Alþjóðleg mót­mæli við virkj­un Svar­tár

mbl

Morten harangen

Morten Harangen

Útlend­ir veiðimenn eru ósátt­ir við áform  fyr­ir­tæk­is­ins SSB Orku um vatns­afls­virkj­un í Svar­tá í Bárðar­dal, vatns­mestu þverá Skjálf­andafljóts, og hafa þeir sett Face­book síðu á lagg­irn­ar þar sem þess­um áform­um er mót­mælt.

Einn þeirra út­lendu veiðimanna sem eru ósátt­ir við áformin er Norðmaður­inn Morten Har­angen en hann hef­ur allt frá ár­inu 2005 komið til Íslands til að veiða í Svar­tá.  Hann er forsprakki Face­book síðunn­ar „Save Iceland’s Ri­ver Svarta“ en yfir tvö þúsund manns hafa skráð sig á síðunni.

SvartaUpp­sett afl virkj­un­ar­inn­ar er 9,8MW og hyggst fyr­ir­tækið selja raf­ork­una inn á lands­kerfið. Að stór­um hluta er um sömu aðila að ræða og eiga fé­lagið Íslands­virkj­un, sem reisti Köldu­kvísl­ar­virkj­un á Tjör­nesi og end­ur­reis­ir nú Göngu­sk­arðsár­virkj­un við Sauðár­krók, auk frek­ari áforma um upp­bygg­ingu smærri vatns­afls­virkj­ana, m.a. Hóls­virkj­un­ar í Fnjóska­dal.

Áætlað er að stífla Svar­tána um 0,4 km ofan við ár­mót Grjótár, sem fell­ur í hana að aust­an­verðu. Sam­byggð stífla og inntaks­virki eru ráðgerð sem ca. 30 metra lang­ur steypt­ur þrösk­uld­ur þvert á ár­far­veg­inn, með lok­um ofan á. Aðrennslisæðin verður um 3 km löng, meðfram Svar­tá á aust­ari bakka henn­ar og verður æðin öll niðurgraf­in.

Virkjun SvartárGert er ráð fyr­ir stöðvar­hús­inu skammt frá bakka Svar­tár, um 700 metra frá vegi þar sem hann sveig­ir frá ánni upp til móts við bæ­inn Bjarn­astaði. Í skipu­lags­gögn­um Þing­eyj­ar­sveit­ar kem­ur fram að leggja eigi 47 km lang­an jarðstreng (33kV), ásamt ljós­leiðara, frá virkj­un að tengi­virki Landsnets við Laxár­virkj­un.

Í um­hverf­is­mati áætl­ana voru um­hverf­isáhrif met­in vegna breyt­inga á aðal­skipu­lagi. Var fyr­ir­huguð breyt­ing á skipu­lag­inu ekki tal­in hafa veru­leg áhrif á metna um­hverf­isþætti og því ekki gert ráð fyr­ir sér­stakri vökt­un um­fram venju­bundið eft­ir­lit á fram­kvæmda- og rekstr­ar­tíma, seg­ir í skýrslu sem Verkís vann fyr­ir sveit­ar­fé­lagið.

Í bréfi sem Har­angen hef­ur sent til fjöl­miðla kem­ur fram að það þurfi ekki geim­vís­inda­mann til þess að sjá að þess­ar áætlan­ir muni eyðileggja viðkvæmt líf­ríki Svar­tár og jafn­vel svæðis­ins í kring.

Hann seg­ir að það séu ekki bara veiðimenn alls staðar að úr heim­in­um sem taki und­ir með hon­um og fleir­um sem vilja vernda Svar­tá held­ur séu það líka venju­leg­ir Íslend­ing­ar sem geti ekki sætt sig við að land þeirra verði eyðilegg­ingu að bráð. Hóp­ur­inn hef­ur nú sent um­hverf­is­ráðherra, Sigrúnu Magnús­dótt­ur, bréf þar sem hún er hvött til þess að koma í veg fyr­ir virkj­un­ar­áform í Svar­tá.

Skipu­lags­stofn­un komst að þeirri niður­stöðu að Svar­tár­virkj­un í Þing­eyj­ar­sveit skuli háð mati á um­hverf­isáhrif­um sam­kvæmt lög­um um mat á um­hverf­isáhrif­um.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: