Norðlingaölduveita talin hagkvæmasti orkukosturinn
Ágúst 2010
Landsvirkjun taldi Norðlingaölduveitu á sínum tíma hagkvæmasta kost sinn til orkuöflunar sem hún gæti gripið til með skömmum fyrirvara. Þeim áformum var hins vegar frestað fyrir sex árum.
Með Norðlingaölduveitu er hugmyndin að stífla Þjórsá um átta kílómetrum fyrir neðan friðland Þjórsárvera en við það myndast nærri fimm ferkílómetra lón. Þaðan yrðu síðan grafin aðrennslisgöng áleiðis til Þórisvatns. Norðlingaölduveita er því ekki virkjun sem slík heldur snýst hún um að veita hluta af rennsli efri Þjórsár yfir í Þórisvatn, helsta vatnsforðabúr Landsvirkjunar, svo framleiða megi meira rafmagn í virkjunum við Vatnsfell, Sigöldu, Hrauneyjafoss og Búðarháls.
Úrskurður Skipulagsstofnunar árið 2002, þar sem fallist var á framkvæmdina, gerði ráð fyrir sjöfalt stærra lóni sem náð hefði inn í friðlandið. Lónið umdeilda minnkaði hins vegar með úrskurði Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, árið 2004, og hélt þeirri stærð með dómi Héraðsdóms árið 2006, en þar með var lónið alfarið komið út úr friðlandinu. Þetta reyndist þó ekki sú málamiðlun, sem margir töldu, heldur settu andstæðingar Norðlingaölduveitu nú fram nýja kröfu; þá að friðland Þjórsárvera yrði stækkað og veitan útilokuð.
Deilan snýst ekki síður um þrjá fossa í efri hluta Þjórsár, en Dynkur þykir þeirra mikilfenglegastur. Það er hins vegar þegar búið að skerða fossana með Kvíslaveitum fyrir aldarfjórðungi en þá var um 30 prósent af rennsli þeirra tekið. Með Norðlingaölduveitu hyrfi um 40 prósent af vatninu til viðbótar. Landsvirkjun hefur á móti boðist til að halda rennsli fossanna nær óbreyttu afmarkaðan tíma yfir sumarið, í júlí og ágústmánuðum.