesta þau samningsdrög. Og niðurstaðan varð svo sem sagt allt öðruvísi samningur; samningur sem er miklu jákvæðari fyrir Landsvirkjun en ella hefði verið.
Mögulega lýkur senn raforkuviðskiptum Landsvirkjunar og Norðuráls
Samningurinn frá 2010 við RTA vegna Straumsvíkur var mikið gæfuspor fyrir Landsvirkjun og þar með Íslendinga alla. Bæði var grunnverðið sem þar var samið um mjög viðunandi og dregið úr áhættu Landsvirkjunar með því að álverðstenging var tekin út.
Hér til hliðar er sama grafið birt í þriðja sinn og nú með sérstökum áherslum sem snúa að orkusamningi Landsvirkjunar við Century Aluminum vegna álvers Norðuráls í Hvalfirði. Eins og sjá má er Norðurál (rauðu súlurnar) nú að greiða lægsta raforkuverðið; miklu lægra en Straumsvík (grænu súlurnar) og aðeins lægra en Fjarðaál á Reyðarfirði (ljósbláu súlurnar).
Fyrir liggja upplýsingar um að umræddur raforkusamningur Landsvirkjunar og Century (Norðuráls) renni út árið 2019. Og framlengist ekki nema fyrirtækin nái samningum þar um. Haft var eftir Michael Bless, forstjóra Century, í tengslum við uppgjör fyrirtækisins vegna fyrsta ársfjórðungs þessa árs (2015), að viðræður um áframhaldandi raforkuviðskipti fyrirtækjanna séu byrjaðar.
Þar er væntanlega útilokað að Landsvirkjun veiti Norðurál betri kjör en Straumsvík. Þess vegna mun annað tveggja gerast; að viðskiptum Landsvirkjunar og Norðuráls ljúki eða að nýr raforkusamningur verði gerður sem hljóða muni upp á miklu hærra orkuverð en núverandi samningur. Þriðji möguleikinn er svo kannski sá að fyrirtækin semji um sérstakan skammtímasamning þar sem verðið yrði kannski afar hógvært en að Landsvirkjun geti selt orkuna annað eftir fáein ár. Slíkur samningur gæti t.d. verið skynsamlegur fyrir Landsvirkjun til að eiga auðveldara með að selja raforku um sæstreng milli Íslands og Evrópu þegar hann yrði eða verður tilbúinn.
Augljós rök fyrir því að verðið til Norðuráls fari í u.þ.b. 35 USD/MWst eða rúmlega það – ef raforkuviðskipti halda áfram milli fyrirtækjanna
Inn á grafið hér næst að ofan er sérstaklega merkt hvaða hækkun má telja eðlilega og sanngjarna á raforkuverði Landsvirkjunar til Norðuráls ef samið verður um áframhaldandi viðskipti til lengri tíma. Ljósrauða súlan sýnir sem sagt þá eðlilegu verðhækkun; ef slík hækkun væri komin til framkvæmda. Til samanburðar er sett þarna inn sama örin (e.k. vektor) með nákvæmlega sömu lengd og hallatölu eins og sjá má vegna verðhækkunarinnar til Straumsvíkur. Örin þarna sýnir vel að umrædd verðhækkun til Norðuráls yrði á svipuðum nótum eins og verðhækkunin var til Straumsvíkur.
Þetta segir okkur að ef raforkuverðið í nýjum samningi við Norðurál myndi verða um eða rúmlega 35 USD/MWst, væri það einungis ámóta hækkun eins og átti sér stað með samningi Landsvirkjunar og Straumsvíkur 2010. Vissulega yrði þetta mikil hlutfallsleg hækkun frá því botnverði sem Norðurál hefur lengi notið. En slík hækkun á rafrokuverði til Norðuráls væri augljóslega bæði sanngjörn og eðlileg. Nema að hækkunin ætti að verða ennþá meiri, því hlutfallslega skilar þessi tillaga að verðhækkun í reynd eilítið minni verðhækkun en var í tilviki Straumsvíkur (RTA).
Þar að auki er mikilvægt að hafa í huga að Straumsvíkursamningurinn fól ekki bara í sér endurnýjun á raforkuviðskiptum, heldur var þar einnig samið um aukin orkukaup (vegna þá fyrirhugaðrar stækkunar í Straumsvík). Í slíku tilviki kann að vera eðlilegt að verðhækkun á raforku í heildarsamningi verði eitthvað minni en ella (vegna nýfjárfestingarinnar). Það eru því skýr rök til þess að verðhækkun til Norðuráls ætti að fela í sér að raforkuverðið þar yrði a.m.k. jafnhátt en jafnvel nokkru hærra en er til Straumsvíkur. Þess vegna má segja að u.þ.b. 35 USD/MWst sé einungis algert lágmarksverð í nýjum samningi við Norðurál – og að rök séu til þess að verðið verði jafnvel eitthvað hærra en sú upphæð.
Meðalverðið á raforku til álvera á Íslandi er með því lægsta i heimi
Það er vel að merkja svo að þrátt fyrir þessa tillögu að umræddri verðhækkun vegna raforkusölu til Norðuráls (að verðið færi í um 35 USD/MWst að núvirði eða rúmlega það) yrði raforkuverðið til Norðuráls áfram afar hóflegt í alþjóðlegum samanburði. Og það þrátt fyrir að hlutfallslega væri þetta veruleg verðhækkun (þ.e. miðað við núverandi botnverð sem Norðurál ennþá nýtur). Nýja verðið myndi ekki ekki einu sinni ná því meðalverði sem álver greiða í Bandaríkjunum og Evrópu.
Þess vegna er vel mögulegt að Landsvirkjun telji að orkuverðið í nýjum samningi við Norðurál ætti að vera töluvert hærra en það verð sem ég hef hér nefnt. Hver niðurstaðan verður mun skýrast í yfirstandandi viðræðum fyrirtækjanna.
Eins og lesendum Orkubloggsins ætti að vera kunnugt um, þá brást Norðurál ókvæða við þegar ég benti nýverið á lágt raforkuverð til álvera á Íslandi. Þau hörðu viðbrögð voru kannski fljótfærni eða klaufaskapur af fyrirtækinu – því gagnrýni framkvæmdastjóra fyrirtækisins á mín skrif var sannkallað vindhögg. Eins og lesa má um í grein minni, Erlent stórfyrirtæki í feluleik með raforkuverð, í Kjarnanum.
En kannski voru þessi viðbrögð Norðuráls til marks um að fyrirtækið ætli að grípa til ýmissa ómálefnalegra og jafnvel óþrifalegra aðferða. Í því skyni að reyna að viðhalda því botnverði sem Century Aluminum hefur notið hér á Íslandi fram til þessa. Með því að beita rangfærslum og margskonar þrýstingi á almenning og stjórnvöld. Allt til þess að fá sérmeðferð og sérstakar ívilnanir af hálfu íslenskra stjórnvalda og íslenskra skattborgara – til að fyrirtækið geti áfram notið fáheyrðs botnverðs.
Grafið hér næst fyrir ofan sýnir meðalverð til álvera á nokkrum svæðum og löndum í heiminum 2014 (þetta er graf sem ég hef áður birt). Grafið sýnir líka meðalverð Landsvirkjunar til álvera þetta sama ár. Hafa má í huga að meðalverð á raforku frá öllum raforkufyrirtækjunum til álvera hér á Íslandi er örugglega nokkru lægra en meðalverð Landsvirkjunar. Því vafalítið er raforkuverð ON/OR og HS Orku til álveranna (þau selja raforku til Norðuráls) lægra en meðalverð Landsvirkjunar.
Ástæða þessa er sú að Landsvirkjun hífir meðalverð sitt vel upp með nýja samningnum við Straumsvík. Þess vegna er meðalverðið á Íslandi til álvera örugglega nokkuð lægra en meðalverð Landsvirkjunar (sennilega var meðalverðið yfir heildina hér til álvera nálægt 25 USD/MWst með flutningi árið 2014). Og hvað svo sem því líður, þá er meðalverð Landsvirkjunar á raforku til álvera með því allra lægsta í heiminum. Eins og vel sést á umræddu grafi hér að ofan.
Hagsmunaaðilar áliðnaðar á Íslandi dreifa röngum upplýsingum
Fyrr í sumar báru Ágúst Hafberg hjá Norðuráli og Pétur Blöndal hjá Samáli fram rangar upplýsingar um meðalverð raforku til álvera á Íslandi. Þar sem þeir sögðu verðið vera um 29-30 USD/MWst vegna 2014. Í því sambandi vitnuðu þeir til upplýsinga frá CRU Group, sem bersýnilega voru rangar og augljóst að raunverðið er talsvert mikið lægra. Þær upplýsingar CRU voru reyndar svo rangar að þeim Ágústi og Pétri hefði átt að vera það augljóst. Þess vegna má væntanlega álykta sem svo að tilgangur þeirra hafi beinlínis verið að villa um fyrir fólki – nema ástæðan hafi verið nokkuð óvænt vanþekking þeirra á íslenska raforkumarkaðnum.
