„Made in Iceland“ – Milljarða hagnaður?

Heimild:  

 

Mars 2014

Image result for made in icelandÞjóðarbúið hagnast um tugi milljarða árlega ef allur fólksbílafloti Íslands verður rafbílavæddur. Ágóðinn er gríðarlegur fyrir einstaklinga, stjórnvöld og umhverfið og skapar mikla möguleika fyrir ímynd landsins. Þetta er niðurstaða rannsóknar meistaranema í MBA við Háskólann í Reykjavík.

Í rannsókninni var miðað við að allur fólksbílaflotinn yrði rafvæddur. Fólksbílar á Íslandi eru rúmlega tvö hunruð og ellefu þúsund og meðalakstur er tólf þúsund sex hundruð og fimmtíu kílómetrar á ári. Til að einfalda samanburðinn var miðað við Tesla S rafbíl og Toyota Corolla bensínbíl. Gert var ráð fyrir að afskriftir, viðhald og slíkt væri eins fyrir báðar tegundir og í rekstrarkostnað því aðeins tekin orkunotkun og bifreiðagjöld sem eru mismunandi. Miðað við það er árlegur rekstrarkostnaður á rafmagnsbílinn fimmtíu þúsund krónur á ári. Tvö hundruð og fjörutíu þúsund fyrir bensínbílinn. Miðað við allan bílaflotann er rekstrarkostnaður á rafmagnsbíla tíu milljarðar króna en fimm sinnum meiri á bensínflotann eða fimmtíu milljarðar. Sparnaðurinn fjörutíu milljarðar á ári, samkvæmt niðurstöðum lokaverkefnis sem nemendur í meistaranámi í MBA í Háskólanum í Reykjavík hafa unnið að í vetur.

Þjóðarbúið hagnast

Ríkissjóður yrði af verulegum tekjum ef allir fólksbílar yrðu rafvæddir. Hann fær nærri tuttugu og þrjá milljarða í skatttekjur af eldsneyti á fólksbíla en fengi aðeins tvo milljarða í virðisauka af rafmagni á fólksbílaflotann. Þessar tekjur eru hugsaðar til að halda uppi samgöngukerfi landsins. Til að bæta ríkissjóði upp þetta tekjutap upp á tuttugu milljarða væri einfaldast að setja kílómetragjald upp á sjö krónur og áttatíu aura. Þar með fengi ríkissjóður óskertar tekjur en þjóðarbúið hagnaðist samt gríðarlega. Sextán milljarðar af gjaldeyri fara árlega í eldsneytiskaup á fólksbíla. Sú gjaldeyrisbrennsla yrði úr sögunni. Gengi krónunnar yrði stöðugra, verðbólga minni og stöðugri og líklega gæti Ísland selt mengunarkvóta á alþjóðlegum mörkuðum eftir rafbílavæðingu landsins. Erlendar skuldir minnka og efnahagur landsins yrði mun stöðugri.

Hverfandi mengun

Umhverfisáhrif þessara breytinga yrðu umtalsverð. Koltvísýringslosun bensínbíls er ríflega tvö tonn á ári en rafbíllinn losar engan koltvísýring í akstri. Árlega losar bensínflotinn því fjögur hundruð og fimmtíu þúsund tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið eða sem nemur einu stóru álveri. Rafbílarnir ekki neitt. Rafhlöður í rafmagnsbíla eru að vísu mengandi en eru víðsfjarri því að vega þennan mun upp. Reyndar sýna rannsóknir að framleiðsla á þessum rafhlöðum hér á landi er afar hagkvæm og umhverfisvæn í samanburði við framleiðslu annars staðar. Rafbílavæðing bílaflotans þýðir að það yrði leikur einn fyrir íslensk stjórnvöld að standa við Kyoto samþykktina. Raforkukerfið yrði miklu betur nýtt, enda hlaða langflestir rafmagnsbíla á nóttinni þegar álagið er minnst. Hljóðmengun minnkar verulega, enda eru rafbílar hljóðlausir. Og fiskimiðin yrðu miklu öruggari, þegar stórlega dregur úr skipaferðum með fullfermi að mengandi eldsneyti.

„Made in Iceland“

Ef allur fólksbílaflotinn á Íslandi yrði rafvæddur yrði það einstakt í veröldinni og skapaði feikilega möguleika fyrir ímynd landsins. Slagorðið í rafbílavæðingunni gæti verið að gera Ísland grænna með hverjum kílómetra. Leiða má að því líkum að ferðaþjónusta blómstri með þessu umhverfisvæna átaki. Ísland yrði fyrirmynd í umhverfismálum og vænlegur vettvangur fyrir ráðstefnuhald og alþjóðlega samvinnu. Ísland yrði táknmynd sjálfbærni í heiminum og fyrirmynd annarra þjóða. Útflutningur á íslenskum vörum gæti blómstrað og vörumerkið „Made in Iceland“ yrði líklega eitt verðmætasta vörumerki heims.

 

Fleira áhugavert: