Náttúrulaugar – Gerla og bakteríumengun..
„Fyrir tuttugu árum eða jafnvel fyrir tíu árum var þetta ekki vandamál. Það fóru fáir í þessar laugar og það var einsleitur hópur og ekki verið að bera með sér neinar skæðar bakteríur. Hins vegar hefur öldin verið nokkuð önnur undafarin ár,“ segir Jón Reynir Sigurvinsson, formaður Heilbrigðisnefndar Vestfjarða, í samtali við mbl.is vegna gerla- og bakteríumengunar í náttúrulaugum landsins. Aðsókn hafi aukist mjög í laugarnar, ekki síst vegna vaxandi ferðamannastraums. Áður hafi laugarnar hreinsað sig sjálfar.
„Við erum með tvenns konar laugar. Við erum með laugar sem haldið er utan um og sveitarfélög eða aðrir reka á sína ábyrgð. Eru með leyfi frá heilbrigðiseftirliti og öðrum aðilum þar sem allt á að vera í samræmi við lög og reglugerðir. Þær eru hreinsaðar og eftirlit með þeim og ef eitthvað er ekki í lagi er gripið inn í. Síðan eru það þessar manngerðu laugar úti í náttúrunni. Þær eru nær allar úti og hver sem er getur í raun farið í þær. Eignarhaldið er stundum óljóst og alls enginn ábyrgur,“ segir hann ennfremur.
Ekkert í raun hægt að gera komi kvörtun
Eðli málsins samkvæmt fari í náttúrulaugarnar alls konar bakteríur og gerlar og sumt sé mjög óæskilegt. Bent hefur verið á að óhreinsað baðvatn geti aukið mjög líkurnar á slímhimnu-, maga- og húðsýkingum. „Þetta hefur valdið okkur sem sinnum heilbrigðiseftirliti á öllu landinu nokkrum vandræðum. Komi eitthvað upp á kemur kvörtun til okkar en við getum í raun ekkert gert. Á að loka þessu? Hvernig þá?,“ segir Jón Reynir. Þó ekki sé vitað um að fólk hafi orðið fyrir skaða af því að fara í laugarnar þurfi að skoða málið.
Þannig séu náttúrulaugarnar í raun á gráu svæði. Vakin var athygli á því í fundargerð Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða frá 25. ágúst, sem var send til allra sveitarfélaga á Vestfjörðum, að dæmi séu um að sýni úr slíkum baðstöðum hafi sýnt yfir 200 þúsund gerla í desilítra. Hámark sé eitt þúsund í desilítranum en helst ekki meira en 500. Sjálfur sé hann á því að það væri æskilegt að vara fólk við því að fara í laugarnar. Fólk viti að minnsta kosti hvað það feli í sér en það telji annars væntanlega óhætt að fara í þær.
Færi sjálfur ekki í náttúrulaugar í dag
„Til þess þarf auðvitað eitthvað fjármagn og ekki hefur Heilbrigðiseftirlitið tök á því og tekur hvorki ákvarðanir í þeim efnum né ber ábyrgð á málinu. Enginn ber í raun ábyrgð á því nema auðvitað að einhver taki að sér að axli hana eins og ríki og sveitarfélög. Vandamálið er hins vegar ekki stórt og margt brýnna en það ætti samt að vera einhvers staðar í röðinni. Þetta mætti vera í einhverri áætlun. Vitanlega mætti gera eitthvað strax, setja upp einhver varnaðarorð og sums staðar hefur það verið gert,“ segir hann.
Hins vegar sé þá í mesta lagi tekið fram að fólk fari í laugina á eigin ábyrgð án frekari skýringa. Heilbrigðiseftirlitið sinni málinu þó með því að taka annað slagið sýni svo til séu upplýsingar um stöðuna. „Ég myndi ekki fara í þessar náttúrulaugar í dag. Ég gerði það mjög mikið fyrir svona þrjátíu árum síðan og varð ekki meint af. Ég held að ég hafi farið í nær allar laugar landsins sem eru allmargar. Kannski erum við komin á þann stað að ekki sé hægt að njóta þess að fara í náttúrulaugar. Nema þá að taka ákveðna áhættu.“
„Það er í sjálfu sér ekkert hægt að gera annað en að fræða fólk um skaðsemi þess að fara í náttúrulaugar sem eru fullar af gerlum,“ segir Anton Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Í sýnatöku Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða á gerlum- og bakteríum í náttúrulaugum á Vestfjörðum kemur fram að magn þeirra er langt umfram viðmiðunarmörk.
„Það þarf að kveða niður þennan klórdraug. Klór er allra meina bót. Hann er sóttvörn sem drepur gerla baðgesta,“ segir Anton og bætir við að það sé ekkert heilnæmt við að fara í svokallaða náttúrulaug sem er full af gerlum og bakteríum. Hann bendir á að bað í slíkum laugum gæti reynst ungum börnum sérstaklega slæmt. „Við erum með skjalfest dæmi um bæði húðsýkingar og eyrnabólgur sem rekja má til náttúrulauga,“ segir Anton.
Hann segir ástandið slæmt sérstaklega eftir að gefin var út bók með náttúrulaugum og náttúrpottum landsins sem margar hverjar eru í einkaeigu. „Menn fara ofan í allar laugar og potta alveg sama hversu mikill drullupyttur þetta er,“ segir Anton.
Hann segir heilbrigðiseftirlitið hvorki með tæki né tól til að sinna eftirlitinu því ekki er alltaf vitað hverjir eru eigendur lauganna. Öðru máli gegnir um sundlaugar eru reknar af sveitarfélögum og yfir þær gilda ákveðnar reglur en ekki hinar.
Krossneslaug í Árneshreppi, sundlaug í Reykjarfirði og fleiri laugar á landinu eru dæmi um sundlaugar þar sem gerla- og bakteríumengun var mikil.