Það var sérstaklega hlálegt að það skyldi vera framkvæmdastjóri hjá Norðuráli sem byrjaði að bera umrædda þvælu á borð landsmanna (sbr. grein Ágústs Hafberg sem birtist á Kjarnanum). Því Norðurál er einmitt það álfyrirtækjanna sem er að greiða lægsta raforkuverðið hér. Verð sem er langt undir rétta meðalverðinu og óralangt undir meðalverðinu sem Ágúst hélt fram. Engum ætti að vera betur ljóst en framkvæmdastjóra hjá Norðuráli að það meðalverð sem hann vitnaði til frá CRU hlyti að vera rangt – þ.e.a.s. alltof hátt – og að í reynd sé meðalverðið hér miklu lægra. Ég hef áður útskýrt þetta og óþarfi að endurtaka þær útskýringar nánar hér.
Meðalverðið verður áfram lágt í alþjóðlegu samhengi
Það er athyglisvert að jafnvel þó svo raforkuverð til Norðuráls myndi hækka í u.þ.b. eða rúmlega 35 USD/MWst yrði meðalverð á raforku til álvera á Íslandi ennþá afar lágt í alþjóðlegu samhengi. Sem er einkum vegna þess hversu samningurinn við Alcoa vegna Fjarðaáls dregur meðalverðið hér mikið niður. En einnig vegna þess að verð upp á um 35 USD/MWst í endurnýjuðum raforkusamningi við álver Norðuráls væri nokkuð hógvært verð.
Grafið hér að neðan sýnir meðalverðið eins og það var árið 2014 – að því frátöldu að rauða súlan sýnir meðalverðið frá Landsvirkjun til álvera að teknu tilliti til þess ef raforkuverð Landsvirkjunar til Norðuráls væri um 35 USD/MWst. Þetta er sem sagt sama grafið og hér næst að ofan, nema hvað hér hefur verðið til Norðuráls verið hækkað í um 35 USD/MWst.
Slíkri verðhækkun til Norðuráls mætti augljóslega lýsa sem hóflegri og eðlilegri hækkun, en mikilvægu skrefi til aukinnar arðsemi Landsvirkjunar. Umrædd hækkun myndi duga til að Landsvirkjun skriði yfir meðalverðið til álvera í Rússlandi (eins og það var 2014.
Það ár var orkuverðið til rússneskra álvera reyndar óvenju lágt í dollurum vegna gengisfalls rúblunnar (flest álverin í Rússlandi eru með orkusamninga í rúblum). En ofar í tröppurnar myndi Landsvirkjun sem sagt ekki ná í bili, þrátt fyrir að þarna væri um að ræða hlutfallslega mikla (og eðlilega) verðhækkun til Norðuráls. Það er því algerlega augljóst að það er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við það að raforkuverðið til Norðuráls hækki í eða jafnvel nokkuð yfir 35 USD/MWst.
Hækkun til járnblendiverksmiðju Elkem (en þar er samningur líka að renna út 2019) myndi svo að auki bæta arðsemi Landsvirkjunar eilítið meira. Stóra skrefið kemur svo löngu síðar, þegar raforkusamningur Landsvirkjunar við Fjarðaál á Reyðarfirði (Alcoa) rennur út. Alcoa-menn geta því væntanlega haldið áfram að fara hlæjandi bankann, vegna Fjarðaáls, allt fram til 2048.
Nákvæmar upplýsingar – lítil vikmörk
Upplýsingar sem koma fram í þessari grein um raforkuverðið til álveranna byggja á fjölmörgum gögnum úr ólíkum áttum. Þar má nefna ársskýrslur og ársreikninga viðkomandi fyrirtækja, álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og skýrslur erlendra greiningar- og ráðgjafarfyrirtækja. Sum þessara gagna eru opinber, en önnur ekki.
