Hvernig verður ölkelduvatn til?

Heimild:  

 

Um ölkeldur á Íslandi er fjallað í grein eftir Stefán Arnórsson (Eldur er í Norðri, Reykjavík, Sögufélag 1982, bls. 401-407). Ölkelduvatn, sem getur verið ýmist kalt eða heitt, hefur verið skilgreint þannig að samanlagður styrkur karbónats (CO2 + HCO3 + CO3) í því sé 1 gramm eða meira per lítra vatns. Fyrir hérlent ölkelduvatn undir 100 stiga hita telur Stefán Arnórsson í ofannefndri grein rétt að setja mörkin við 0,3 grömm/lítra. Styrkurinn í Rauðamelsölkeldu er 0,62 g/l.

Hér á landi eru ölkeldur langflestar á Snæfellsnesi, oftast kaldar. Hins vegar er ölkelduvatn víðar að finna, til dæmis við Leirá í Borgarfirði, Klausturhóla í Grímsnesi, Þveit í Hornafirði og á Ölkelduhálsi í Hengli.

Í fyrsta lagi hefur útstreymi CO2 löngum verið tengt kulnandi eldvirkni, bæði erlendis og hér á landi, svo sem í lok Heklugossins 1947 og í Kröflueldum. Í þeim tilvikum er talið að gufan sé upprunnin í grunnstæðum kólnandi kvikuinnskotum. Sama mun eiga við um ölkeldur á háhitasvæðum, en uppspretta orkunnar þar er talin vera kólnandi kvika. Slíku er hins vegar ekki til að dreifa á Snæfellsnesi, þar sem eldvirkni í Hnappadal lauk fyrir að minnsta kosti 1000 árum, og sennilega að mestu fyrir 3-4000 árum.

Í öðru lagi sýna rannsóknir að vatnið í ölkeldunum á Snæfellsnesi er staðbundið regnvatn, sem sigið hefur misdjúpt niður í berggrunninn áður en það kom upp aftur. Hins vegar dugir þetta ekki til fulls sem skýring því að kolsýran hlýtur að vera af annarri rót. Hér á landi er engum bergtegundum til að dreifa sem gætu gefið af sér kolsýru í miklu magni en sums staðar erlendis leysir kolsúrt grunnvatn upp kalkstein þannig að koltvísýringur myndast í lausninni.

Þess vegna er þriðja skýringin sennilegust, að kolsýran í ölkeldum á Snæfellsnesi eigi rætur á miklu dýpi, miklu neðar en grunnvatn berst (~3 km), annað hvort í djúpstæðri, storknandi kviku eða í jarðmöttlinum sjálfum — kannski á 10-30 km dýpi. Þannig eru ölkeldurnar til vitnis um afloftun jarðar, þar sem CO2 berst upp um hið VNV-læga sprungukerfi sem einkennir eldvirkni á Snæfellsnesi síðustu milljón árin eða svo.

Fleira áhugavert: