Ríkisstofanir – 182 stofnanir í 300 þúsund manna samfélagi ..ótrúlegt
Febrúar 2016
Það er í raun ótrúlegt að 300 þúsund manna samfélag skuli halda úti 182 ríkisstofnunum og nokkur hundruð rekstrareiningum til viðbótar á sveitarstjórnarstig. Flestir stjórnmálamenn virðast sammála um ávinning sem getur falist í færri og skilvirkari opinberum stofnunum, en samt hefur lítið verið um aðgerðir í þeim efnum. Þetta sagði Hreggviður Jónsson, fráfarandi formaður Viðskiptaráðs Íslands í ræðu sinni á Viðskiptaþingi í dag.
Hreggviður kom víða við í ræðu sinni og sagði meðal annars að ef ekki yrði stefnt að því að margfalda íbúafjölda hérlendis á næstu árum þyrftu stjórnvöld að móta umgjörð atvinnulífsins með hliðsjón af þremur áskorunum sem fylgja smæðinni.
Í fyrsta lagi búi íslensk fyrirtæki við of miklar efnahagssveiflur. Sagði Hreggviður sveiflur almennt heilbrigðismerki, en að óstöðugleikinn hér væri úr hófi fram. Erfitt væri að móta langtímaáætlanir, byggja upp sérhæft vinnuafl og standa í fjárfestingum.Sagði hann opinber fjármál, stöðugleiki á vinnumarkaði vera Akkilesarhæl atvinnulífsins. Þá krefðist örsmár gjaldmiðill miklu meiri aga í hagstjórn en sýndur hefði verið.
Í öðru lagi sagði hann stofnanakerfi og leikreglur hér á landi ekki í takt við eðli hagkerfisins. Við værum með stofnanakerfi á við margfalt stærri ríki og þar af leiðandi væri hærri hlutfallslegur kostnaður og rýrari gæði. Nefndi hann meðal annars þann mikla fjölda ríkisstofnana sem kom fram hér að framan. Þá sagði Hreggviður leikreglur ekki sniðnar að aðstæðum, heldur væri regluverk og eftirlit meira íþyngjandi en víða annars staðar í stað þess að vera með skilvirkar og sveigjanlegar leikreglur.
Í þriðja lagi nefni hann ýmsar viðskiptahindranir sem hefði verið komið á til að koma í veg fyrir aukna framleiðni innlendra fyrirtækja. Sagði hann hömlur gegn alþjóðlegri ekki góða og að aukin framleiðni væri grundvallar drifkraftur í hagkerfinu. Með hömlum væri verið að draga úr þessum drifkrafti. Sagði hann nærtækasta dæmið vera tollvernd á landbúnaðarvörur, en einnig hindranir á erlenda fjárfestingu, flóknir neysluskattar, stimpilgjöld og aðrir sértækir skattar. Gagnrýndi hann einnig beina samkeppni hins opinbera í ákveðnum greinum og nefndi Sorpu, Landsbankann, Ríkisútvarpið, Fríhöfnina, Íslandspóst og ÁTVR sem dæmi.
Hreggviður fór svo yfir kjarasamninga síðustu missera og sagði þá hafa verið innistæðulausa. Þrátt fyrir það sagði hann aðila vinnumarkaðarins sammála um nýtt verklag við samningagerð og því beri að fagna.
Ítrekaði Hreggviður að framleiðni á Íslandi væri lág samanborið við helstu nágrannaríki Íslands og að vandinn fælist í lágri framleiðni vinnuafls. Sagði hann framfarir á þessu sviði geta skilað verulegum lífskjarabótum og sagði hann innlenda þjónustugeirann þann hluta sem byði upp á mestu tækifærin.