Í sumum tilvikum byggi ég á skýrslum sem líklega voru aldrei ætlaðar til opinberrar birtingar. Því þær eru sumar kyrfilega merktar sem trúnaðarmál. En eru engu að síður aðgengilegar hverjum þeim sem leitar eftir þeim. Samanburður á öllum þessum gögnum sýnir mjög gott samræmi, sem bendir til þess að þær ályktanir sem ég hef dregið um raforkuverðið séu ekki bara góð nálgun við hið raunverulega samningsverð, heldur afar nákvæmar.
Ofangreind framsetning mín á tölunum er gerð með svipuðum eða sambærilegum hætti eins og sjá má gert hjá ýmsum greiningafyrirtækjum, sem sérhæfa sig í orkumörkuðum, þegar þau birta upplýsingar um orkuverð eða greiningu á orkumörkuðum á opinberum vettvangi. Slík fyrirtæki birta almennt ekki slíkar niðurstöður sínar opinberlega, heldur einungis í trúnaðargögnum til viðskiptavina sinna (sumir viðskiptavinir rjúfa reyndar stundum slíkan trúnað, eins og t.d. þeir Ágúst Hafberg og Pétur Blöndal gerðu með því að birta nýverið upplýsingar úr skýrslum sem Norðurál og Samál kaupa af CRU).
Með sama hætti álít ég að nákvæmari birting á tölunum á opinberum vettvangi sé ástæðulaus. En ég er að sjálfsögðu með ennþá nákvæmari tölur í mínum eigin gögnum (tölur um raforkuverðið til hvers álfyrirtækis hér á hverju ári upp á dollar og cent). Framsetningin hér er sem sagt að yfirlögðu ráði gerð í samræmi við það sem algengast er hjá greiningarfyrirtækjum og með þeim hætti að lesendur skulu gera ráð fyrir að vikmörk séu um 5%.
Niðurstaðan er engu að síður augljós; þær upplýsingar sem eru birtar hér sýna vel hvernig raforkuverðið til álveranna hér hefur þróast undanfarin ár. Og sýna einnig verðmuninn til álveranna innbyrðis og hvernig verðið er í samanburði við önnur lönd eða svæði. Þá álít ég að upplýsingarnar sýni fólki að Norðurál getur með engum hætti vænst þess að fyrirtækið fái nýjan raforkusamning nema orkuverðið þar yrði um eða rúmlega 35 USD/MWst á núvirði.
Óvissa vegna 2019
Að lokum er vert að vekja athygli lesenda á eftirfarandi. Nýlega var bent á það í grein í Kjarnanum á að ef Norðurál vinni málaferlin vegna orkusamnings við HS Orku, um gildi og túlkun raforkusamnings vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík, hyggist fyrirtækið mögulega nota þá orku á Grundartanga. Þetta er sennilega hárrétt ábending hjá Kjarnanum. Sem sýnir að mikil óvissa er um ráðstöfun raforkunnar sem Landsvirkjun er nú að selja til Norðuráls (skv. samningnum sem gildir til 2019).
Með hliðsjón af þessu er líklega skynsamlegast fyrir Landsvirkjun að einbeita sér nú að því að finna sem fyrst annan kaupanda að þeirri orku sem Norðurál er nú að kaupa (sem nemur um 1.400.000-1.500.000 MWst árlega). Þ.e.a.s. ef Century Aluminum dregur lappirnar með að semja um raforkukaup á þeim nótum sem ég hef lýst hér. HS Orka virðist sig hvergi geta hrært vegna deilunnar við Norðurál. Við getum ekki látið Norðurál/Century komast upp með að ná ámóta taki á Landsvirkjun – með því að samningaviðræður þar dragist á langinn.
Ef ekki sér brátt til lands í viðræðum Landsvirkjunar og Norðuráls er eðlilegt að umrædd orka verði seld öðrum; öðrum sem er tilbúinn til að greiða viðunandi og eðlilegt verð. Ef svo fer geta stjórnendur Norðuráls ekki kennt neinum um nema sjálfum sér. Og starfsfólk hjá Norðuráli, sem kann að missa vinnu sína vegna framleiðslusamdráttar í álverinu á Grundartanga á komandi árum vegna yfirvofandi raforkuskorts, ætti að vera meðvitað um stöðuna. Og eftir atvikum þrýsta á framkvæmdastjórn fyrirtækisins að landa raforkusamningi sem fyrst. Eðlilegum og sanngjörnum samningi þar sem orkuverðið verði um eða rúmlega 35 USD/MWst.