Bryggjuhverfið mun stækka um 30%
Byggingaframkvæmdir við tvö fjölbýlishús í Bryggjuhverfinu, næst Sævarhöfða, eru nú á fullum skriði og tvö önnur fjölbýlishús í hverfinu, úti á tanganum, eru á teikniborðinu og alls er áformað að reisa átta fjölbýlishús í hverfinu í þessum áfanga.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, segir að ráðið hafi nýverið samþykkt skipulag úti á tanganum, í Bryggjuhverfinu, þar sem gert er ráð fyrir að rísi tvö fjölbýlishús.
„Það svæði er komið á það stig að fá byggingarleyfi. Björn Ólafsson arkitekt er að hanna fjölbýlishúsin, sem verða bara í samræmi við það sem þarna fyrir. Það var bætt við einhverjum íbúðum í húsin úti á tanganum en byggingarmagnið var ekki aukið,“ segir Hjálmar í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl