Taprekstur á salernisaðstöðu á tjaldstæðinu á Skógum
Magdalena Jónsdóttir hefur yfirumsjá með tjaldstæðinu á Skógum. Hún segir bullandi taprekstur á rekstri salernisaðstöðunnar þar – hún kaupir klósettpappír fyrir 30 þúsund krónur á viku, en það kemur ekki nema tíu þúsund krónur inn uppí þann reikning.
Ódýrast fyrir Bandaríkjamanninn
Mynd læðist nú um Facebook þar sem sýnir tilkynningu, hvar kveðið er á um gjald fyrir afnot af salernisaðstöðunni á tjaldstæðinu á Skógum. Þar kostar aðgangur 200 krónur íslenskar, einn bandaríkjadal og eina evru. Ekki þarf annað en fara á forsíðu Vísis, neðarlega er gengi gjaldmiðla og ef settur er inn einn dollari segir sú reiknivél til um að hann sé á genginu 123 krónur, og ein evra er 138 krónur.
Þannig er ódýrast fyrir Bandaríkjamanninn að athafna sig á klósettinu, eilítið dýrara fyrir Evrópumanninn en dýrast er það fyrir Íslendinginn.
Flestir hlaupa frá klósettgjaldinu
Magdalena gefur nú ekki mikið fyrir þessar reiknikúnstir í tengslum við klósettgjaldið, hún kímir og bendir á að það sé nú svo að Kaninn og Evrópubúinn sé líka með íslenskar krónur.
„Það er ekkert svoleiðis,“ segir hún spurð um hvort það megi vera að það sé dýrara fyrir innfædda að kúka, en erlenda ferðamenn?
„Ég hækkaði þetta úr 100 í 200 kall en þetta eru svona þúsund manns sem fara þarna um á dag, þrjú til fjögur hundruð á hvort klósett um sig á dag. Ég er að fá í þessa bauka svona 2000 kall á dag, sem kemur í hvorn bauk. Ef allir, bæði Íslendingar og útlendingar, borguðu þó ekki væri nema hundrað krónur kæmi meira út úr þessu,“ segir Magdalena sem leiðir blaðamann Vísis í allan sannleika um rekstur á almenningssalerni.
Bullandi taprekstur á salernisaðstöðunni
Þannig er að um frjáls framlög er að ræða, ekki er þarna manneskja sem rukkar. Og grátlega fáir sjá sér fært að borga gjaldið. „Það fara svona fimm til sex stórar klósettrúllur á dag. Ég kaupi klósettpappír fyrir svona 30 þúsund á viku. Það eru svona 10 þúsund krónur sem koma inn á viku.“
Er þá bara bullandi taprekstur á klósettinu?
„Já, eða, ég er náttúrlega að reka tjaldsvæði þarna líka. En, ég fæ ekki inn fyrir pappírnum.“
Þetta virðist þannig ekkert sérstaklega góður „bisness“ en Hörður Þórhallsson, framkvæmdastjóri stjórnstöðvar ferðmála sér reyndar viðskiptatækifæri þarna, eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu.
Þar stendur hnífurinn í kúnni
Vísir hefur fjallað oft og ítarlega um ófremdarástand í ferðamálaþjónustunni víða um land; fyrir liggur skýrsla þar sem kemur fram að víða sé engri salernisaðstöðu til að dreifa. Og þarna stendur líkast til hnífurinn í kúnni. Fremur vanþakklátt er að bjóða uppá slíka þjónustu.
„Mér finnst sjálfsagt að hafa þetta opið,“ segir Magdalena og vísar til þjónustu almennt við ferðamenn. Og hún er að gera sitt besta. Hún fer reglulega á staðinn til að bæta við pappír, það kemur fyrir að hann klárist. „En, ég geri mitt besta. Reyni að hafa þetta eins þokkalegt og hægt er, klósettin þrifin og svoleiðis, en ég get náttúrlega ekki verið þarna allan sólarhringinn.“