Sjávarfallaorka – 320 MW Túrbínuhlið

Heimild:  

 

Nóvember 2015

UK-Tidal-Energy-Swansea-1

Smella á myndir til að stækka

Á Íslandi er um helmingur allrar raforkunnar seld tveimur álfyrirtækjum á verði sem nú er á bilinu 10-15 USD/MWst. Í Bretlandi er verið að undirbúa ámóta magn af raforkuframleiðslu þar sem orkuverðið til raforkufyrirtækisins verður allt að 255 USD/MWst. Mismunurinn á íslenska og breska raforkuverðinu í þessu tilviki er því u.þ.b. tuttugufaldur.

Breska orkuverkefnið sem þarna er vísað til eru nokkrar sjávarfallavirkjanir sem eru fyrirhugaðar við vesturströnd Englands og Wales. Þarna er óvenju mikill munur á flóði og fjöru og geysileg orka í sjávarföllunum.

Áætlað er að fyrsta virkjunin þarna verði á slóðum Gylfa Sigurðssonar, þ.e. í flóanum utan við Swansea. Uppsett afl þessarar einstöku sjávarfallavirkjunar á að verða 320 MW. Áætlað er að fleiri svona virkjanir fylgi í kjölfarið og að samtals verði þarna virkjuð þúsundir megavatta. Og að heildarkostnaður þeirra verði um 12 milljarðar punda!

Verkefnið þarna við Swansea felst í því að byggja e.k. varnargarð í boga út í flóann og hleypa sjónum um túrbínuhlið í þessum varnargarði eða stíflu. Áætlað er að nýta bæði straum flóðs og fjöru til raforkuframleiðslu, þ.a. alls verða almennt fjórar toppar í raforkuframleiðslunni á hverjum sólarhring.

Vegna eðlis sjávarfalla verður raforkuframleiðslan yfir sólarhringinn ekki jöfn og stendur einungis yfir í um 14 klst á sólarhring. Þess vegna munu umrædd 320 MW einungis skila ársframleiðslu upp á um 400-500 GWst. Til samanburðar er athyglisvert að það er nokkuð minni raforka en Búðarhálsvirkjun skilar, sem þó er einungis 95 MW.

UK-Tidal-Energy-Swansea-3Þessi breska sjávarfallavirkjun verður sem sagt mjög dýr aðferð til raforkuframleiðslu. Og þess vegna verður ekki af verkefninu nema bresk stjórnvöld tryggi orkufyrirtækinu mjög hátt lágmarksverðfyrir raforkuna. Nú ert gert ráð fyrir að þetta verð nemi 168 bresk pundum fyrir hverja megavattstund (168 GBP/MWst). Sem á núverandi gengi jafngildir um 255 USD. Til samanburðar er áhugavert – eins og áður sagði – að þetta er um tuttugufalt hærra verð en tvö stærstu álfyrirtækin hér (þ.e. Norðurál og Fjarðaál) eru greiða fyrir íslensku raforkuna um þessar mundir.

Bresk stjórnvöld hafa verið mjög jákvæð gagnvart þessu verkefni. Ennþá er þó óljóst hvenær nákvæmlega framkvæmdir hefjast. Heildarkostnaðurinn við virkjunina er áætlaður um einn milljarður punda (um einn og hálfur milljarður USD). Enn og aftur er áhugavert að bera þetta saman við íslenskar virkjanir; Búðarhálsstöð kostaði einungis um 1/6 af því sem sjávarfallavirkjunin við Swansea mun kosta. Samt framleiðir Búðarhálsstöð ámóta eða jafnvel meiri raforku en sjávarfallavirkjunin mun gera.

UK-Tidal-Energy-Swansea-2

Horfur eru á að það verði kínverskt verkfræðifyrirtæki sem muni koma að framkvæmd fyrsta verkhlutans og byggja varnargarðinn. Ennþá er tímaáætlunin þó í nokkurri óvissu, því tafir hafa orðið á því að framkvæmdir geti byrjað. Mörgum Bretum hefur blöskrað kostnaðurinn þarna og einnig hefur verið ágreiningur um umhverfisáhrifin.

Eins og staðan er núna er þess þó vænst að framkvæmdirnar hefjist vorið 2017. En i ljósi kostnaðarins ætti að blasa við að bresk stjórnvöld ættu að vera jákvæð gagnvart raforku frá Íslandi á verði sem gæti verið á bilinu 80-140 USD/MWst og á bilinu 120-180 USD/MWst komin á ljóshraða með sæstreng til Bretlands. Íslenska raforkan gæti sem sagt verið allt að helmingi ódýrara fyrir Breta en orkan frá sjávarföllunum bresku. Sem fyrir Íslendinga myndi þýða um tífalt hærra verð en fæst fyrir um helming raforkunnar sem hér er nú framleidd og seld til tveggja álvera. Í þessu ljósi kemur varla á ávart að nú hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að fara í viðræður við Breta um slík möguleg raforkukaup.

Fleira áhugavert: