Sjálfkeyrandi bíla á vegum innan skamms?

Heimild:  

 

September 2017

Sigurður Már Jónsson

Hve líklegt er að við sjáum sjálfkeyrandi bíla á vegum innan skamms? Auðvitað er erfitt að segja um slíkt en ljóst er að gríðarlega margir aðilar verja nú háum fjárhæðum í að þróa slíka bíla og búnað fyrir þá. Í nýja Model 3 bílnum frá Tesla er hægt að fá sjálfkeyrandi búnað en hann er hins vegar hvergi leyfður. Því er kannski ekki mikil skynsemi í því að greiða 14 þúsund dollara aukalega fyrir búnað sem ekki er unnt að nota. Eigi að síður ákvað Tesla að bjóða upp á búnað til að styðja sjálfkeyrandi akstur sem valkost en hugbúnaður fylgir ekki. Að baki þessari ákvörðun liggur stefnumarkandi ákvörðun af hálfu Tesla um að bjóða upp á slíkan búnað í bílum sínum fari svo að það verði á annað borð leyft að notast við sjálfkeyrandi bíla. Búnaðurinn felst í myndavélum sem nema allt umhverfi bílsins og geta þannig stutt við sjálfkeyrandi stjórntæki séu þau á leyfð. Tesla fullyrðir að í dag sé þessi búnaður öruggari en mannlegur ökumaður en leyfi skortir.

Á sama tíma eru ýmsir aðrir að undirbúa komu sjálfkeyrandi bíla og hafa til dæmis yfirvöld í Eistlandi ákveðið að þróa ný umferðarmannvirki með það í huga að sjálfkeyrandi bílar haldi innreið sína.

Margir vinna að þróun og hönnun sjálfkeyrandi bíla

Augljóslega metur Tesla það svo að tími sjálfkeyrandi bíla renni upp fyrr en síðar og Elon Musk hefur sagt að þeir geti verið tilbúinn til umfangsmikilla tilrauna á næsta ári. Vitað er að margir fást nú við að hanna og þróa búnað og bíla sem geta keyrt án ökumanns. Til­raun­ir Google, Tesla og fleiri framleiðenda með sjálf­keyr­andi bíla hafa gefið góða raun og reikna margir með að slík­ir bíl­ar verði komn­ir á al­menn­an markað eft­ir örfá ár (eftir 5 til 10 ár segja Tesla-menn) eins og var meðal annars vakin athygli á í grein Þórarins Hjaltasonar í Morgunblaðinu fyrir skömmu en hann er menntaður umferðaverkfræðingur. sjálfkeyrandiÞórarinn varpaði fram sjónarmiðum sínum í tengslum við umræðu um borg­ar­lín­u og þá gríðarlegu fjárfestingu sem henni fylgir. Það er ljóst að yfirvöld hér á landi verða að skoða slíkar fjárfestingar í tengslum við tæknibreytingar eins og Eistar eru að gera. Að sjálfsögðu er illmögulegt að segja hvenær þær skella á og sá er þetta skrifar minnist þess að hafa prófað bíla fyrir meira en 10 árum sem gátu lagt sjálfir í stæði. Þrátt fyrri að slíkur búnaður sé nú í nokkrum bílum þá er hann ekki orðin almennur ennþá. Þetta er sagt til að minna á að hraði breytinga er oft mjög ófyrirsjáanlegur.

Sjálfsagt varða margar hindranir á þróunarbraut sjálfkeyrandi bíla. Mörgum lagalegum og siðferðilegum spurningum þarf að svara áður en þeir verða leyfðir í venjulegri umferð og því eðlilegt að fjárfestingar taki mið af því. Nú berast fréttir af því að Apple hafi setti til hliðar áform sín um að smíða Apple-bílinn en einbeiti sér þess í stað að búnaði fyrir slíka bíla, bæði hug- og vélbúnaði. Fyrirtækið hyggst þannig vinna með öðrum bílaframleiðendum að því að þróa sjálfkeyrandi bíla. Sjálfsagt er einhverjum bílaframleiðendum létt þar sem Apple virtist á tímabili vilja hasla sér völl á þessu sviði en fjárfestingageta þeirra er meiri en flestra bílaframleiðenda. Á sama tíma hefur Ford ákveðið að ráðast í miklar fjárfestingar á þessu sviði. Á vegum Mercedes Benz hefur einnig verið unnin mikil þróunarvinna, svo fáein dæmi séu nefnd.

Leigubílarnir fyrstir?

Líklega mun til­koma sjálf­keyr­andi leigu­bíla og annarra þjónustubíla skipta mestu máli í upphafi. Uber, Lyft og fleiri alþjóðleg leigu­bíla­fyr­ir­tæki kepp­ast við að verða fyrst með slíka bíla á markaðinn. Ef samakst­ur í sjálf­keyr­andi leigu­bíl­um verður vin­sæll þá mun það vænt­an­lega leiða til um­tals­verðrar minnk­un­ar á bíla­eign og um­ferðar­magni en talið er að á hverjum tíma séu um 5% bíla á akstri eða í notkun. Þórarinn bendir á að sjálf­keyr­andi leigu­bíl­ar gætu veitt strætó harða sam­keppni, þar eð þeir aka beint frá dyr­um að áfangastað og verða sam­keppn­is­fær­ir í verði, ef nokkr­ir farþegar deila með sér kostnaði. Þessi ferðamáti myndi vera sér­lega hent­ug­ur fyr­ir ferðir til og frá vinnu. Áskrift að slík­um ferðum myndi lækka verðið enn frek­ar.

Af þessu leiðir að vel má sjá fyrir sér þróun sem leiðir til þess að fólk pantar sér bíl í gegnum snjallforrit, rétt eins og þegar pantaður er Uber-leigubíll í dag. Þá getur fólk valið hvort það vill deila bíl og vera lengur á leiðinni og borga minna eða vera fljótara á ferðinni og borga meira. Með því að „besta” leiðina má spara mikla fjármuni og tryggja að ferðin sé eins stutt og unnt er. Líklegt verður að telja að rafmagnsbílar henti best í slíka hluti og hleðslu þeirra stýrt þannig að þeir nýtist sem best.

Þó að margt bendi til þess að sjálfkeyrandi búnaður sé handan við hornið er augljóst að margt getur tafið fyrir. Öryggismál eru þar að sjálfsögðu fyrirferðamest en í maí síðastliðnum lést ökumaður í sjálfkeyrandi Tesla bifreið þegar búnaði bílsins mistókst að greina á milli aðvífandi vörubíls og annarra umhverfisþátta. Að því leyti segja sérfræðingar að búnaður bílsins sé meira í ætt við þróaðan skriðstilli (e. cruise control) en sjálfkeyrandi búnað byggðan á gervigreind. Ef svo er þá erum við komnir skemmra á veg en margir halda. Rétt er þó að hafa í huga að í 99% tilvika í dag eru umferðaslys vegna mannlegra mistaka þannig að sjálfkeyrandi búnaður ætti að geta haft þar gríðarleg áhrif í framtíðinni.

Fleira áhugavert: