Vatnstjón er heimilunum alltof dýrt

visir

Mars 2014

Björn Karslsson

Björn Karslsson

Það kom fram í fréttum að tryggingafélögunum bárust 6.700 tilkynningar um vatnstjón í fyrra, að langmestu leyti frá heimilum. Tjónið nam vel á þriðja milljarð króna, einnig að langmestu leyti á heimilum. Þá er ótalin röskun á daglegu lífi, óþægindi og jafnvel heilsutjón vegna raka og myglu. Þarf þetta að vera svona? Nei, því við getum gert ýmislegt til að draga úr líkum á að vatn leki og vinni skemmdir á heimilinu og innanstokksmunum.

Tryggingafélögin bæta vatnstjón að miklu leyti en þó er ljóst að heimilin sitja uppi með hundruð milljóna króna tjón á aðeins einu ári. Annars vegar greiða þau um 300 milljónir í eigin áhættu. Á hinn bóginn þurftu heimilin að bera allan kostnað í að minnsta kosti 1.500 tilvikum þar sem tjónið reyndist ekki bótaskylt. Samtals er hér líklega um að ræða kostnað upp á um 750 milljónir króna.

Í hverju og einu tilviki getur verið um fremur lágar upphæðir að ræða. Hins vegar eru fjölmörg dæmi um verulegt tjón. Þannig var í fyrra næstum daglega tilkynnt um vatnstjón sem nam einni milljón króna eða meira. Flest heimili munar um minna.

vatnsvarnarbandalagiðSamstarfshópur um varnir
Ellefu fyrirtæki, stofnanir og samtök hafa myndað samstarfshóp um varnir gegn vatnstjóni. Samstarfshópurinn telur að mjög megi draga úr vatnstjóni með fræðslu til almennings og aukinni þekkingu og fagmennsku iðnaðarmanna. Hann hefur gefið út fræðsluefni sem meðal annars er unnt að nálgast á mannvirkjastofnun.is. Þá hefur hópurinn þegar stuðlað að því að auka framboð á endurmenntun fyrir iðnaðarmenn til að bæta frágang í votrýmum, svo sem eldhúsi, þvottahúsi og á baðherbergi.
Að hópnum standa Félag dúklagninga- og veggfóðrarameistara, Félag pípulagningameistara, IÐAN fræðslusetur, Mannvirkjastofnun, Múrarameistarafélag Reykjavíkur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök um loftgæði, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., TM hf., VÍS hf. og Vörður tryggingar hf.

Hvernig verjumst við vatnstjóni?
Ég hvet lesendur til að kynna sér fræðsluefni samstarfshópsins þar sem fjallað er um leiðir til að verjast vatnstjóni. Meðal annars má nefna:

Að láta löggilta fagmenn ávallt annast pípulagnir og frágang í votrýmum (eldhús, bað, þvottahús), svo sem múrverk, flísalögn og dúklögn. Reynslan sýnir að ófagleg vinnubrögð eða fúsk getur orðið fólki afar dýrkeypt. Einnig þarf að hafa fagmenn með í ráðum um val á tækjum og efnum.
Að fólk sinni umhirðu og eftirliti með lögnum og tækjum og bregðist við til að draga úr líkum á vatnstjóni eða koma í veg fyrir það.
Að fólk bregðist rétt við þegar vatnsleki verður. Þannig má koma í veg fyrir tjón eða draga úr því.                  

Fleira áhugavert: