Matvælaframleiðsla í breyttu umhverfi

Heimild:  bloggid

 

Bjarni Jónsson

Bjarni Jónsson

Það er engum blöðum um það að fletta, að matvælaframleiðendur starfa nú í náttúru á óvenju miklu breytingaskeiði. Víðast hvar virðast breytingarnar vera til hins verra, en á Íslandi virðast þó framleiðsluskilyrðin í heildina séð hafa batnað með hækkandi ársmeðalhitastigi. Vaxtarhraði vex og jaðarstarfsemi á borð við kornrækt verður arðsöm, svo að nokkuð sé nefnt. 

Þó eru áhöld með lífríki hafsins, eins og innreið makríls og meint brotthvarf loðnu eru dæmi um.  Hækkandi sýrustig hafsins (lægra PH-gildi) með upptöku um 2/3 hluta losaðs koltvíildis á landi hefur slæm áhrif á skeldýr og aðrar kalkmyndandi lífverur, og sjávarstaðan hækkar um nokkra mm á ári hér norðurfrá vegna jöklabráðnunar og aukins rúmtaks við hlýnun.   

Eitt skæðasta einkenni loftslagsbreytinganna er misskipting úrkomu á jörðunni, sem leitt hefur til staðbundinna þurrka sums staðar og úrhellis annars staðar.  Á Íslandi er líklegt, að meðalúrkoma á landinu fari vaxandi með hækkandi hitastigi sjávar og neðstu laga lofthjúpsins. Ákoma jökla í tonnum vex þá, þó að flatarmál þeirra minnki.  Allt eykur þetta við vatnsbúskap virkjanafyrirtækjanna, sem eykur vinnslugetuna að öðru jöfnu, ef miðlunarlónin eru stækkuð til að taka við vaxandi vatnsmagni.

Þótt ekki kæmi til þessarar aukningar, er leitun að landi í heiminum, og sannarlega á Vesturlöndum, þar sem jafnmiklar birgðir eru ferskvatns, svo að ekki sé minnzt á jökulvatn, á hvern íbúa og hér á Íslandi.  Við erum vel aflögufær um vatn, og markaður fyrir vatn á brúsum eða tönkum mun fyrirsjáanlega vaxa stórlega á næstu áratugum.  Fer vel á því, að vatnskræf iðnaðarferli á borð við áliðnað eru staðsett á Íslandi, en í kæliferlum áliðnaðarins, að úrvinnslu í steypuskála meðtalinni, eru notuð um 50 t ferskvatns/t áls, nema sjór eða loft séu nýtt í varmaskiptum, sem hefur ýmsa ókosti í för með sér.

Ekki þarf að orðlengja, að rafmagn álveranna hérlendis kemur mestallt úr fallorku jökulvatna, en að öðru leyti úr jarðgufu. Ekki eru áhöld um hagkvæmni og sjálfbærni fallvatnanna, en hins vegar orkar nýting jarðgufu til raforkuvinnslu einvörðungu tvímælis, og sjálfbærnin er þar ekki fyrir hendi, eins og oflestun gufuforða Hellisheiðarvirkjunar er víti til varnaðar um.

matur-heimurinnFrá sjónarmiði sjálfbærrar auðlindanýtingar er nauðsynlegt að greiða gjald fyrir vatnsnotkunina, en margir eiga erfitt með að sætta sig við þá tilhugsun og telja, að aðgangur að vatni, sem fellur af himnum ofan, sé sjálfsagður réttur hvers og eins.  Þar sem um hörgulauðlind er að ræða, í mótsetningu við andrúmsloftið, felur gjaldtaka vatns í sér ráðstöfun þess með hagkvæmari hætti og minni sóun. Um þetta eru auðlindahagfræðingar heimsins sammála, og hérlendis er ósiðlegt annað en fara vel með þessa gjöf náttúrunnar, þótt ríkulega sé útdeilt af sköpunarverkinu.

Hæstiréttur Íslands hefur mótað réttindi sveitarfélaga til álagningar fasteignagjalds á vatnsréttindi virkjunaraðila, og er það vel. Ættu sveitarfélög að gera gangskör að innleiðingu gjaldtöku af vatnsréttindum af virkjunarfélögum, nema um bæjarlæki í einkaeign sé að ræða.

Í stað þess, að vatnsskattur sé hluti af fasteignagjöldum sveitarfélaga af húsnæði, ætti að selja ferskvatn samkvæmt mældri notkun hvers og eins með svipuðum hætti og hitaveituvatn til að auka meðvitund notenda um þessa dýrmætu auðlind.  Verðið þarf að endurspegla jaðarkostnað við öflun viðbótar vatns og dreifingu þess ásamt vatnsvernd, sem vex að mikilvægi með auknu þéttbýli og aukinni landnýtingu. Gjaldtakan á hins vegar ekki að vera tekjustofn til óskyldra útgjalda að hálfu sveitarfélagsins.

Gjaldtaka flestra hitaveitna er reyndar gölluð og felur í sér hættu á mismunun viðskiptavina, því að inntakshitastigið er mismunandi, og þess vegna ættu þær að selja samkvæmt orkumæli eða metinni orkunotkun samkvæmt hitamæli og magnmæli, en ekki einvörðungu samkvæmt magnmæli (vatnsmassa í kg). Sá, sem fær 60°C heitt vatn að inntaki sínu, þarf um þriðjungi meira vatn til að hita upp sams konar húsnæði en sá, sem fær 70°C, að öðru jöfnu.

Vatn þekur 2/3 yfirborðs jarðar, og það eyðist sjaldnast við notkun, heldur fer í hringrás.  Þess vegna vekur undrun, að vísindamenn við Tækniháskólann í Massachusetts, MIT, spá því, að um miðja 21. öldina muni meira en helmingur mannkyns búa við vatnsskort eða yfirvofandi ferskvatnsþurrð.

Ein skýring er sú, að við fjölgun manna og bættan hag eykst vatnsnotkun.  Önnur skýring eru loftslagsbreytingar, sem auka öfgar í veðurfari, bæði þurrka og úrfelli.  Hugveitan WRI, The World Resources Institute, raðaði upp 167 löndum og fann út, að 33 (20 %) þeirra muni standa frammi fyrir grafalvarlegri þurrkatíð árið 2040.  Þau eru í Norður-Afríku og Mið-Asíu, og þaðan er flóttamannastraumur þegar hafinn.

Hins vegar stafar hluti vandamálsins af lélegri stjórnun á vatnsnýtingunni, og ráðstefnuþátttakendum á árlegri loftslagsráðstefnu SÞ í rykugri Marrakesh-borg í byrjun nóvember 2016 hefði verið nær að nota tímann til að þróa gagnlegt vatnsstjórnunarkerfi, sjálfbæra auðlindastýringu, en blaðra hver upp í annan um loftslagsmál. Mikilvægur þáttur í að aðlaga sig hlýrra loftslagi er að þróa haldbærar aðferðir við úthlutun vatnsréttinda.

Hver fullorðinn þarf aðeins á að halda fáeinum lítrum á sólarhring, en til að framleiða næg matvæli ofan í hvern fullorðinn þarf hins vegar hundruði lítra á sólarhring, og ef sá fullorðni ætlar að leggja sér naut eða svín til munns, þá þarf í máltíðir þess dags þúsundir lítra vatns á sólarhring.

rigningÁ heimsvísu fer mest af vatnsnotkuninni til landbúnaðar, eða 70 %, og iðnaðurinn notar um 25 % og 5 % fara í annað. Þessu er reyndar ekki þannig  farið á Íslandi, af því að minni þörf er á vökvun ræktarlands, nema vökvun grænmetis í beðum utan og innan gróðurhúsa, og af því að iðnaðurinn er stórtækur á vatnslindir hérlendis.

Sökum þess, að bændur og iðnjöfrar hafa í mörgum löndum umtalsverð áhrif á embættis- og stjórnmálamenn, borga þeir yfirleitt allt of lítið fyrir vatnið m.v. raunkostnað til lengdar og líklegt verð á frjálsum markaði.  Sums staðar er aðeins greitt fyrir rekstrarkostnað vatnsöflunar og dreifingar, en ekki fyrir fjárfestingar í viðkomandi innviðum. Slíkt er auðvitað of lág og ósanngjörn verðlagning gagnvart komandi kynslóðum. Víða er ekkert greitt fyrir ósjálfbæra nýtingu á vatnsforða neðanjarðar. Slíkt má nefna spillingu. T.d. eru 2/3 af vökvunarvatni Indlands dælt upp þannig.

