9000 dóu vegna kulda í England og Wales – víða kynt með gasi og rafmagni
Samkvæmt nýrri rannsókn má rekja 9000 dauðsföll veturinn 2014 til 2015 í Englandi og Wales til þess hversu kalt var á heimilum fólksins.
Rannsóknin var gerð af The University College London (UCL). Í niðurstöðum kemur fram að kuldi auki líkur á sýkingum í öndunarfærum, hjartaáföllum og heilablóðföllum. Af 43900 dauðsföllum á tímabilinu má rekja fimmtung til þessa.
Auðveldlega hægt að koma í veg fyrir dauðsföll
Jessica Allen, einn rannsakendanna, segir í samtali við BBC að þetta hafi ekki verið kaldasti vetur sem hefur verið skráður. Sagði hún að fólk væri að deyja vegna þess að eldsneytisverð hefði hækkað, tekjur væru lágar hjá þessum hópi og hús illa einangruð. Bætti hún við að hægt væri að koma í veg fyrir þessi dauðsföll með litlum tilkostnaði.
Í dag eru fimm milljónir í vanda
Árið 2000 setti ríkisstjórnin sér það markmið að vandinn myndi heyra sögunni til árið 2016. Markmiðið er langt frá því að nást, því enn búa 5 milljónir á köldum heimilum.
Hafa ekki efni á upphitun heimila sinna
Olive Naismith, 77 ára eldri borgari, þarf að sofa í stofunni því hún hefur aðeins efni á að hita upp eitt herbergi heima hjá sér. Hún býr ein, en þar sem hún fær full eftirlaun frá ríkinu er innkoma hennar of há til að hún flokkist með þeim fimm milljónum sem eru í vanda samkvæmt nýju greiningaraðferð ríkisstjórnarinnar.
Húsin eru víða kynt með gasi og rafmagni og er það miklu dýrara en kynding með hitaveituvatni. Það er líklega ástæða þess hve menn kynda lítið.
Heimild: Pressan