Alþjóðleg mótmæli við virkjun Svartár
Útlendir veiðimenn eru ósáttir við áform fyrirtækisins SSB Orku um vatnsaflsvirkjun í Svartá í Bárðardal, vatnsmestu þverá Skjálfandafljóts, og hafa þeir sett Facebook síðu á laggirnar þar sem þessum áformum er mótmælt.
Einn þeirra útlendu veiðimanna sem eru ósáttir við áformin er Norðmaðurinn Morten Harangen en hann hefur allt frá árinu 2005 komið til Íslands til að veiða í Svartá. Hann er forsprakki Facebook síðunnar „Save Iceland’s River Svarta“ en yfir tvö þúsund manns hafa skráð sig á síðunni.
Uppsett afl virkjunarinnar er 9,8MW og hyggst fyrirtækið selja raforkuna inn á landskerfið. Að stórum hluta er um sömu aðila að ræða og eiga félagið Íslandsvirkjun, sem reisti Köldukvíslarvirkjun á Tjörnesi og endurreisir nú Gönguskarðsárvirkjun við Sauðárkrók, auk frekari áforma um uppbyggingu smærri vatnsaflsvirkjana, m.a. Hólsvirkjunar í Fnjóskadal.
Áætlað er að stífla Svartána um 0,4 km ofan við ármót Grjótár, sem fellur í hana að austanverðu. Sambyggð stífla og inntaksvirki eru ráðgerð sem ca. 30 metra langur steyptur þröskuldur þvert á árfarveginn, með lokum ofan á. Aðrennslisæðin verður um 3 km löng, meðfram Svartá á austari bakka hennar og verður æðin öll niðurgrafin.
Gert er ráð fyrir stöðvarhúsinu skammt frá bakka Svartár, um 700 metra frá vegi þar sem hann sveigir frá ánni upp til móts við bæinn Bjarnastaði. Í skipulagsgögnum Þingeyjarsveitar kemur fram að leggja eigi 47 km langan jarðstreng (33kV), ásamt ljósleiðara, frá virkjun að tengivirki Landsnets við Laxárvirkjun.
Í umhverfismati áætlana voru umhverfisáhrif metin vegna breytinga á aðalskipulagi. Var fyrirhuguð breyting á skipulaginu ekki talin hafa veruleg áhrif á metna umhverfisþætti og því ekki gert ráð fyrir sérstakri vöktun umfram venjubundið eftirlit á framkvæmda- og rekstrartíma, segir í skýrslu sem Verkís vann fyrir sveitarfélagið.
Í bréfi sem Harangen hefur sent til fjölmiðla kemur fram að það þurfi ekki geimvísindamann til þess að sjá að þessar áætlanir muni eyðileggja viðkvæmt lífríki Svartár og jafnvel svæðisins í kring.
Hann segir að það séu ekki bara veiðimenn alls staðar að úr heiminum sem taki undir með honum og fleirum sem vilja vernda Svartá heldur séu það líka venjulegir Íslendingar sem geti ekki sætt sig við að land þeirra verði eyðileggingu að bráð. Hópurinn hefur nú sent umhverfisráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur, bréf þar sem hún er hvött til þess að koma í veg fyrir virkjunaráform í Svartá.
Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að Svartárvirkjun í Þingeyjarsveit skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Heimild: Mbl