Það er segin saga, að þegar eitthvað er of ódýrt, þá er bruðlað með það. Í auðvalds-kommúnistaríkinu Kína er notað tífalt magn vatns á hverja framleiðslueiningu á við það, sem tíðkast í þróuðum (ríkum) ríkjum, svo að dæmi sé tekið. Bændur á þurrkahrjáðum svæðum Kaliforníu rækta vatnsfrekt grænmeti og ávexti á borð við lárperur, sem Kalifornía gæti hæglega flutt inn frá vatnsríkari héruðum og aukið þannig vatn til sparneytnari ráðstöfunar.  Lykilatriði til bættrar vatnsnýtingar er að verðleggja vatnið almennilega, þannig að notendur fari vel með það og fjárfestar láti hanna og setja upp viðeigandi mannvirki til öflunar, hreinsunar (verndar) og dreifingar.

Þörf er á gríðarlegum upphæðum: yfir 26 trilljón bandaríkjadölum (TUSD 26) árin 2010-2030 samkvæmt einni áætlun á heimsvísu.  Áður en hægt verður að verðleggja vatnið almennilega verður á hinn bóginn að ákvarða eignarhaldið eða nánar tiltekið, hver á rétt til nýtingar á tilgreindu magni úr ám, lindum neðanjarðar o.frv.  Ástralía hefur haft forystu um að búa til slíkt hlutdeildarkerfi (kvótakerfi) framseljanlegra vatnsréttinda, sem þykir lofa góðu.

Þetta minnir að mörgu leyti á íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið.  Á Íslandi stóðu menn um 1980 frammi fyrir hruni nytjastofna vegna ofveiði með allt of stórum flota.  Verkefnið var að ákveða, hvernig skipta ætti takmarkaðri og minnkandi auðlind á milli nýtingaraðila.  Alþjóðleg viðurkenning hafði þá nýlega fengizt á 200 sjómílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, og það var einhugur í landinu um, að innlendar útgerðir skyldu sitja að nýtingunni.  Þær voru hins vegar illa staddar fjárhagslega árið 1983 vegna offjárfestinga m.v. minnkandi afla.

Réttlátast og sársaukaminnst þótti við þessar aðstæður, að þeir, sem stundað hefðu veiðar undanfarin 3 ár eða meira, fengju að halda þeim áfram, en í skertum mæli samkvæmt sjálfbæru aflamarki og hlutfallslegri aflaheimild í samræmi við veiðireynslu.  Aflahlutdeild var bundin við skip, og til að nýliðun gæti orðið í greininni var um 1990 heimilað frjálst framsal aflahlutdeilda yfir á önnur skip.  Þar með var komið á markaðskerfi með nýtingarrétt takmarkaðrar auðlindar í hafinu, þótt viðurkennt sé, að enginn eigi né geti átt óveiddan fisk í sjó, hvorki útgerðarmenn, ríkissjóður né þjóðin, enda eru miðin almenningur, eins og verið hefur frá landnámi.

Þetta er í grundvallaratriðum sama kerfið og færustu auðlindasérfræðingar ráðleggja, að viðhaft sé við ráðstöfun allra takmarkaðra auðlinda heimsins.  Enginn málsmetandi auðlindahagfræðingur hefur ráðlagt ríkisvaldi að taka nýtingarrétt af einkaaðilum með eignarnámi og efna síðan til óskilgreinds uppboðs á hinu ríkistekna þýfi.  Í Íslandi stenzt slíkt eignarnám ekki stjórnarskrárvarinn eignarrétt, því að því fer fjarri, að eignarnám sé eina leiðin til að tryggja almannahagsmuni í þessu tilviki, eins og er eitt af skilyrðunum fyrir veitingu eignarnámsheimildar.

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi á Íslandi tryggir almannahagsmuni bezt alls þekkts fyrirkomulags á þessu sviði, því að það framkallar mestu hugsanlegu, sjálfbæru verðmætasköpun á hvert tonn, eins og reynslan sýnir, og þar af leiðandi hámarks skattspor allra hugsanlegra kerfa í þessari grein.

 

 

Fleira áhugavert: