Berbrjósta í sund – Reglugerðarbrot?
September 2017
Ekki hefur verið reynt á það fyrir kærunefnd jafnréttismála eða fyrir dómstólum hvort heimild sé til að setja reglur sem skylda konur að hylja geirvörur sínar í sundi. Þetta kemur fram í svari Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar Pírata um kynjamismunun.
Hann segir jafnframt ólíklegt að lagalegur grundvöllur sé fyrir því að sveitarfélög setji sundlaugargestum skorður varðandi klæðaburð eftir kyni.
Jón Þór spyr hvort stofnunum og opinberum fyrirtækjum sé heimilt að setja reglur um klæðaburð fólks, til dæmis um að konur séu í kjól og karlar í jakkafötum eða að konur séu með huldar geirvörtur í sundi en karlar ekki.
„Atvinnurekendum er heimilt að setja reglur, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, um klæðaburð starfsfólks svo framarlega sem reglurnar fela ekki í sér brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglunni um jafna meðferð karla og kvenna á vinnumarkaði, sbr. lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla,“ segir í svarinu.
Þar kemur einnig fram að ekki sé fjallað sérstaklega um klæðaburð sundlaugargesta í reglum en við það miðað að allir sundlaugargestir þurfi að klæðast viðurkenndum sundfatnaði.
Ráðherra bætir við að ekkert ákvæði sé í almennum hegningarlögum eða lögreglulögum sem bannar beint nekt á almannafæri. Í 209. grein hegningarlaganna sé samt að finna bann við því að særa blygðunarkennd manna með lostugu athæfi og í lögreglusamþykktum margra sveitarfélaga sé að finna ákvæði sem feli í sér bann við ósæmilegri háttsemi eða hegðun og getur nekt á almannafæri fallið þar undir. „Það verður að teljast ólíklegt að kona sem kýs að vera berbrjósta í sundi félli undir þessi ákvæði,“ svarar hann.
„Ólíklegt verður að teljast að lagalegur grundvöllur sé fyrir því að sveitarfélög setji sundlaugargestum skorður varðandi klæðaburð eftir kyni. Ekki verður séð að slíkar reglur væri unnt að réttlæta á málefnalegan hátt og leiða má að því líkur að slíkar reglur feli í sér mismunun á grundvelli kyns sbr. 1. mgr. 24. gr. jafnréttislaga og væru í andstöðu við jafnræðisreglu Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.“
Tengt eftirfarandi grein:
Dó úr standpínu við að sjá kvenmannsbrjóst?